Monday, February 17, 2003

Á föstudaginn fór ég í bíó. Ég fór á kvikmyndina Chicago. Það var ekki skemmtilegt. Myndin var áferðarfalleg, leikkonurnar stóðu sig báðar vel í dans og söngatriðum. Richard Gere var nákvæmlega eins og alltaf. Hann syngur ekki vel. Myndin var ekki beint leiðinleg. Hún var ekki beint langdregin. Hún fjallaði ekki beint um neitt. Mig langaði næstum að labba út aðallega af því að mér var svo nákvæmlega sama um persónurnar og afdirf þeirra. Falleg dans og söngatriði voru bara ekki nóg til að bera uppi slæman og ómerkilegan söguþráð. Já þetta voru nokkur vonbrigði. Fólk hefur verið að bera þessa mynd saman við Moulan Roughe (þetta er rangt skrifað það er leiðinlegt) sá samanburður á bara alls ekki rétt á sér. Þar var á ferðinni mynd sem var frumleg, hröð, hafði söguþráð og spilaði á sjón og heyrn með frábærum og litríkum dansatriðum og nýstárlegum útfærslum á þekktum lögum. Ég geng jafnvel svo langt að segja að þar hafi verið á ferðinni meistaraverk. Í ljósi alls þessa á ég afar erfitt með að skilja þessar milljón tilnefningar sem hin arfa-slaka mynd Chicago fékk og hefðu margir verið betur að þeim komnir. Það er ekki nóg að allir dansi vel ef það er engin spenna.

Á laugardaginn fór ég í leikhús með minni ágætu vinkonu Hildi. Við sáum Rómeó og Júlíu í Borgarleikhúsinu. Það var mögnuð upplifun. Það er dæmi um sýingu þar sem allt gengur upp. Frábær samleikur, nýstárleg útfærsla á klassísku leikriti, spennandi umbúnaður og leikgleði. Undirtektir í salnum voru líka eftir því. Þó að allir viti hvernig leikritið endar tókst að gera endinn í senn áhrifaríkan og fallegan. Ég get því tvímælalaust mælt með þessari sýningu.

Í gær tók ég mig til og las Önnu frá Stóruborg eftir Jón Trausta. Það var ágæt bók. Þó bókmenntalegt gildi sé takmarkað eru persónurnar skemmtilegar, dramatíkin mikil og umbúnaður allur hinn ágætasti. Bókin sjálf var líka flott, upprunalega útgáfan með myndum, bæði svarthvítum og í lit og gömlum, þykkum og möttum pappír sem gaman var að fletta. Það er líka skemmtileg lofgjörð um ágæti íslenska bóndans og þjóðarstoltið og bersyndugar manneskjur í bókinni.

No comments: