Tuesday, January 28, 2003

Ég hef vinsamlegast verið beðin að auglýsa tónleika hjá hinnu mætu hljómsveit Diktu sem haldnir verið á Gauki á Stöng miðvikudaginn 29. janúar 2003. Húsið opnar kl. 21:00 og kostar aðeins 500 kr inn. Þetta eru útgáfutónleikar enda gáfu drengirnir út skífu nú fyrir jólin. Þeir sem vilja kynna sér sveitina og þeirra verk geta kíkt á dikta.net

Monday, January 27, 2003

Svo virðist sem Albaunin sé bara alls ekki eins óheppin og talið var. Nú hefur endanlega verið ákveðið að farið verði í umrædda kórferð til London þó að 6. bekkingar komist ekki með. Það er að sjálfsögðu leiðinlegt en svo verður bara að vera.

Annars er það helst í fréttum að það var æðislega gaman hjá mér um helgina. Á fimmtudagskvöldið fór ég að sjá Rjúpurnar spila á Champions í Grafarvogi. Það var mjög gaman og þeir frumfluttu þar fyrsta frumsamda lagið sitt. Það var ágætt og vonandi halda þeir áfram að semja sitt eigið efni.

Á föstudaginn fórum við vinkonurnar svo á Með fullri reisn og það var mjög gaman en sannast sagna fékk ég algjöran óver dós af karlmannsrössum um helgina. Ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt.
Á eftir ætluðum við svo að djamma en Ásta beilaði því hún vildi komast í trimm morguninn eftir. Við kíktum í eitt stykki Versló tvítugsafmæli. Það var sérstök upplifun, við pössuðum MJÖG illa inn í það umhverfi. Svo ákváðum við að kíkja í Fróða-partý í Grafarvogi. Það tók samt um klukkutíma að komast þangað. Fyrst þurfti að kaupa pyslur fyrir liðið þar sem foreldrar okkar höfðu verið að standa sig illa í að elda kvöldmat. Þá þurfti að fara heim til mín að ná smá lífsvatn. Þá þurftum við að villast í Grafarvogi í svolítið langan tíma. Fyrst fundum við ekki Rima-hverfið, þegar það var loksins fundið ætluðum við ekki að finna réttu götuna og þegar hún var fundin var húsið týnt. Þetta hafðist þó allt á endanum og við komumst í partý. Þar voru allir orðnir vel hífaðir og góð stemmning í mannskapnum. Á staðnum var líka svakalegt geisladiskasafn húsráðanda og var tónlistin því til mikillar fyrirmyndar. Í þessu ágæta teiti náði ég með smá hjálp að klára Baliey's flösku sem ég fékk í tvítugsafmælisgjöf. Reynt var að sannfæra mig um að kjósa Vinstri-græna sem tókst reyndar ekki en velti samt upp ákveðnum áleitnum spurningum. Klukkan fjögur var svo haldið heim á leið og einhvernveginn náði ég að skakklappast upp í rúm án þess að vekja alla blokkina.

Á laugardaginn fór ég í heimsókn til ömmu og afa og fékk þar svið og þótti gott. Við mamma skelltum okkur svo í Smáralindina og þar gerði ég alveg gasalega góð kaup á útsölu. Næst var ferðinni heitið til pabba. Þar var kjötsúpa í matinn og Vaka kom og borðaði með okkur. Þar sem Vaka vildi endilega fara niður í bæ þá fórum við heim til hennar og hún skipti um föt. Svo tókum við nokkra Laugara en það var ekkert að gerast í bænum svo við fórum heim til mín svo ég gæti skipt um föt og svo aftur niður í bæ. Við settumst inn á Sólon og fyrr en varði fór að drífa að óvenju mikið af fallegum karlmönnum. Á endanum voru næstum allir keppendurnir í Herra Ísland mættir á staðinn ásamt sigurvegaranum. Að sjálfsögðu settist hann á næsta borð við okkur Vöku. Á endanum þoldum við ekki alla þessa fegurð og fórum í partý til bróður Hjördísar og hans ekta kvinnu á Grundarstígnum. Þar drukku Hjördís og Vaka mikið af Hot'n Sweet og urðu drukknar. Það sem gerðist eftir það er ekki fyrir viðkæmar sálir og verður ekki sagt frekar frá því. Þar sem ég var enn að jafna mig eftir kvöldið áður var ég bara driver sem var fínt þar sem ég fékk að keyra nýja bílinn hennar Vöku sem er algjör skruggu kerra.

Á sunnudaginn tók ég það rólega, horfði á leikinn og safnaði kröftum.

Wednesday, January 22, 2003

Írakshornið
Það er eitt varðandi þetta Íraksmál allt saman sem ég hef mikið verið að velta fyrir mér. Nú eru vopnaeftirlitsmenn þar að leita að gereyðingarvopnum. Ef við segjum sem svo að Írakar eigi alls engin gereyðingarvopn en allir aðrir eru vissir um það og leita og leita en finna aldrei neitt en trúa samt ekki að Írakar eigi ekki slík vopn hvað er þá hægt að gera? Ef við segjum sem svo að Írakar eigi gereyðingarvopn þá eru þeir í mjög vondum málum og hafa bara um tvo kosti að velja og báða mjög slæma. Þeir gætu ákveðið að segja frá því, leyft vopnaeftirlitsmönnum að skoða þau og jafnvel látið þau af hendi. Þá ættu þeir yfir höfði sér að Bandaríkin segðu þeim stríð á hendur, settu enn strangara viðskiptabann, tækju landið herskyldi eða eitthvað í þá áttina. Einnig væru yfirgnæfandi líkur á að enginn myndi trúa að Írakar hefðu sagt frá öllum vopnum sínum og þeir væru aftur á núllpunkti. Hinn kosturinn er að reyna að fela vopnin, vona að vopnaeftirlitsmennirnir finni þau ekki og Bandaríkin hætti við að skjóta landið í tætlur.
Það er í raun alveg sama hvað Írakar gera þeir eiga alltaf eftir að fara illa út úr þessu máli þar sem hin háæruverðugu Bandaríki hafa ákveðið að buffa þá næst.

Vinnuhornið
Ég hef verið að baksa við að skrifa umsóknarbréf undanfarnar vikur. Það er erfitt. Ég veit ekki hvernig ég á að ávarpa viðtakandan, hvað ég á að segja, hvort ég á að vera formleg eða ofur-formleg.
Óheppni Albaunarinnar ætlar engan endi að taka. Nú er svo komið að kórferð til Lundúna í maí er öll í rögli vegna heimskulegra munnlegra stúdentsprófa.
Auk þess var ég að gera verkefni dag sem ég misskildi og gat ekki skilað svo ég þarf að laga það mikið í kveld.
Auk þess er ég í súrri fýlu.

Á föstudaginn ætlum við vinkonurnar, þ.e. Albaunin óheppna, Hjördís Eva, Vaka, Íris og Ásta að fara á Með fullri reisn í Þjóðleikhúsinu. Ég hafði svarið að ég myndi sko ekki fara á svona lágmenningar rusl en þrýstingur frá vinkonum og sú staðreynd að fáklæddir karlmenn koma við sögu olli því að ég þurfti að taka U-beygju og nú er ég bara orðin nokkuð spennt.

Seinasta laugardag fór ég líka í leikhús og einmitt í Þjóðleikhúsið. Ég fór í boði afa og ömmu sem voru bæði á svæðinu og svo kom mamma líka með. Leikritið sem við sáum heitir Halti Billi og er eftir ungt írskt leikskáld. Ég hafði áður séð leikrit eftir þennan sama höfund. Það var í Borgarleikhúsinu og þá fór ég líka með ömmu og afa. Það leikrit hér Fegurðardrottningin frá Línakri. Þar var á ferð meistaraverk. Átök, vonbrigði, svik, hryllingur og harmleikur mynduðu magnaða heild. Það var líka svo vel leikið að á tímabili langaði mig til að hlaupa upp á sviðið og reyna að koma viti fyrir persónurnar. Þetta er ein eftirminnilegasta leikhúsferð ævi minnar og ég hef oft hugsað um hana síðan. Það sama get ég því miður ekki sagt um sýninguna sem ég sá síðastliðinn laugardag. Ég veit ekki hverju er um að kenna. Leikurinn var ekki beint lélegur, bara skelfilega ósannfærandi. Persónurnar voru allar afar ýktar og fóru í taugarnar á mér í stað þess að vekja samúð. Það er erfitt að segja hvort textinn sjálfur hafi verið verri en ég er ekki frá því.
Á eftir leikritið fór ég svo með Vöku, Ástu og Álfheiði á Sólon. Það var bara mjög gaman en ég eyddi svakalega miklum pening sem var ekki gott.

Tuesday, January 21, 2003

eitthvað hefur bloggbínan verið slöpp undanfarna daga en hún er nú öll að hressast og þá verður heimurinn samur.

Alltaf er ég að lenda í einhverju skemmtilegu. Þannig er mál með vexti að ég hef verið að reyna sækja um hjá Stúdentagörðunum undanfarnar vikur en ekki gengið. Svo virðist sem umsóknarferli þeirra á internetinu samþykki ekki mína glæsilegu kennitölu. Þetta er allt hið dularfyllsta mál, þegar ég er búin að fylla út og ætla að halda áfram þá kemur bara kassi sem í stendur: "Please only a Icelandic social security number" Þar sem Stúdentagarðarnir eru svo gasalega tæknivæddir sem mér mundi undir eðlilegum kringumstæðum finnast frábært þá er ekki hægt að sækja um á pappír og því get ég bara alls ekkert sótt um. Þetta gæti enginn nema Albaunin óheppna. Kennitalan mín er gölluð, ég er í rusli.

Ég er búin að vera meiripart dagsins upp á Bókhlöðu að þykjast vera að gera eitthvað en þar sem ég er lélegur leikari hefur það ekki tekist vel. Ég ætlaði að kaupa hefti fyrir skólan í dag og mætti samviskusamlega milli 12 og 13 þegar heftið átti að fást keypt. Albaunin óheppna var hinsvegar svo mikill snillingur að koma í þann mun sem verið var að selja seinasta heftið sem til var.

Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með hve fá svör hafa borist við styrkbeiðni minni. Því auglýsi ég hér með að enn er tekið við styrkjum frá bæði einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.

Ég varð fyrir miklu áfalli þegar ég kom á Hlöðuna eftir of langt jólafrí. Búið var að færa nestistofuna af 4. hæð niður á þá fyrstu við hlið veitingasölunnar. Við það fækkaði borðum um eitt og rýmið sem nestarar höfðu til umráða um meira en helming. Af þessu leiðir að "nestisstofan" er alltaf full og það má ekki sitja á borðunum í veitngasölunni þó að þar sé yfirleitt nóg af lausum borðum. Nestarar verða því bara að éta það sem úti frýs. Það sorglegasta er þó að hin hataða ruslatunna úr nestistofunni fylgdi með í flutningunum en hún er með innbyggðum jógúrt og matarklíningarbúnaði. Hann virkar þannig að ef maður reynir að henda einhverju klínist maður allur út í matarleifum frá öðru fólki.
Já ég lifi erfiðu lífi.

Thursday, January 16, 2003

ÉG ER Á MÓTI KÁRAHNJÚKAVIRKJUN

Tuesday, January 14, 2003

Nú er erfitt að vera Albína því það er margt sem heillar. Á seinustu kóræfingu komu fram áætlanir um að kórinn skellti sér til London um Hvítasunnuna. Það yrði skemmtileg ferð og eftirminnileg. Ég hef aldrei komið til London og því langar mig mikið með. Á hinn bóginn var ég búin að ákveða að fara á Hróarskeldu í lok júní enda mun hin goðsagnakennda Iron Maiden koma þar fram og líklegt er að tækifærunum til að sjá töffarana spila fari að fækka. Fjárhagsstaða mín er aftur á móti alls ekki sterk um þessar mundir og standa því allar þessar áætlanir á brauðfótum. Að auki hafði ég áformað að vinna við fornleifauppgröft í sumar ef mögulegt væri til að öðlast reynslu og enginn nennir að ráða einhvern sem alltaf er í fríi í vinnu.
Ég óska því hér með eftir styrkjum til þess að ég geti haft það skemmtilegt í sumar. Áhugasamir geta send emil á albina@hi.is.

Monday, January 13, 2003

Jæja nú er ég loksins komin úr allt of löngu jólafríi.
Ég skil ekki afhverju kennsla í heimspekideild byrjar næstum viku seinna en í raunvísindadeild og samt er einkunnum skilað seinna.
Það hefur ýmislegt á daga mína drifið í jólafríinu. Ég fékk væga flensu og missti af rosa djammi. Alltaf jafn heppin.
Ég er búin að fara í fyrsta söngtíman og það var mjög gaman. Ég var aðallega að frussa. Það er víst voða gott upp á stuðninginn að gera. Kennarinn sagði að ég ætti að monta mig af því að ég hafi sungið háa C í fyrsta tímanum og geri ég það hér með.

Heimildamyndahornið
Ég sat ásamt móður minni í sófanum og horfði á rólyndislega heimildarmynd sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu. Hún hét Paradís á jörð eða eitthvað í þá áttina og umsjónarmaður var Ingólfur Margeirsson. Allt gerðist hægt enda myndin tekin í Flatey þar sem menn lifa lífinu með ró. Myndin fjallaði um Guðmund P. Ólafsson höfund bókanna Fuglar, Perlur, Ströndin og Hálendið í náttúru Íslands.
Undir lokin fóru þeir saman í litlu bókhlöðuna í Flatey og ræddu um viðgerðir á henni sem Guðmundur tók þátt í. Svo tóku þeir bókina Hálendið upp og byrja að blaða í henni. Þegar Guðmundur finnur sérlega fallega mynd af Köldukvíslareyrum sem eru sokknar undir uppistöðulón rífur hann myndina úr bókinni. Svo rífur hann mynd af Fögruhverum sem líka er búið að sökkva. Svo af dimmugljúfrum, Fagradal, Kiðagili, Þjórsárverum, Langasjó, Skaftá og fleiri stöðum sem áform eru uppi um að sökkva eða breyta á einhvern hátt vegna uppistöðulóna og virkjanna. Þetta var sannarlega áhrifamikið og þegar hann var búinn að rífa fjöldan allan af myndum lokaði hann bókinni. Blaðsíðurnar lágu eins og hráviði um allt gólf. Ég hugsaði með mér að það væri eins gott að fara að skoða allar þessar gersemar áður en þær verða mannkyninu að eilífu horfnar.

Lestrarhornið
Um jólinn las ég all nokkrar bækur eins og flestir Íslendingar og hafði gaman af. Þetta skiptið fékk ég þó aðeins tvær bækur í jólagjöf sem er óvenju lítið. Ég bætti mér það upp með því að fara á Borgarbókasafn og taka 7 bækur. Þær voru reyndar flestar fræðilegs eðlis. Ég er búin að lesa tvær af þeim og var önnur ótrúlega skemmtileg.
Það var In the Shadow of Man eftir Jane Goodall og fjallar um rannsóknir hennar á simpönsum í Tansaníu. Skemmst er frá því að segja að þetta var ein skemmtilegasta bók sem ég hef lesið lengi og auk þess mjög fræðandi. Sagt er frá simpönsunum sem Goodall rannsakaði í tæpan áratug. Þeir heita allir mannanöfnum og persónuleikum þeirra, samskiptum og lífshlaupi er lýst á einstæðan og spennandi hátt. Ég fór meira að segja að gráta þegar einn apinn dó á sérlega harmrænan hátt.