Friday, March 14, 2008

Mér finnst páskarnir vera óþægilega snemma í ár. Ég mun ekki geta fengið íslenskt páskaegg fyrren seint og um síðir því enginn kemur að heimsækja mig um páskana eins og verið hefur hingað til. Mamma og Baldvin munu þurfa að koma með það um miðjan apríl. Ég verð að segja að ég er ekkert hrifin af svona lauslætis-hátíðum sem aldrei eru tvisvar sama daginn.

Thursday, March 13, 2008

Það er smá viðtal við mig um uppgröftinn í Flatey í Bændablaðinu á bls. 2.
Sumarið er aðeins farið að skírast hjá mér, ég kem líklega heim í kringum 9. júní, fer út í Flatey að grafa 16.-30. júní og fer strax eftir það til Unst á Hjaltlandseyjum í uppgröft. Þaðan kem ég væntanlega 21. júlí og fer svo aftur til NY í kringum 12. ágúst því ég þarf að mæta í brúðkaup hjá Eriku 16. ágúst í Texas og vera brúðarmey. Því miður verður stoppið á klakanum því ekki langt þetta sumarið...

Tuesday, March 11, 2008

Í gær fór ég á fyrirlestur Colin Renfrew hjá NYU. Hann fjallaði um listaheiminn og þjófnað á munum úr fornleifauppgröftum sem síðan eru seldir dýru verði til safnara og listasafna eins og the Metropolitan Museum of New York. Þar eru menn svo klárir (eða þannig)að kaupa aðeins gripi sem hægt er að sanna að hafi komið fram fyrir 10 árum eða meira! Nokkur önnur söfn hafa tekið upp þá reglu að kaupa aðeins muni sem komið höfðu fram fyrir samþykkt UNESCO 1970. Metropoplitan safnið er líka alltaf að þurfa að skila hlutum sem komið hefur í ljós að hefur verið stolið frá löndum eins og Ítalíu og Tyrklandi í ólöglegum uppgröftum sem hafa þann eina tilgang að finna listmuni til að selja og eiga ekkert skilt við fornleifafræði, ekki gott mál.
Eftir fyrirlesturinn fórum við Mike svo á tónleika í Bowery Ballroom með Quintron and Miss Pussycat sem voru snilld, þau voru með brúðuleikhús en aðal númerið voru The Black Lips sem við sáum líka í haust. Í alla staði skemmtilegur dagur.
Á laugardaginn fórum við Mike í Ikea og keyptum æðislegan svefnsófa. Við fáum hann þó ekki fyrren 22. mars, við erum spennt.

Wednesday, March 05, 2008

Eins og fram hafði komið fór ég með Eriku og Karyssu systur hennar í Brúða-hlaupið eldsnemma á fötudagsmorgun. Þegar við komum inn í búðina rúmlega 8 voru engir kjólar lengur á slánum heldur þurfti ég að fara og semja við aðra aðstoðarmenn um að láta mig fá kjóla þó að ég hefði engan til að láta í skiptum. Það tókst og ég held að Erika hafði á endanum mátað 30 mismunadi kjóla. Við vorum stöðugt að semja við aðra um skipti á kjólum en á endanum voru tveir kjólar sem við vorum hrifnastar af. Erika valdi hvítan kjól með miklu skrauti á efri hlutanum og á slóðanum sem fór henni mjög vel og var glæsilegur.
Við Ragnheiður fórum á Mýrina, eða Jar City, eins og hún kallast á enskri tungu á mánudaginn, myndin var bara sýnd hér í borg í 5 daga eða svo. Við höfðum hvorguar séð hana áður og skemmtum okkur konunglega. Það voru svona 10 aðrir í salnum sem okkur fannst nokkuð gott. Einum áhorfandanum fannst aðfarir Erlendar við sviðaát heldur ófagrar og greip andann nokkrum sinnum á lofti yfir því atriði. Það fannst okkur Ragnheiði afar fyndið. Annars held ég að fyndnasta atriðið í myndinni hafi verið þegar Siguðrur Óli var á stakeouti í Sandgerði, ég gat ekki haldið niðri í mér hlátrinum þá.
Mér fannst myndin mjög góð en veit ekki alveg hvort Ingvar E. hafi verið rétti maðurinn til að leika Erlend, kannski aðeins of mikill sjarmör þar á ferð til að vera sannfærandi.