Wednesday, February 26, 2003

Ég held ég sé að fara að fá illvíga hálsbólgu. Tímasetningin er slæm vegna anna s.s. prófs og verkefnaskila í næstu viku, auk þess sem mér finnst leiðinlegt að vera veik.

Ég fór í Stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar í kvöld. Það var gaman og fræðandi. Mér finnst þetta sniðug hugmynd hjá þeim, þetta er ágæt aðferð til að örva fólk til gagnrýninnar umræðu og hjálpa leikmönnum að skilja hvernig þetta gengur allt sama fyrir sig.

Ég er heppna Albína um þessar mundir. Ég get bæði farið að vinna á Skriðuklaustri við að grafa og á Hróarskeldu. Nú er bara spurning hvað ég geri fyrripart sumarsins. Bæjarvinnan hljómar ekkert mjög vel auk þess sem ekki er víst að maður fái yfir höfuð vinnu þar þegar atvinnuástandið er svona slæmt.

Ég er uppfull af ýmiskonar pólitískum hugmyndum og vangaveltum eftir að hafa hlýtt á ræður frá Össuri, Jóhönnu og Ingibjörgu. Því meira sem ég hugsa því ljósara verður mér hvað það er margt í okkar samfélagi sem þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Ekki endilega af því að Sjálfstæðisflokkurinn og Davíð Oddsson hafi gert allt vitlaust heldur af því að Ísland og heimurinn allur hafa breyst meira en nokkurn óraði fyrir.
Landbúnaðarkerfið þarf að taka algjörlega í gegn. Ég veit það sjálf þar sem ég hef búið í sveit að margir bændur hafa það ekkert allt of gott. Að hluta til er það vegna óhagkvæmni, menntunarskorts og áhugaleysis. Hin hliðin er hinsvegar sú að það er erfitt fyrir ungt fólk sem vill hefja búskap að gera það nema það fái jarðir frá foreldrum sínum. Á hinn bóginn eru þeir sem neyðast til að taka við jörðum af því að þeim býðst ekkert annað þó að það vildi miklu heldur verða kennari eða bankastjóri en bóndi.
Ég á frænda. Hann er giftur. Bæði hann og hans ektakvinna eru hámenntuð í landbúnaðarfræðum og hafa margra ára starfsreynslu á mjólkurbúum. Þau langar ekkert frekar en að eignast sitt eigið kúabú. Það geta þau hinsvegar ekki því til þess að geta keypt sæmilega stóra jörð með nógum mjólkurkvóta til að tryggja hagkvæmni í rekstri þyrftu þau að eiga lágmark 10 milljónir og helst miklu meira. Góð jörð kostar nefnilega á bilinu 40-70 milljónir með öllu og það er stór biti fyrir ungt fólk að hefja búskap sem ekki á neinar umtalsverðar eignir. Þau geta sem sagt ekki orðið bændur þó þau vildu og hafi mikla menntun. Kannski er þetta stærsti vandi landbúnaðarins.

Svo er það Barnaspítali Hringsins. Ég vil byrja á að taka fram að starf Hringskvenna er ómetanlegt og án þeirra hefði spítalinn aldrei verið byggður og þær eiga þakkir skildar. Ég verð hinsvegar að segja að mér finnst alls ekki eðlilegt að til þess að reistur sé spítali með viðunandi aðstöðu fyrir veik börn og aðstandendur þeirra þurfi góðgerðarsamtök að safna hundruðum milljóna króna og gefa ríkinu svo peningana svo það sinni skyldu sinni. Það er alls ekki eðlilegt.
Ekker frekar en það er eðlilegt að Háskóli Íslands þurfi að reka happdrætti til þess að standa undir viðhaldskostnaði bygginga og nýbyggingum. Þetta eru hlutir sem ríkisvaldið á að sinna að mínu mati.

Skattakerfið er svo annað mál sem þarf að taka ærlega til í. Háir neysluskattar hverskonar á ,,munaðarvarningi'' eins og áfengi, bensíni og þessháttar eru algjör tímaskekkja. Þessar vörur eiga að vera skattlagðar með 24,5% virðisaukaskatti eins og flest annað sem fólk og fyrirtæki kaupa.
Skipting matvara milli vsk flokka er einnig úrelt. Til eru tveir skattflokkar fyrir matvöru 24,5% og 14%. Í 24,5% flokknum eru ,,munaðarvörur'' eins og lýsispillur en venjulegt lýsi er í 14% flokknum. Mér þætti gaman að vita hver ákveður hvað er munaðarvara og hvað ekki. Eru þá foreldrar sem eiga börn sem vilja bara lýsistöflur ýkt óheppnir?
Skattlagning á lágmarkslaunum, örorku- og atvinnuleysisbótum er annað dæmi um fáránlega heimskulega vitleysu. Hvaða lógík býr á bak við það að láta fólk fá peninga í formi örorku- og atvinnuleysisbóta til þess eins að taka hluta þeirra af þeim aftur? Þetta getur varla verið þjóðhagslega hagkvæmt því þetta er svo skelfing heimskulegt.
Mér finnst líka asnalegt að ungt fólk eins og ég sem á dulítið sparifé sem nota má til að mennta sig eða kaupa fyrstu íbúðina þurfi að borga af þeim vöxtum sem maður fær 10% fjármagnstekjuskatt. Ég gæti vel skilið það ef um einhverjar tugmilljónir króna væri að ræða en það er bara svo mikill tvískinnungur í því að röfla um að fólk spari ekki þegar hluti af vöxtum er tekinn í skatta. Það er næstum eins og að refsa fólki fyrir fyrirhyggjusemina.

Það var eitt afar merkilegt í sem kom fram þegar Ingibjörg svaraði spurningu ungrar stúlku um hvort Samfylkingin vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun. Ingibjörg sagði að það væri orðið of seint núna því málið væri komið svo langt. Þjóðaratkvæðagreiðslur þörfnuðust góð undirbúnings og mikillar umræðu og til þeirra væri aðeins hægt að boða með góðum fyrirvara. Það er allt saman satt og rétt hjá henni. Málið er bara að þjóðin er stundum svolítið sein að fatta. Ef spurt hefði verið fyrir tveimur árum hvar á landinu Kárahnjúkar væru hefði varla nokkurt mannsbarn haft hugmynd um það. Samt voru hjólin farin af stað strax þá, þjóðin gerði sér bara ekki grein fyrir því hvað varð að gerast því enginn sagði henni það. Ég er ekki að segja að stjórnvöld hafi leynt áformum sínum síður en svo. Það er nú samt bara einu sinni þannig að það er oft ekki fyrren á síðustu stundu sem fólk áttar sig á umfangi, eðli og áhrifum slíkra framkvæmda.
Það rann eiginlega ekki upp fyrir mér sjálfri fyrren ég sá myndina í sjónvarpinu um daginn með gaurnum sem reif blaðsíðurnar úr Hálendis bókinni sinni. Þegar ég horfði á þáttin hans Ómars síðastliðið sunnudagskvöld þar sem sást mjög vel hve mikið vatn fer undir lónið þá áttaði ég mig á því að núna væri síðasti sénsinn á að koma í veg fyrir þetta eiginlega úr sögunni. Það er búið að leggja of mikið af peningum í dæmið. Þetta þýðir ekki að mér finnist að andstæðingar virkjunnar eigi að gefast upp, alls ekki það er ekki öll von úti en útlitið verður sannarlega svartara með hverjum deginum.
Ég hvet bara alla sem vettlingi geta valdið til að skoða Kárahnjúka og Dimmugljúfur í sumar því líklega verða þau ekki sýnileg mikið lengur...

Verðtryggingin er enn annað mál. Hún er tímaskekkja og hana þarf að afnema eins fljótt og hægt er.

Þeir sem komust þetta langt fá klapp á bakið enda hetjur að nenna að hlusta á þetta þras í mér. Þeir sem hafa áhuga mega hringja, senda emil, commenta eða öskara á mig út á götu ef þeir eru ósammála einhverju sem hér kemur fram.

No comments: