Thursday, September 24, 2009

Það er enn yndislegt veður hérna í Cork, sól, logn og hlýtt. Það er líka allt ótrúlega grænt og fallegt ennþá, það er óhemju mikill gróður hér svo hvergi sér í auðan blett þar sem er ekki hreinlega þverhnípt klöpp eða steypa.
Ég er búin að vinna mikið þessa vikuna og mæta tvisvar í jóga. Núna er ég að greina lítið dýrabeinasafn frá uppgreftri á ring-ditch (ég kann ekki neina þýðingu á þessu orði) sem er líklega frá brons- eða járnöld. Í þessu litla safni sem er tengt brenndum mannabeinum var nánast heill hundur, kjálki af kú og kjálki af hesti. Þetta er mögulega einhverskonar fórn eða gjöf, spennó...

Tuesday, September 22, 2009

Vegna áskorunnar frá Hildi ætla ég loksins að blogga. Ég fór til Dublin um helgina á fund hjá vinnuhóp um fiskigildrur og rannsóknir á þeim. Ég vissi ekkert um fiskigildrur þegar ég fór en veit núna margt um þær, ég fer ekki út í það hér. Veðrið hér er búið að vera ótrúlega gott alveg síðan annan daginn minn í vinnunni þegar ég kom þangað rennandi blaut eftir að hafa labbað í hálftíma í hellirigningu, það var ekki mjög gaman en þó ekki svo slæmt því það er enn yfir 15°C hiti hér flesta daga.
Mér líkar rosalega vel í vinnunni í dag kláraði ég að greina þokkalega stórt beinasafn, í því var eitt jarðlag með fjórum brotnum nautgripahauskúpum, það var ansi skemmtilegt þrívíddar púsluspil.
Annars er það helst í fréttum að H&M er að opna hérna í Cork eftir allt saman, 1. október, svona eins og afmælisgjöf handa mér, ég er mjög spennt. Ég fékk líka loksins írsku kennitöluna mína í dag. Það eru mjög góðar fréttir því það þýðir að ég dett niður í að borga bara 20% skatt og fæ endurgreiddan oftekinn skatt. Skattkerfið hér er víst mjög skilvirkt (einn af ekki svo mörgum hlutum í stjórnkerfinu er mér sagt).
Umferðin hér er hins vegar fullkomlega brjálæðisleg, fólk keyrir mjög hratt, fer lítið eftir lögum og reglum og það er nauðsynlegt að vera sífellt á varðbergi. Ég er að verða búin að fatta að líta fyrst til vinstri og svo til hægri en ekki öfugt og hef ekki enn náð að fara mér að voða.

Monday, September 07, 2009

Þá er ég búin að mæta einn dag í vinnuna. Það gekk vel en ég byrja svo fyrir alvöru á morgun. Ég er spennt að byrja að skoða beinin, þó að þetta sé mest kýr og kindur svipað og heima þá eru líka dádýr, hérar, kanínur og margt fleira skemmtilegt og nýtt. Kindabeinin hér eru líka mjög ólík þeim íslensku, miklu minni og fíngerðari, ég á eiginlega erfitt með að trúa því.
Flestir uppgreftirnir sem ég er að greina úr eru frekar litlir svo það verður ekki mikið hægt að segja um þá en ég verð amk með einn stóran uppgröft úr yfirgefnu miðaldaþorpi og það finnst mér æðislega spennandi.
Ég ætla að mæta kl. 8 á morgun, sem þýðir að ég þarf að vakna um 6.30, taka lestina kl. 7.15 og labba svo í 30 mínútur. Ég vona að það rigni aldrei á meðan ég er hérna, amk ekki fyrren ég er búin að kaupa mér betri jakka...
Eftir vinnu fór ég svo í jóga sem var mjög fínt, gott að slaka á og teygja eftir stress og flutninga.
Til að svara spurningu sem kom fram þá er innan við 5 mínútna gangur á svona 6 mismunandi bari og 3 mínútur í verðlaunaða off-licence svo það er mjög auðvelt að verða sér út um áfengi hér.

Sunday, September 06, 2009

Flutningarnir miklu
Á föstudaginn var langur langur dagur. Fyrst ætla ég samt að tala um fimmtudaginn, ég gat ekki bloggað þar sem internetið í götunni þar sem farfuglaheimilið var bilaði. Ég hélt ég myndi deyja úr netskorti en svo fór ekki.
Á fimmtudaginn tókst mér að fá símanúmer og koma af stað umsókn um bankareikning. Ég fjárfesti líka í risastóru fjólubláu handklæði og gulllituðum íþróttaskóm sem ég réttlætti með því að ég þarf að labba í 20 mínútur frá lestinni í vinnuna og til þess þarf maður jú skó. Ég fór svo í stutta heimsókn á vinnustaðinn minn, það leit allt mjög vel út, ég deili skrifstofu með hinum dýrabeinafornleifafræðingnum, hinni finnsku Dr. Auli (hún heitir þetta). Skrifstofan okkar er sú besta í húsinu með góðum gluggum og ágætlega rúmgóð.
Eftir þetta fór ég svo að skoða fyrstu íbúðina mína í Cork. Það var ekki skemmtilegt. Hún var tveggja herbergja og á ágætum stað en húsið var mjög gamalt og sameignin skítug. Það lá fúkkalykt yfir öllu og þrátt fyrir að verið væri að vinna í að taka íbúðina sem mér bauðst til leigu í gegn er vandséð hvernig smá yfirhalning hefði getað komið þessum hjalli í íbúðarhæft stand. Ég fylltist smá örvæntingu við þetta enda var ég bara búin að mæla mér mót að skoða eina íbúð enn. Ég kom við á öllum leigusölum sem ég labbaði framhjá, og þær eru mjög margar í Cork en bara á einum stað voru þeir með íbúð sem þau voru tilbúin að leigja í svona stuttan tíma. Hún var reyndar dýrari en ég hafði áætlað en ég tilbúin að borga nánast hvað sem er bara til að þurfa ekki að búa í húsi með fúkkalykt og almennri ógleði.
Nú næsta íbúð var í skemmtilegu hverfi, rétt hjá kirkju og á tveimur hæðum en miðað við verðið þá var hún ekki í mjög góðu ástandi, dýnan gömul og ekki pláss fyrir borð af neinu tagi. Ekki gott.
Þriðja og seinasta íbúðin var líka á góðum stað nálægt lestarstöðinni við nokkuð stóra götu en uppi á terrace svo það er ekki hávaði frá umferðinni. Fyrst sýndi leigusalinn mér litla stúdíó íbúð nýupperða og fína en hann var líka með 1 herbergis íbúð við hliðina. Ég skellti mér á hana enda nýuppgert bað, allt hreint og snyrtilegt og vellyktandi, borð og sófi og stórir gluggar til suðurs. Myndir koma seinna.
Í gær lá ég bara í leti til að jafna mig eftir hamaganginn við flutningana, ég var alveg búin á því eftir að hafa borið heila búslóð úr hinum ýmsu búðum neðan úr bæ og heim.

Wednesday, September 02, 2009

Eftir ferðalag sem hófst á Laugavegi um kl. 4.30 í morgun er ég komin á farfuglaheimilið í Cork. Það er víst búið að rigna eins og hellt væri úr fötu hér í marga daga og allir eru óttalega blautir og hraktir eitthvað. Það var samt sól og gott veður þegar ég kom. Ég flaug með Iceland Express sem var ekki hræðilegt heldur bara fínt og eyddi svo dagsparti á flugvellinum í Gatwick. Það var þokkalegt. Ég var gífurlega fegin þegar ég var búin að innrita mig hjá Ryanair, ég var ekki með yfirvigt. Fyrir þá sem þekkja mig verður það að teljast kraftaverk að ég sé að flytja í 4 mánuði með samtals 25 kg.
Ég er pínu stressuð yfir að finna íbúð hérna, það er ekki verið að auglýsa margt og enginn vill leigja mér í 4 mánuði en þetta reddast er það ekki?
Á morgun verður svo íbúðaleit, bankaferð, kennitöluferð, símanúmersferð, ég spái að það eina af þessu sem ég muni geta klárað er að fá símanúmer en vonandi er það óþarfa svartsýni.