Monday, January 13, 2003

Jæja nú er ég loksins komin úr allt of löngu jólafríi.
Ég skil ekki afhverju kennsla í heimspekideild byrjar næstum viku seinna en í raunvísindadeild og samt er einkunnum skilað seinna.
Það hefur ýmislegt á daga mína drifið í jólafríinu. Ég fékk væga flensu og missti af rosa djammi. Alltaf jafn heppin.
Ég er búin að fara í fyrsta söngtíman og það var mjög gaman. Ég var aðallega að frussa. Það er víst voða gott upp á stuðninginn að gera. Kennarinn sagði að ég ætti að monta mig af því að ég hafi sungið háa C í fyrsta tímanum og geri ég það hér með.

Heimildamyndahornið
Ég sat ásamt móður minni í sófanum og horfði á rólyndislega heimildarmynd sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu. Hún hét Paradís á jörð eða eitthvað í þá áttina og umsjónarmaður var Ingólfur Margeirsson. Allt gerðist hægt enda myndin tekin í Flatey þar sem menn lifa lífinu með ró. Myndin fjallaði um Guðmund P. Ólafsson höfund bókanna Fuglar, Perlur, Ströndin og Hálendið í náttúru Íslands.
Undir lokin fóru þeir saman í litlu bókhlöðuna í Flatey og ræddu um viðgerðir á henni sem Guðmundur tók þátt í. Svo tóku þeir bókina Hálendið upp og byrja að blaða í henni. Þegar Guðmundur finnur sérlega fallega mynd af Köldukvíslareyrum sem eru sokknar undir uppistöðulón rífur hann myndina úr bókinni. Svo rífur hann mynd af Fögruhverum sem líka er búið að sökkva. Svo af dimmugljúfrum, Fagradal, Kiðagili, Þjórsárverum, Langasjó, Skaftá og fleiri stöðum sem áform eru uppi um að sökkva eða breyta á einhvern hátt vegna uppistöðulóna og virkjanna. Þetta var sannarlega áhrifamikið og þegar hann var búinn að rífa fjöldan allan af myndum lokaði hann bókinni. Blaðsíðurnar lágu eins og hráviði um allt gólf. Ég hugsaði með mér að það væri eins gott að fara að skoða allar þessar gersemar áður en þær verða mannkyninu að eilífu horfnar.

Lestrarhornið
Um jólinn las ég all nokkrar bækur eins og flestir Íslendingar og hafði gaman af. Þetta skiptið fékk ég þó aðeins tvær bækur í jólagjöf sem er óvenju lítið. Ég bætti mér það upp með því að fara á Borgarbókasafn og taka 7 bækur. Þær voru reyndar flestar fræðilegs eðlis. Ég er búin að lesa tvær af þeim og var önnur ótrúlega skemmtileg.
Það var In the Shadow of Man eftir Jane Goodall og fjallar um rannsóknir hennar á simpönsum í Tansaníu. Skemmst er frá því að segja að þetta var ein skemmtilegasta bók sem ég hef lesið lengi og auk þess mjög fræðandi. Sagt er frá simpönsunum sem Goodall rannsakaði í tæpan áratug. Þeir heita allir mannanöfnum og persónuleikum þeirra, samskiptum og lífshlaupi er lýst á einstæðan og spennandi hátt. Ég fór meira að segja að gráta þegar einn apinn dó á sérlega harmrænan hátt.

No comments: