Sunday, April 30, 2006

Ég borðaði geggjaðan indverskan mat í gær með Ramonu og nokkrum vinkonum hennar, nammigott. The Decemberists eru frábærlega stórkostleg hljómsveit, besta lagið er The Infanta, nýja uppáhaldshljómsveitin mín.
Ég er að hugsa um að kaupa skóna í síðustu færslu þeir eru bara of flottir til að sleppa...

Tuesday, April 25, 2006


Ég held ég sé að flytja til Frakklands, þar eru 400-500 uppgreftir á ári á vegum hins opinbera og það eru 1200 fornleifafræðingar í fastri vinnu plús sérfræðingar.
Ég fór niður að Ground Zero í fyrsta skipti í dag, þetta er ansi stór hola. Ég fór á tónleika með afrískum jazzista sem voru ansi skemmtilegir.
Mig langar svakalega mikið í skó sem eru eins ópraktískir og hugsast getur en ég þrái þá.
Það er óhugnalega mikið að gera í skólanum en auðvitað er gott veður. Ég var að klára að lesa Flugdrekahlauparan, góð bók.

Wednesday, April 19, 2006

Ég reyndi að fara að kjósa utankjörstaðar á ræðismannsskrifstofunni í New York. Það hafðist ekki vegna tæknilegra örðugleika. Lyfturnar í húsinu, allar sem ein, voru rafmagnslausar og ég og Ragnheiður Helga vorum ekki alveg að fara að labba upp 36 hæðir. Ég reyni aftur á föstudaginn þar sem það er lokað á morgun vegna sumardagsins fyrsta. Þessi ferð var samt ekki alveg til einskis þar sem ég hitti sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Hjálmar W. Hannesson, hann var afar indæll og svo var líka gott veður.

Monday, April 10, 2006


Í dag krufði ég eitt stykki silkikanínu, sjá mynd, eða chinchilla eins og það útleggst á enskunni.

Voða krúttleg dýr ættuð úr Andes-fjöllum en þau eru víst frekar vinsæl gæludýr hér í landi og kosta í kringum $150, svona ekstra spes fín kanína enda miklu dýrari og þar af leiðandi betri.

Greyið sem ég krufði hafði því miður dáið á nokkuð kvalafullan hátt, iðrin voru sprungin og kviðarholið var allt fullt af mat. Hann hafði líklega ekki fengið nægilega mikið af grófmeti s.s. heyi og fræjum að borða og fengið garnaflækju. Krufningin var mjög lærdómsrík og ekki jafn ógeðfelld og ég hélt að hún myndi vera. Við hreinsuðum megnið af holdinu af beinunum, svo gröfum við restina í sand og látum maðkaflugu um að hreinsa beinin alveg. Beinin fara svo í samanburðarsafnið hjá skólanum.

Núna ætla ég að fara að gera ógeðslega leiðinlega og erfiða heimaprófið í Lingusitic Anthropology, ojbarasta!

Annars eru pabbi og co komin í Eplið en ég get ekki hitt liði fyrren á morgun því ég er ekki búin með prófið. Sé núna eftir að hafa ekki byrjað fyrr en það er of seint að fárast yfir því, um að gera að drífa þetta bara af og hananú.

Wednesday, April 05, 2006

Glöggir lesendur muna eflaust eftir færslu frá því á sunnudaginn þar sem ég fagnaði sumarkomu. Í dag snjóaði og svo segir fólk að veðrið sé bara geðveikt á Íslandi.

Tuesday, April 04, 2006

Ég og Hildur gella erum að fara á Hróarskeldu, búnar að kaupa miða og allt, ég er óheyrilega spennt.
Ég gerði ameríska skattframtalið mitt í dag, það var ekki jafn erfitt og pirrandi og ég bjóst við það eina virkilega asnalega er að ég þurfti að telja hvað ég var marga daga í Bandaríkjunum í fyrra, það fannst mér asnalegt.
Ég er annars að fara í þrítugsafmæli hjá Jeff kærasta Eriku herbergisfélaga míns á laugardaginn, ég held ég hafi aldrei áður farið í þrítugsafmæli en það gæti verið misminni.

Sunday, April 02, 2006

Sumarið er komið með sumartíma og öllu, hitinn er að rokka milli 15°og 20°C, sólin skín eins og hún eigi lífið að leysa og allt er smán saman að grænka. Ég fékk mér labbitúr í Central Park á fimmtudaginn í yndislegu veðri, allt fullt af fólki. Andrúmsloftið í borginni er strax búið að breytast á einhvern óútskýranlegan en samt áberandi hátt. Svo les ég fréttir um snjó og vitleysu heima á klakanum! Hí á ykkur!