Thursday, February 28, 2008



Ég drattaðist loksins til að setja inn nokkrar myndir frá Barbuda, því miður tók ég engar þar sem myndavélinni minni var að öllum líkindum stolið við öryggisleit í Minneapolis og hefur ekki skilað sér síðan.
Í dag er annars -8°C frost og ég er lítið spennt fyrir að fara út í kuldann. Á morgun er ég líklega að fara með Eriku og systur hennar að slást um brúðarkjóla fyrir hana, gamnið byrjar kl. 8 að morgni. Við sjáum hvernig það fer!

Saturday, February 23, 2008

Það snjóaði hjá okkur á aðfaranótt föstudags, að ég held í annað skipti í vetur sem snjó festir. Það hlánaði reyndar aðeins í dag en það er samt ennþá snjór á milli bíla og svona.
Við Mike fórum á myndina Juno um daginn og hún var snilld mæli tvímælalaust með henni.
Sumarið er ekki ennþá komið á hreint hjá mér en það gerist vonandi í næstu viku.

Monday, February 18, 2008

Í dag er 17°C hiti, reyndar skýjað en samt ansi ágætt. Ég labbaði í leikfimi á stuttermabol. Vinur Mike er í New York og ætlar að gista hjá okkur í kvöld. Það er mikið að gera hjá mér í skólanum en allt skemmtilegt svo það er fínt.

Wednesday, February 13, 2008

Við Mike fórum í óperuna á mánudaginn, það var æðislega gaman. Við sáum Óþelló og Renée Flemming fór með hlutverk Desdemónu og var stórkostleg og Kristinn Sigmundsson fór með hlutverk Lodovico, sendiherrans frá Feneyjum og var líka mjög góður þó hlutverkið væri ekki stórt.
Það var smá vetrarveður hjá okkur undanfarna 3 daga en núna er komin rigning og fallegi snjórinn frá í gær er allur horfinn.

Friday, February 08, 2008

Gvöð það er svo mikið að gera hjá mér.
Annars er allt gott að frétt af mér, ég komst heilu og höldnu heim frá Barbdua sem var stórkostleg. Ég náði smá lit sem er nú óðum að hverfa í þurru innilofti. Minjarnar sem við vorum að grafa upp voru æðislegar, frá Saladoid tímabilinu ca. 200-500 AD, fullt af flottu kermiki, skarti úr skel og stein verfærum. Við vorum að grafa upp ruslahaug á strönd sem sjórinn er óðum að brjóta í burtu en sem betur fer komumst við að því að minjarnar teigðu sig miklu lengra inn í land en áður var talið.
Það er fullt að gera í skólanum hjá mér, fullt af beinum að greina, skýrslur sem þarf að klára, greinar sem þarf að skrifa, umsóknir sem þarf að senda inn.
Við Mike fórum á tónleika í The American Museum of Natural History 25. janúar, hann vann miðana, þar komu fram hip hopparar frá Chicago svo sem Kid Sister og svo kom sjálfur Kanye West óvænt fram, það var ansi magnað.
Á mánudaginn erum við svo að fara að sjá Óþelló í Metropolitan óperunni, ég er mjög spennt.
Við fórum líka á þorrablót Íslendingafélagsins laugardaginn 26. janúar og það var mjög gaman. Mike borðaði flestan þorramatinn og var sérstaklega hrifinn af síldinni og hangikjötinu. Það var sungið og dansað við öll bestu Júróvisíjón-lög síðustu áratuga, má þar helst nefna Nínu.
Ég kippti líka heimildarmyndinni um Jón Pál með mér þegar ég var að hangsa í fríhöfninni í Keflavík og við horfðum á hana. Mike er því orðinn ansi vel sjóaður í dægurmenningu áttunda áratugarins. Hann er líka búinn að læra eitt íslenskt orð, handakriki, spurning hversu gagnlegt það er.