Thursday, February 06, 2003

Í gær þegar ég var að keyra heyrði ég athyglisverða frétt. Það var verið að fjalla um fátæktarumræðuna á Alþingi. Þar kom tvennt mjög athyglisvert fram. Davíð Oddson sagði að það væri vandamál sveitarfélagana en ekki ríkisins ef fólk gæti ekki lifað á bótum. Pétur H. Blöndal fannst einnig nauðsynlegt að segja frá því að á undanförnum dögum hafi nokkrir einstaklingar haft samband við hann til að segja að þeir lifðu góðu lífi af 90 þús. kr á mánuði. Þetta þykir mér ótrúleg afstaða.
Hvernig getur það ekki verið vandamál ríksstjórnarinnar og Alþingis ef fólk getur ekki lifað af tekjum sínum, hvort sem þær eru bætur eða laun. Davíð sagði líka að það hefði engin flokkur það á stefnuskrá sinni að tvöfalda lægstu bætur þó að það væri líklega það sem þyrfti til að fólk gæti lifað á þeim. Hann viðurkenndi sem sagt að það væri ómögulegt að lifa sómasamlegu lífi á nokkrum tug þúsundum króna á mánuði. Það er samt ekki hans vandamál.
Ræða Péturs var jafnvel en athyglisverðari. Hann sagði frá því að aldraður bóndi sem nú væri fluttur á mölina og hefði um 90 þús. kr í tekjur á mánuði lifði góðu lífi og leggði jafnvel fyrir enda hefði hann ekki vanist þeirri eyðslu sem höfuðborgarbúar stunda. Ekki veit ég nákvæmlega hvað hann átti við en með hjálp míns fjöruga ímyndunarafls ætla ég að reyna að giska á hvað það er sem hann á við. Í fyrsta lagi eru það börn, hann býr einn og þar því ekki að kaupa á þau föt, mat, skólagögn og þessháttar, það hlýtur að vera sparnaður upp á einhverja þúsundkalla. Einnig finnst mér líklegt að þessi maður fari ekki í leikhús, kvikmyndahús, út að borða, taki myndbönd á leigu, hann á líklega ekki GSM síma, er ekki áskrifandi að tímaritum, á ekki bíl, kaupir sjaldan föt og litar ekki á sér hárið. Ef maður lifir svona lífi trúi ég vel að hægt sé að lifa ,,góðu lífi'' af 90 þús kr það eina sem hann þarf að kaupa er matur, klósettpappír og greiða fyrir rafmagn, hita og RÚV. Sjálf myndi ég ekki vilja lifa án þess að geta farið í leikhús og notið fjölbreyttra menningarviðburða. Mér finnst líka gaman að fara til útlanda og rölta í bænum. Allt er þetta hluti af lífsgæðum, að hafa möguleikan á að gera eitthvað sér til skemmtunar eða til að auðga andan. Þessi ágæti bóndi á líklega sitt húsnæði og þarf ekki að greiða af því lán og hefur heldur ekki námslán á bakinu. Það er náttúrulega algjör sóun að mennta sig og kaupa húsnæði.
Þetta segir Pétur H. Blöndal. Hann hefur mun meira en 90 þús. kr á mánuði í tekjur. Hann fer líklega í leikhús, kaupir jakkaföt, fer í klippingu reglulega og svona. Fyrir honum er þetta bara ekki eyðsla af því að hann hefur efni á því.
Ræða Davíðs
Ræða Péturs

No comments: