Monday, May 12, 2008

Sumarið er farið aftur og við Mike erum bæði lasin. Þetta er auðvitað sérlega heppilegur tími til að vera veik því því að í annarlok er alltaf svo lítið að gera.
Annars bjó ég til Royal karamelu-búðing í gærkvöldi handa okkur Mike. Nú fer Mike að vera búin að kynnast öllum hápunktum íslenskrar matargerðarlistar, brauði með bökuðum baunum og Royal búðingi.

Thursday, May 08, 2008

Það er komið sumar, ég er nú búin að vera sokkabuxnalaus í kjól í nokkra daga. Í dag er heitt og afar mollulegt. Ég er orðin spennt að koma heim, í dag er 1 mánuður og 1 dagur í það!

Monday, May 05, 2008

Við höfum verið með gest síðan síðastliðinn þriðjudag, Beth, hún er í doktorsnámi í Bretlandi og er að skoða galla í glerungi í kindum sem mögulega geta sagð okkur eitthvað um umhverfið sem blessaðar kindurnar ólust upp við nokkuð spennandi. Hún kom hingað yfir hafði til að fá kindakjálka og -tennur frá okkur fyrir verkefnið sitt. Við höfðum verið duglegar að skoða okkur um. Við fórum í Broolyn Museum og sáum sýningu Murukami sem er víst einn af kanónum nútímalistar og blandar saman hámenningu og lámenningu af einstöku listfengi. Verkin hans voru skemmtileg og ég hafði aldrei komið í þetta safn áður en það var mjög skemmtilegt og ekki jafn mikið af fólki og í hinum "frægari" söfnum borgarinnar.
Á eftir þetta hittum við Paolu og Ronnie vin hennar á Museum of Modern Art og þar skoðuðum við í snarhasti sýninguna hans Ólafs Elíassonar. Sumt vorum við ekki alveg að fatta en ég hafði gaman af vegg þöktum í lifandi hreindýramosa og foss-stjörnunum, í svartmáluðu herbergi drupu dropar úr loftinu og blikkandi ljós létu þá líta út eins og stjörnur. Eftir þennan langa dag vorum við orðnar nokkuð þreyttar og fórum heim til Paolu og borðuðum tælenskan mat.
Á laugardaginn fórum við svo í siglingu til Liberty Island þar sem Frelsisstyttan er og svo til Ellis Island þar sem tekið var á móti innflytjendum á 19. og 20. öld. Safnið þar var mjög skemmtilegt, ég fann ekki merki um neina Íslendinga þar en nokkur skandinavísk nöfn. Á eftir fengum við okkur pizzu á Grimaldi's Pizza sem er líklega einhver besta pizza í heimi. Mike og Beth ætluðu ekki að vilja bíða í röðinni en ég sannfærði þau og um leið og þau bitu í bökuna voru þau í himnasælu.
Í gær fór ég svo á fyrsta hlutan af almennu skyndihjálparnámskeiði. Ekki seinna vænna þegar maður er alltaf að vinna úti á landi þar sem ekki er alltaf stutt í næsta lækni að geta brugðist rétt við.
Ég er farin að hlakka til að koma heim og fara að grafa í Flatey.

Friday, May 02, 2008

Á miðvikudaginn fórum við Mike út að borða á grænmetisstað sem sérhæfir sig í að búa til gervi-kjöt mat. Ég fékk með þorskkökur (sem voru í raun úr soya) og Mike fékk sér mangó-kjúkling (sem var líka úr soya). Maturinn var mjög góður (og örugglega betri en þorkskökur úr alvöru þorski) en ég skil ekki alveg fólk sem er grænmetisætur en vill samt borða mat sem er plat kjöt. Það var líka hægt að fá gervi svínakótilettur og gervi kjúklingavængi þarna sem voru í laginu alveg eins og alvöru kjúklingavængir, svolítið fyndið.
Eftir þessa ljúffengu lífsreynslu fórum við á óperuna sem ég held ég sé búin að tala um svona 75 sinnum á þessu bloggi. Hún var mjög skemmtileg og þrælfyndin, Kristinn Sigmundsson reytti af sér brandarana í hlutverki Ósminns sem var geðillur þjónn eiganda kvennabúrsins. Kvenhlutverkin tvö voru líka dásamleg, þær neituðu að láta undan kröfum "eiganda" sinna um ást og allt saman fór þetta vel á endanum. Í heildina litið var þetta allt afar vel og skemmtilega gert og við skemmtum okkur konunglega.