Ég skellti mér í magnaða ferð með Ungum jafnaðarmönnum á Aldrei fór ég suður og hef ekki skemmt mér svona vel lengi.
Ég var ótrúlega sátt við að sjá loksins Mammút spila en diskurinn þeirra hefur verið í spilaranum á bílunum mínum síðan í desember og er í algjöru uppáhaldi hjá mér.
Mugison var stórkostlegur að venju, gaman að sjá hann spila með hljómsveit því þegar ég sá hann seinast voru þeir bara tveir að spila á Mercury Lounge í New York sem voru reyndar magnaðir tónleikar.
Það var ótrúlega gaman að sjá Diktu spila fyrir framan svona mikið af fólki og ég er ekki frá því að hver einasti maður hafi kunnað hverja einustu línu í hverju einasta lagi, ég heyrði þá spila nokkur ný lög á miðvikudaginn á Dillon Sportbar í Hafnarfirði og er spennt að fá að heyra nýja plötu.
Agent Fresco tóku sín lög með snilld og ég uppgötvaði nýja sveit, Vicky, ég keypti diskinn þeirra á N1 á Ísafirði og er spennt að fara að hlusta.
Bix kom líka skemmtilega á óvart.
Annars var bara svo ótrúlega góð og skemmtileg stemmning á hátíðinni almennt og gestrini og hjálpsemi Ísfirðinga og nærsveitunga var ótrúleg.
Við fórum í sund á Suðureyri á laugardagsmorgninum, sundlaugin var opnuð fyrr og umsjónarmaðurinn bauð okkur upp á kaffi.
Aksturinn báðar leiðir var nokkuð ævintýralegur, sprungin dekk, bensínleysi, ónýt púst, útafakstur, ævintýraleg hálka og fleira en allt saman var þetta ógleymanlegt.
Á leiðinni til baka stoppuðum við á Reykjanesi, fengum okkur að borða og ég keypti æðislega ullarpeysu.
Út í aðra og leiðinlegri sálma þá verð ég að segja að Sjálfstæðisflokkurinn er alls ekki að ná að grafa sig upp úr holunni sinni og ég verð að segja að ég varð bara reið þegar Bjarni Benidiktsson sagði í fréttunum að það væri allt komið upp á borðið og flokkurinn væri búinn að gera allt sem hægt væri að gera og allt væri komið í ljós varðandi styrkjamálið. Ég er hjartanlega ósammála þessu, þeir eru búnir að ljúga og ljúga og í raun ekki búnir að láta neinn sem máli skiptir taka ábyrgð, ég hef enga trú á að Geir einn beri ábyrgð, að Kjartan hafi ekki vitað um þetta og að fólk sem er í framvarðasveit flokksins komi ekkert nálægt fjármögnun, það sér bara hver heilvita maður að þetta er ekki satt.