eitthvað hefur bloggbínan verið slöpp undanfarna daga en hún er nú öll að hressast og þá verður heimurinn samur.
Alltaf er ég að lenda í einhverju skemmtilegu. Þannig er mál með vexti að ég hef verið að reyna sækja um hjá Stúdentagörðunum undanfarnar vikur en ekki gengið. Svo virðist sem umsóknarferli þeirra á internetinu samþykki ekki mína glæsilegu kennitölu. Þetta er allt hið dularfyllsta mál, þegar ég er búin að fylla út og ætla að halda áfram þá kemur bara kassi sem í stendur: "Please only a Icelandic social security number" Þar sem Stúdentagarðarnir eru svo gasalega tæknivæddir sem mér mundi undir eðlilegum kringumstæðum finnast frábært þá er ekki hægt að sækja um á pappír og því get ég bara alls ekkert sótt um. Þetta gæti enginn nema Albaunin óheppna. Kennitalan mín er gölluð, ég er í rusli.
Ég er búin að vera meiripart dagsins upp á Bókhlöðu að þykjast vera að gera eitthvað en þar sem ég er lélegur leikari hefur það ekki tekist vel. Ég ætlaði að kaupa hefti fyrir skólan í dag og mætti samviskusamlega milli 12 og 13 þegar heftið átti að fást keypt. Albaunin óheppna var hinsvegar svo mikill snillingur að koma í þann mun sem verið var að selja seinasta heftið sem til var.
Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með hve fá svör hafa borist við styrkbeiðni minni. Því auglýsi ég hér með að enn er tekið við styrkjum frá bæði einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.
Ég varð fyrir miklu áfalli þegar ég kom á Hlöðuna eftir of langt jólafrí. Búið var að færa nestistofuna af 4. hæð niður á þá fyrstu við hlið veitingasölunnar. Við það fækkaði borðum um eitt og rýmið sem nestarar höfðu til umráða um meira en helming. Af þessu leiðir að "nestisstofan" er alltaf full og það má ekki sitja á borðunum í veitngasölunni þó að þar sé yfirleitt nóg af lausum borðum. Nestarar verða því bara að éta það sem úti frýs. Það sorglegasta er þó að hin hataða ruslatunna úr nestistofunni fylgdi með í flutningunum en hún er með innbyggðum jógúrt og matarklíningarbúnaði. Hann virkar þannig að ef maður reynir að henda einhverju klínist maður allur út í matarleifum frá öðru fólki.
Já ég lifi erfiðu lífi.
No comments:
Post a Comment