Ég ætti núna að vera að gera verkefni. Þetta er svona eitt af þeim verkefnum sem ætti að taka hámark klukkutíma. Samt er ég búin að vera á Bókhlöðunni síðan fyrir kl. 17 í dag. Ekki lætur úrlausnin samt á sér kræla. Það er svo erfitt að byrja.
Ég vil líka nota þetta tækifæri til að mótmæla þeirri arfa slöku hugmynd tölvufyrirtækisins Ofurmjúks að hafa svona litla leiki innifalda í þessu bévaða stýrikerfi sem þeir senda frá sér. Ég er viss um að í Minesweeper felast einhver dulin skilaboð og/eða ávanabindandi efni sem valda fíkn minni í leikinn það er bara engin önnur skýring á því hvað ég er háð honum.
Það verður voða mikið að gera hjá mér næstu vikurnar, mamma á afmæli, Vaka á afmæli, fornleifafræðipartý, saumaklúbbur, óperan og örugglega ýmislegt fleira sem mun koma upp á síðustu stundu. Það er annars ekkert nema gott um það að segja, það er gaman að hafa eitthvað fyrir stafni.
Sá merki atburður gerðist annars um helgina að ég beilaði á djammi (hvað voru mörg slanguryrði í þessari setningu?). Það var lítið teiti hjá Nonna hennar Dísu skvísu á laugardaginn og að sjálfsögðu mætti ég. Með í för var hinn alræmdi Vestmanneyja vodkapeli sem ég hef verið að reyna að klára síðan í ágúst á síðasta ári. Það hefur gengið illa. Er samt hálfnuð með hann núna eftir frábæra frammistöðu í Fróða partýi í janúar. Annars finnst mér vodka skelfilega óviðfelldinn drykkur og er það miður því það er jú upprunnið í Rússlandi sem er jú mitt uppáhalds land. Já snúum okkur aftur að beilinu. Það er nú ekki margt um það að segja annað en að ég nennti ekki niður í bæ þó að klukkan væri ekki orðin nema eitt og ég hafi ekki farið neitt á föstudagskvöldinu. Kann ég engar skýringar á þessum ónytjungshætti mínum nema ef til vill að aldurinn sé farinn að færast yfir...
No comments:
Post a Comment