Thursday, February 27, 2003

Hvað myndi ég gera ef ég fengi 70 milljónir í laun á ári?

Ég hef aðeins verið að velta þessu fyrir mér. Mér finnst líklegt að fólk með svo miklar tekjur vinni frekar mikið og geti því ekki dvalist langdvölum erlendis. Fyrir þennan pening má kaupa tvö stór einbýlishús og jeppa að auki. Það má fara út að borða á hverju kvöldi á Grillinu með alla familíuna. Kaupa dýr heimilistæki, hljómtæki, 30 dýr sjónvörp, Porsche, eyju á Breiðafirði, gott mjólkurbú, ógrynni af rándýrum fötum, fara í klippingu á hverjum degi. Já þetta eru miklir peningar. Ég hugsa að það sé fullt starf að eyða svona upphæðum hér á landi. Auðvitað fer tæpur helmingur í skatta en það er samt góður slatti eftir og fyrir þá peninga má gera ýmislegt. Maður gæti líka keypt trillu og kvóta, 5 sumarbústaði, einkaflugvél, litla snekkju eða heilan stigagang í blokkinni minni.
Fornleifafræðingar eru skrítnir. Ég er að lesa afar leiðinlega námsbók fyrir prófið hjá bróður Robin Williams. Þar er tilvitnin eftir höfund bókarinnar. Hún er mjög innblásin og er svohljóðandi: "The only truth is stratification."
Freyja hin vitra var að segja mér að það væri haloscan sem væri bilað en ekki ég. Það eru góðar fréttir.
Á Kreml.is er grein eftir Eirík Bergman þar sem hann er að segja nákvæmleg það sama um allt þetta Íraksmál og ég sagði 22. janúar 2003. Merkilegt hvað ég er stundum gáfuð.

Annars virðist commenta-kerfið mitt vera dáið en ég skil ekki afhverju þar sem ég hef ekkert verið að fikta í því. Ég veit ekki hvort ég á að reyna að laga það.

Wednesday, February 26, 2003

Ég held ég sé að fara að fá illvíga hálsbólgu. Tímasetningin er slæm vegna anna s.s. prófs og verkefnaskila í næstu viku, auk þess sem mér finnst leiðinlegt að vera veik.

Ég fór í Stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar í kvöld. Það var gaman og fræðandi. Mér finnst þetta sniðug hugmynd hjá þeim, þetta er ágæt aðferð til að örva fólk til gagnrýninnar umræðu og hjálpa leikmönnum að skilja hvernig þetta gengur allt sama fyrir sig.

Ég er heppna Albína um þessar mundir. Ég get bæði farið að vinna á Skriðuklaustri við að grafa og á Hróarskeldu. Nú er bara spurning hvað ég geri fyrripart sumarsins. Bæjarvinnan hljómar ekkert mjög vel auk þess sem ekki er víst að maður fái yfir höfuð vinnu þar þegar atvinnuástandið er svona slæmt.

Ég er uppfull af ýmiskonar pólitískum hugmyndum og vangaveltum eftir að hafa hlýtt á ræður frá Össuri, Jóhönnu og Ingibjörgu. Því meira sem ég hugsa því ljósara verður mér hvað það er margt í okkar samfélagi sem þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Ekki endilega af því að Sjálfstæðisflokkurinn og Davíð Oddsson hafi gert allt vitlaust heldur af því að Ísland og heimurinn allur hafa breyst meira en nokkurn óraði fyrir.
Landbúnaðarkerfið þarf að taka algjörlega í gegn. Ég veit það sjálf þar sem ég hef búið í sveit að margir bændur hafa það ekkert allt of gott. Að hluta til er það vegna óhagkvæmni, menntunarskorts og áhugaleysis. Hin hliðin er hinsvegar sú að það er erfitt fyrir ungt fólk sem vill hefja búskap að gera það nema það fái jarðir frá foreldrum sínum. Á hinn bóginn eru þeir sem neyðast til að taka við jörðum af því að þeim býðst ekkert annað þó að það vildi miklu heldur verða kennari eða bankastjóri en bóndi.
Ég á frænda. Hann er giftur. Bæði hann og hans ektakvinna eru hámenntuð í landbúnaðarfræðum og hafa margra ára starfsreynslu á mjólkurbúum. Þau langar ekkert frekar en að eignast sitt eigið kúabú. Það geta þau hinsvegar ekki því til þess að geta keypt sæmilega stóra jörð með nógum mjólkurkvóta til að tryggja hagkvæmni í rekstri þyrftu þau að eiga lágmark 10 milljónir og helst miklu meira. Góð jörð kostar nefnilega á bilinu 40-70 milljónir með öllu og það er stór biti fyrir ungt fólk að hefja búskap sem ekki á neinar umtalsverðar eignir. Þau geta sem sagt ekki orðið bændur þó þau vildu og hafi mikla menntun. Kannski er þetta stærsti vandi landbúnaðarins.

Svo er það Barnaspítali Hringsins. Ég vil byrja á að taka fram að starf Hringskvenna er ómetanlegt og án þeirra hefði spítalinn aldrei verið byggður og þær eiga þakkir skildar. Ég verð hinsvegar að segja að mér finnst alls ekki eðlilegt að til þess að reistur sé spítali með viðunandi aðstöðu fyrir veik börn og aðstandendur þeirra þurfi góðgerðarsamtök að safna hundruðum milljóna króna og gefa ríkinu svo peningana svo það sinni skyldu sinni. Það er alls ekki eðlilegt.
Ekker frekar en það er eðlilegt að Háskóli Íslands þurfi að reka happdrætti til þess að standa undir viðhaldskostnaði bygginga og nýbyggingum. Þetta eru hlutir sem ríkisvaldið á að sinna að mínu mati.

Skattakerfið er svo annað mál sem þarf að taka ærlega til í. Háir neysluskattar hverskonar á ,,munaðarvarningi'' eins og áfengi, bensíni og þessháttar eru algjör tímaskekkja. Þessar vörur eiga að vera skattlagðar með 24,5% virðisaukaskatti eins og flest annað sem fólk og fyrirtæki kaupa.
Skipting matvara milli vsk flokka er einnig úrelt. Til eru tveir skattflokkar fyrir matvöru 24,5% og 14%. Í 24,5% flokknum eru ,,munaðarvörur'' eins og lýsispillur en venjulegt lýsi er í 14% flokknum. Mér þætti gaman að vita hver ákveður hvað er munaðarvara og hvað ekki. Eru þá foreldrar sem eiga börn sem vilja bara lýsistöflur ýkt óheppnir?
Skattlagning á lágmarkslaunum, örorku- og atvinnuleysisbótum er annað dæmi um fáránlega heimskulega vitleysu. Hvaða lógík býr á bak við það að láta fólk fá peninga í formi örorku- og atvinnuleysisbóta til þess eins að taka hluta þeirra af þeim aftur? Þetta getur varla verið þjóðhagslega hagkvæmt því þetta er svo skelfing heimskulegt.
Mér finnst líka asnalegt að ungt fólk eins og ég sem á dulítið sparifé sem nota má til að mennta sig eða kaupa fyrstu íbúðina þurfi að borga af þeim vöxtum sem maður fær 10% fjármagnstekjuskatt. Ég gæti vel skilið það ef um einhverjar tugmilljónir króna væri að ræða en það er bara svo mikill tvískinnungur í því að röfla um að fólk spari ekki þegar hluti af vöxtum er tekinn í skatta. Það er næstum eins og að refsa fólki fyrir fyrirhyggjusemina.

Það var eitt afar merkilegt í sem kom fram þegar Ingibjörg svaraði spurningu ungrar stúlku um hvort Samfylkingin vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun. Ingibjörg sagði að það væri orðið of seint núna því málið væri komið svo langt. Þjóðaratkvæðagreiðslur þörfnuðust góð undirbúnings og mikillar umræðu og til þeirra væri aðeins hægt að boða með góðum fyrirvara. Það er allt saman satt og rétt hjá henni. Málið er bara að þjóðin er stundum svolítið sein að fatta. Ef spurt hefði verið fyrir tveimur árum hvar á landinu Kárahnjúkar væru hefði varla nokkurt mannsbarn haft hugmynd um það. Samt voru hjólin farin af stað strax þá, þjóðin gerði sér bara ekki grein fyrir því hvað varð að gerast því enginn sagði henni það. Ég er ekki að segja að stjórnvöld hafi leynt áformum sínum síður en svo. Það er nú samt bara einu sinni þannig að það er oft ekki fyrren á síðustu stundu sem fólk áttar sig á umfangi, eðli og áhrifum slíkra framkvæmda.
Það rann eiginlega ekki upp fyrir mér sjálfri fyrren ég sá myndina í sjónvarpinu um daginn með gaurnum sem reif blaðsíðurnar úr Hálendis bókinni sinni. Þegar ég horfði á þáttin hans Ómars síðastliðið sunnudagskvöld þar sem sást mjög vel hve mikið vatn fer undir lónið þá áttaði ég mig á því að núna væri síðasti sénsinn á að koma í veg fyrir þetta eiginlega úr sögunni. Það er búið að leggja of mikið af peningum í dæmið. Þetta þýðir ekki að mér finnist að andstæðingar virkjunnar eigi að gefast upp, alls ekki það er ekki öll von úti en útlitið verður sannarlega svartara með hverjum deginum.
Ég hvet bara alla sem vettlingi geta valdið til að skoða Kárahnjúka og Dimmugljúfur í sumar því líklega verða þau ekki sýnileg mikið lengur...

Verðtryggingin er enn annað mál. Hún er tímaskekkja og hana þarf að afnema eins fljótt og hægt er.

Þeir sem komust þetta langt fá klapp á bakið enda hetjur að nenna að hlusta á þetta þras í mér. Þeir sem hafa áhuga mega hringja, senda emil, commenta eða öskara á mig út á götu ef þeir eru ósammála einhverju sem hér kemur fram.

Tuesday, February 25, 2003

Um helgina verður skálaferð Fróða. Albína kemst ekki með því hún er að fara í miðannar-próf á þriðjudaginn. Miðannarpróf eru asnaleg enda fyrirmyndin amerísk. Það er hinn illi bróðir Robin Williams sem á sök á þessum óheppilegheitum.
Jæja þá er fyrsta atvinnutilboð sumarsins komið í hús. Það hljómar mjög vel að öllu leiti. Vinna við uppgröft í tvo mánuði, ágætis kaup og skemmtilegheit. Gallinn er bara sá að uppgröfturinn á að byrja í sömu viku og Hróarskelda sem ég hafði ætlað á. Nú er stóra spurningin hvort eitthvað sé hægt að hnika hlutunum til, annars gæti farið svo að keldan víki fyrir öðrum verkefnum 3 árið í röð. Jafnvel þegar ég er heppin er ég óheppin. Það er svo gaman að vera ég.

Monday, February 24, 2003

Ég hata netið hérna á Bókhlöðunni það er algjört hræ.

Svo skemmtilega vildi annars til að ég átti erindi á Þjóðdeild Þjóðarbókhlöðunnar í dag. Þar er margt kynlegra kvista og ég er ekki að tala um bækurnar. Þangað má helst ekki fara með töskur svo maður steli ekki bókum.
Þarna eru nokkur borð sem hægt er að sitja við og blaða í hinum ýmsu ritum. Tvo borðanna eru með hálfs meters háum blaðastöflum af ýmiskonar ljósritum og að auki er þar nokkrir kassar með pappírum á gólfinu. Þar stundar einn fastagestanna einhverskonar rannsóknir. Þær virðast ekki vera vel skipulagðar.
Áðan var hér á Bókhlöðunni drengur sem notaði ÁTVR poka fyrir skólatösku. Það var skopleg sjón.
Ég var skelþunn á sunnudagsmorgun þegar ég drattaðist fram úr rúminu. Afleiðngar bollunnar hennar Vöku voru vægast sagt skelfilegar. Margt fréttnæmt geriðst á aðfaranótt sunnudags og fóru tvær ágætar vinkonur mínar ekki einar heim en hér verða engin nöfn nefnd í því samhengi. Á kóræfingu á sunnudaginn bergmálaði skelfilega í höfðinu á mér, það var sárt.
Ég var líka frekar óhress er ég vaknaði í morgun, bollur láta ekki að sér hæða og taka tvo daga í þynnku. Ég verð að reyna að muna það næst.
Ég er búin að vera að vinna verkefni í allan dag. Því er loksins lokið. Þá vill andvétans emillinn ekki senda skjalið. Hjá mér gengur ekkert upp.

Ég fór á bókamarkaðinn í Smáralind og keypti nokkrar ágætar bækur. Það var gaman. Það er ótrúlegt hvað það hefur verið gefið út mikið af rusli á Íslandi.

Thursday, February 20, 2003

Hví get ég ekki andvétast til að ljúka við þetta bévítans verkefni? Ég er búin að eyða þremur dögum í að gera verkefni sem ætti að taka hámark 2 klst að gera en auðvitað get ég ekki gert þetta. Ég hlýt að vera haldin einhverskonar verkefnisklárunarkvíaáfallaröskun. Ég er 100% verkefna öryrki.
Það er eitt sem ég hef verið að velta fyrir mér. Þegar Sjálfstæðismenn ræða um skuldasöfnun borgarinnar á undanförnum árum þá er sjaldan talað um hvað peningarnir hafa farið í. Þeir setja dæmið fram eins og það hafi bara verið tekin ógeðslega mörg stór lán og svo hafi peningarnir bara horfið eða eitthvað. Þeir ætlast þó varla til þess að nokkur heilvita maður trúi því. Ef maður heila áttar maður sig á að málið er alls ekki þannig vaxið. Á undanförnum árum hefur borgin þurft að leggja út í umtalsverðar framkvæmdir meðal annars til að einsetja grunnskólana, byggja upp Orkuveituna og sinna örðum grundvallar þörfum hins ört vaxandi borgarsamfélags. Þetta ræða Sjálfstæðismenn aldrei, á þeim má næstum skilja að peningarnir hafi verið notaðir sem skeinipappír í Ráðhúsinu. Ég er alls ekki sérfræðingur í uppgjörum, ársreikningum og svoleiðis dóti en almenn skynsemi segir mér að ekki sé hægt að ræða um skuldaaukingu og rekstur borgarinnar án þess að ræða í hvað peningunum er varið. Það er ekki það sama að taka lán til að fjármagna daglegan rekstur og að taka lán til uppbyggingar og endurnýjunar. Mér þykir þessi umræða öll vera á villigötum og það væri miklu frjórra að ræða í hvað og hvernig fjármununum er varið. En svona er þetta bara.

Við vorum einmitt að ræða í tíma hvað öll gagnrýni, hvort sem hún er á listamenn, pólitíkusa eða vísindamenn, er almennt neikvæð á Íslandi. Það er sjaldan bent á það sem vel er gert en um leið og umdeild mál koma fram stökkva allir til og rakka fólk niður. Öll umræða hér er á svo persónulegum nótum í stað þess að ræða í raun um hugmyndirnar eða kenningarnar sem verið er að setja fram. Að þessu leiti erum við enn óttalegir smáborgarar.
Ég var á opnum fundi þar sem Anna Lind utanríkisráðherra Svíþjóðar fjallaði um ESB og tengd mál. Fundurinn var haldinn í stofu 101 í Odda og komust færri að en vildu eins og við mátti búast. Fundurinn var mjög athyglisverður og skemmtilegur. Hún hafði margt fram að færa og sagði reynslu Svía af ESB góða. Hún sagði einnig að fyrst hefði hún sjálf verið full efasemda um hvort það væri Svíþjóð fyrir bestu að ganga í ESB. Nú væru allar þær efasemdir horfnar og í ljós hefði komið að rödd Svíþjóðar innan ESB er sterk og áhrifin umtalsverð. Hún lagði einnig áherslu á norræna samvinnu innan sambandisins og mikilvægi þess að Norðurlöndin stæðu saman við að afla sínum hagsmunum fylgis.
Í stuttu máli sagt var þarna á ferðinni óvenju málefnaleg umræða um kosti og galla ESB, áhrif þess og möguleika. Það mætti vera meira þessháttar í gangi hér á landi.

Tuesday, February 18, 2003

Miklar vangaveltur eru uppi í "bekknum" mínum í Umhverfisfornleifafræði. Þannig er mál með vexti að þann áfanga kennir erlendur gestakennari. Hann heitir Chuck (Charles) Williams er líklega um 55 ára gamlall, nokkuð hress og frá Bandaríkjunum. Þykir nokkrum bekkjarfélögum mínum sem hann sé skugglalega líkur hinum heimsfræga Robin Willams. Það er rétt að þeir eru afar líkir í útliti og hafa báðir sama eftirnafn. Ekkert okkar þorir hinsvegar að spyrja hvort þessar getgátur séu á rökum reistar. Vonandi skýrist þetta allt...
Þeir sem kunna að hafa upplýsingar um fjölskyldu Robin Williams og hvort hann á yfir höfuð bræður mega senda mér hugskeyti.
Ég er komin með vinnu sem mannleg ljósritunarvél. Starf mitt mun vera að ljósrita örnefnaskrár á Örnefnastofnun. Það verður vonandi þokkalega skemmtilegt. Það getur a.m.k. ekki verið jafn leiðinlegt og að þurrka af. Auk þess mun ég fá tækifæri til að kynnast sögu örnefnasöfnunar á Íslandi og hún er litrík.

Monday, February 17, 2003

Á föstudaginn fór ég í bíó. Ég fór á kvikmyndina Chicago. Það var ekki skemmtilegt. Myndin var áferðarfalleg, leikkonurnar stóðu sig báðar vel í dans og söngatriðum. Richard Gere var nákvæmlega eins og alltaf. Hann syngur ekki vel. Myndin var ekki beint leiðinleg. Hún var ekki beint langdregin. Hún fjallaði ekki beint um neitt. Mig langaði næstum að labba út aðallega af því að mér var svo nákvæmlega sama um persónurnar og afdirf þeirra. Falleg dans og söngatriði voru bara ekki nóg til að bera uppi slæman og ómerkilegan söguþráð. Já þetta voru nokkur vonbrigði. Fólk hefur verið að bera þessa mynd saman við Moulan Roughe (þetta er rangt skrifað það er leiðinlegt) sá samanburður á bara alls ekki rétt á sér. Þar var á ferðinni mynd sem var frumleg, hröð, hafði söguþráð og spilaði á sjón og heyrn með frábærum og litríkum dansatriðum og nýstárlegum útfærslum á þekktum lögum. Ég geng jafnvel svo langt að segja að þar hafi verið á ferðinni meistaraverk. Í ljósi alls þessa á ég afar erfitt með að skilja þessar milljón tilnefningar sem hin arfa-slaka mynd Chicago fékk og hefðu margir verið betur að þeim komnir. Það er ekki nóg að allir dansi vel ef það er engin spenna.

Á laugardaginn fór ég í leikhús með minni ágætu vinkonu Hildi. Við sáum Rómeó og Júlíu í Borgarleikhúsinu. Það var mögnuð upplifun. Það er dæmi um sýingu þar sem allt gengur upp. Frábær samleikur, nýstárleg útfærsla á klassísku leikriti, spennandi umbúnaður og leikgleði. Undirtektir í salnum voru líka eftir því. Þó að allir viti hvernig leikritið endar tókst að gera endinn í senn áhrifaríkan og fallegan. Ég get því tvímælalaust mælt með þessari sýningu.

Í gær tók ég mig til og las Önnu frá Stóruborg eftir Jón Trausta. Það var ágæt bók. Þó bókmenntalegt gildi sé takmarkað eru persónurnar skemmtilegar, dramatíkin mikil og umbúnaður allur hinn ágætasti. Bókin sjálf var líka flott, upprunalega útgáfan með myndum, bæði svarthvítum og í lit og gömlum, þykkum og möttum pappír sem gaman var að fletta. Það er líka skemmtileg lofgjörð um ágæti íslenska bóndans og þjóðarstoltið og bersyndugar manneskjur í bókinni.
Ég var að lesa stefnuskrá Vöku. Þar tíunda þeir hvað þá langar að gera og hreykja sér af afrekum sínum hingað til. Það er svo sem allt gott og blessað. Athyglisvert þótti mér þó að lesa á bls. 23 í þessu merka riti um bætta nestisaðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni. Þar kemur fram að það er Vökuliðum í Stúdentaráði að "þakka" að nestisaðstaðan var flutt af 4. hæð niður á kaffistofuna. Ég veit ekki hvort þetta fólk borðar nokkurn tíman nesti á Þjóðarbókhlöðunni en einhvernveginn finnst mér það ólíklegt. Eins og flestir sem Hlöðuna stunda vita hefur aðstaðan nefnilega versnað til mikilla muna. Borðum hefur fækkað um eitt og öll er aðstaðan þrengri. Nú er yfirleitt fullt í nestisstofunni en ekki man ég eftir að hafa lent í því þegar hún var á 4. hæð. Þá hefur maður lent í því að biðja starfsfólk kaffistofunar náðarsamlegast um leyfi til að nýta þann mikla fjölda lausra borða sem jafnan er þar. Það er leyft með seimingi. Um daginn þá sat ég ein á borði í kaffistofunni með nestið mitt. Ég var að bíða eftir fólki sem var að kaupa sér mat í kaffistofunni og ætlaði að sitja þeim til samlætis. Auðvitað kom kona að reka mig í burtu og þó að ég reyndi að útskýra ástæðu mína fyrir veru minni á hinum heilögu kaffistofuborðum með mitt aumkunarverða nesti fékk ég skammir. Konan leyfði mér á endanum að sitja við borðið en harðbannaði mér að borða þar nestið mitt. Já af þessu hreykja Vökuliðar sér.

Wednesday, February 12, 2003

Mér var búið að detta fullt sniðugt í hug til að blogga um en það er að sjálfsögðu allt gleymt núna.

Monday, February 10, 2003

Ég hef verið að fletta upp í Íslendingabók að undanförnu líkt og margir samlandar mínir. Ég hef flett upp af handahófi bæði þekktum einstaklingum, vinum, kunningjum og fjandmönnum. Hingað til hafa allir verið skyldir mér í 7.-8. lið nema Skúli nokkur Gestsson sem er þó bara skyldur mér í 6. lið.

Thursday, February 06, 2003

Ég skil ekkert í stúdentapólitíkinni hérna í Háskólanum. Eitt er þó augljóst, auglýsingar Vökur eru stærri, flottari, betri og fleiri en auglýsingar Röskvu. Einnig hefur Vaka verið dugleg að standa fyrir hvers kyns fundum um hin ýmsustu mál sem varða stúdenta og þátttakendur í samfélaginu almennt. Það er gott framtak. Lítið hefur farið fyrir Röskvu að mínu mati og ef fram heldur sem horfið mun hún tapa aftur.
Persónulega hef ég ekki enn tekið neina afstöðu um hvað ég eigi að kjósa, mér finnst satt að segja ekki ólíklegt að ég skili bara auðu því hvorugri fylkingu hefur tekist að vekja áhuga minn á þessu máli öllu saman. Þeir sem hafa á þessu sterkar skoðanir mega vel sannfæra mig.
Í gær þegar ég var að keyra heyrði ég athyglisverða frétt. Það var verið að fjalla um fátæktarumræðuna á Alþingi. Þar kom tvennt mjög athyglisvert fram. Davíð Oddson sagði að það væri vandamál sveitarfélagana en ekki ríkisins ef fólk gæti ekki lifað á bótum. Pétur H. Blöndal fannst einnig nauðsynlegt að segja frá því að á undanförnum dögum hafi nokkrir einstaklingar haft samband við hann til að segja að þeir lifðu góðu lífi af 90 þús. kr á mánuði. Þetta þykir mér ótrúleg afstaða.
Hvernig getur það ekki verið vandamál ríksstjórnarinnar og Alþingis ef fólk getur ekki lifað af tekjum sínum, hvort sem þær eru bætur eða laun. Davíð sagði líka að það hefði engin flokkur það á stefnuskrá sinni að tvöfalda lægstu bætur þó að það væri líklega það sem þyrfti til að fólk gæti lifað á þeim. Hann viðurkenndi sem sagt að það væri ómögulegt að lifa sómasamlegu lífi á nokkrum tug þúsundum króna á mánuði. Það er samt ekki hans vandamál.
Ræða Péturs var jafnvel en athyglisverðari. Hann sagði frá því að aldraður bóndi sem nú væri fluttur á mölina og hefði um 90 þús. kr í tekjur á mánuði lifði góðu lífi og leggði jafnvel fyrir enda hefði hann ekki vanist þeirri eyðslu sem höfuðborgarbúar stunda. Ekki veit ég nákvæmlega hvað hann átti við en með hjálp míns fjöruga ímyndunarafls ætla ég að reyna að giska á hvað það er sem hann á við. Í fyrsta lagi eru það börn, hann býr einn og þar því ekki að kaupa á þau föt, mat, skólagögn og þessháttar, það hlýtur að vera sparnaður upp á einhverja þúsundkalla. Einnig finnst mér líklegt að þessi maður fari ekki í leikhús, kvikmyndahús, út að borða, taki myndbönd á leigu, hann á líklega ekki GSM síma, er ekki áskrifandi að tímaritum, á ekki bíl, kaupir sjaldan föt og litar ekki á sér hárið. Ef maður lifir svona lífi trúi ég vel að hægt sé að lifa ,,góðu lífi'' af 90 þús kr það eina sem hann þarf að kaupa er matur, klósettpappír og greiða fyrir rafmagn, hita og RÚV. Sjálf myndi ég ekki vilja lifa án þess að geta farið í leikhús og notið fjölbreyttra menningarviðburða. Mér finnst líka gaman að fara til útlanda og rölta í bænum. Allt er þetta hluti af lífsgæðum, að hafa möguleikan á að gera eitthvað sér til skemmtunar eða til að auðga andan. Þessi ágæti bóndi á líklega sitt húsnæði og þarf ekki að greiða af því lán og hefur heldur ekki námslán á bakinu. Það er náttúrulega algjör sóun að mennta sig og kaupa húsnæði.
Þetta segir Pétur H. Blöndal. Hann hefur mun meira en 90 þús. kr á mánuði í tekjur. Hann fer líklega í leikhús, kaupir jakkaföt, fer í klippingu reglulega og svona. Fyrir honum er þetta bara ekki eyðsla af því að hann hefur efni á því.
Ræða Davíðs
Ræða Péturs
Ég hef ákveðið að krýna sjálfa mig Misskilnings meistara Íslands

Tuesday, February 04, 2003

Ég ætti núna að vera að gera verkefni. Þetta er svona eitt af þeim verkefnum sem ætti að taka hámark klukkutíma. Samt er ég búin að vera á Bókhlöðunni síðan fyrir kl. 17 í dag. Ekki lætur úrlausnin samt á sér kræla. Það er svo erfitt að byrja.
Ég vil líka nota þetta tækifæri til að mótmæla þeirri arfa slöku hugmynd tölvufyrirtækisins Ofurmjúks að hafa svona litla leiki innifalda í þessu bévaða stýrikerfi sem þeir senda frá sér. Ég er viss um að í Minesweeper felast einhver dulin skilaboð og/eða ávanabindandi efni sem valda fíkn minni í leikinn það er bara engin önnur skýring á því hvað ég er háð honum.
Það verður voða mikið að gera hjá mér næstu vikurnar, mamma á afmæli, Vaka á afmæli, fornleifafræðipartý, saumaklúbbur, óperan og örugglega ýmislegt fleira sem mun koma upp á síðustu stundu. Það er annars ekkert nema gott um það að segja, það er gaman að hafa eitthvað fyrir stafni.

Sá merki atburður gerðist annars um helgina að ég beilaði á djammi (hvað voru mörg slanguryrði í þessari setningu?). Það var lítið teiti hjá Nonna hennar Dísu skvísu á laugardaginn og að sjálfsögðu mætti ég. Með í för var hinn alræmdi Vestmanneyja vodkapeli sem ég hef verið að reyna að klára síðan í ágúst á síðasta ári. Það hefur gengið illa. Er samt hálfnuð með hann núna eftir frábæra frammistöðu í Fróða partýi í janúar. Annars finnst mér vodka skelfilega óviðfelldinn drykkur og er það miður því það er jú upprunnið í Rússlandi sem er jú mitt uppáhalds land. Já snúum okkur aftur að beilinu. Það er nú ekki margt um það að segja annað en að ég nennti ekki niður í bæ þó að klukkan væri ekki orðin nema eitt og ég hafi ekki farið neitt á föstudagskvöldinu. Kann ég engar skýringar á þessum ónytjungshætti mínum nema ef til vill að aldurinn sé farinn að færast yfir...