Óheppni Albaunarinnar ætlar engan endi að taka. Nú er svo komið að kórferð til Lundúna í maí er öll í rögli vegna heimskulegra munnlegra stúdentsprófa.
Auk þess var ég að gera verkefni dag sem ég misskildi og gat ekki skilað svo ég þarf að laga það mikið í kveld.
Auk þess er ég í súrri fýlu.
Á föstudaginn ætlum við vinkonurnar, þ.e. Albaunin óheppna, Hjördís Eva, Vaka, Íris og Ásta að fara á Með fullri reisn í Þjóðleikhúsinu. Ég hafði svarið að ég myndi sko ekki fara á svona lágmenningar rusl en þrýstingur frá vinkonum og sú staðreynd að fáklæddir karlmenn koma við sögu olli því að ég þurfti að taka U-beygju og nú er ég bara orðin nokkuð spennt.
Seinasta laugardag fór ég líka í leikhús og einmitt í Þjóðleikhúsið. Ég fór í boði afa og ömmu sem voru bæði á svæðinu og svo kom mamma líka með. Leikritið sem við sáum heitir Halti Billi og er eftir ungt írskt leikskáld. Ég hafði áður séð leikrit eftir þennan sama höfund. Það var í Borgarleikhúsinu og þá fór ég líka með ömmu og afa. Það leikrit hér Fegurðardrottningin frá Línakri. Þar var á ferð meistaraverk. Átök, vonbrigði, svik, hryllingur og harmleikur mynduðu magnaða heild. Það var líka svo vel leikið að á tímabili langaði mig til að hlaupa upp á sviðið og reyna að koma viti fyrir persónurnar. Þetta er ein eftirminnilegasta leikhúsferð ævi minnar og ég hef oft hugsað um hana síðan. Það sama get ég því miður ekki sagt um sýninguna sem ég sá síðastliðinn laugardag. Ég veit ekki hverju er um að kenna. Leikurinn var ekki beint lélegur, bara skelfilega ósannfærandi. Persónurnar voru allar afar ýktar og fóru í taugarnar á mér í stað þess að vekja samúð. Það er erfitt að segja hvort textinn sjálfur hafi verið verri en ég er ekki frá því.
Á eftir leikritið fór ég svo með Vöku, Ástu og Álfheiði á Sólon. Það var bara mjög gaman en ég eyddi svakalega miklum pening sem var ekki gott.
No comments:
Post a Comment