Monday, February 17, 2003

Ég var að lesa stefnuskrá Vöku. Þar tíunda þeir hvað þá langar að gera og hreykja sér af afrekum sínum hingað til. Það er svo sem allt gott og blessað. Athyglisvert þótti mér þó að lesa á bls. 23 í þessu merka riti um bætta nestisaðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni. Þar kemur fram að það er Vökuliðum í Stúdentaráði að "þakka" að nestisaðstaðan var flutt af 4. hæð niður á kaffistofuna. Ég veit ekki hvort þetta fólk borðar nokkurn tíman nesti á Þjóðarbókhlöðunni en einhvernveginn finnst mér það ólíklegt. Eins og flestir sem Hlöðuna stunda vita hefur aðstaðan nefnilega versnað til mikilla muna. Borðum hefur fækkað um eitt og öll er aðstaðan þrengri. Nú er yfirleitt fullt í nestisstofunni en ekki man ég eftir að hafa lent í því þegar hún var á 4. hæð. Þá hefur maður lent í því að biðja starfsfólk kaffistofunar náðarsamlegast um leyfi til að nýta þann mikla fjölda lausra borða sem jafnan er þar. Það er leyft með seimingi. Um daginn þá sat ég ein á borði í kaffistofunni með nestið mitt. Ég var að bíða eftir fólki sem var að kaupa sér mat í kaffistofunni og ætlaði að sitja þeim til samlætis. Auðvitað kom kona að reka mig í burtu og þó að ég reyndi að útskýra ástæðu mína fyrir veru minni á hinum heilögu kaffistofuborðum með mitt aumkunarverða nesti fékk ég skammir. Konan leyfði mér á endanum að sitja við borðið en harðbannaði mér að borða þar nestið mitt. Já af þessu hreykja Vökuliðar sér.

No comments: