Sunday, August 28, 2005

Farið var í mikla innkaupaferð í Ikea í gær. Þar eyddi ég tæpum 1200$ og fyrir það fékk full size rúm og dýnu, náttborð og þriggja skúffu kommóðu úr Malm-línunni. Jonas skrifborð, skrifborðsstól, bókahillu, spegil, fullt af herðatrjám, ruslafötu á bað og fyrir bréfarusl, tvo klósettbursta, þrjá ramma, sprittkerti, geymslukassa og eitthvað fleira sem ég man ekki í bili. Það fannst mér ansi hreint góð kaup.
Hundurinn er eitthvað að tryllast svo ég verða að hætta í bili.

Friday, August 26, 2005

Við Erika vorum að fá afhenta lyklana að íbúðinni, ég var búin að gleyma hvað hún er æðislega fín! Ég var líka að hringja í Con Edison sem sér um rafmagnið og gasið og aldrei þessu vant var ekki vandamál að ég er ekki með social security number.
Annars fór ég á þá fjandans skrifstofu í gær, beið í klukkutíma í röð til að fá bréf sem sagði að ég gæti ekki fengið ssn. Ég hefði getað öskrað.
Ég er orðin ansi spennt að byrja í skólanum og fá eitthvað alvöru að gera, mér er farið að leiðast að hafa ekkert svona varanlegt viðfangsefni.
Við Erika köstuðum upp á hver fengi herbergið með baðinu og ég valdi tails sem kom upp. Þannig að ég fékk herbergið sem er 4 tommum breiðara, með 3 gluggum með útsýni og litlu klósetti, ekkert smá heppin.
Eitt var ég að uppgötva og það er að hún Erika er með svakalega krullað hár og stóra fætur alveg eins og góðvinkonur mínar þær Hjördís og Vaka. Ég virðist sækja í þetta krullhærða lið sem verður að teljast nokkuð undarlegt.....

Tuesday, August 23, 2005

Þá er maður bara komin með rosalega íbúð í New York. Hún er á 205 Pinehurst Avenue sem er í Hudson Heigths hverfinu á norðurhluta Manhattan. Svefnherbergin eru risastór, það er uppþvottavél í fullri stærð og þvottahús í kjallara hússins. Íbúðin er á 4. hæð og með flottu útsýni úr öðru svefnherberginu. Nú þarf ég aftur að kaupa allt nýtt í íbúð s.s. rúm, bókahillur, sófa og svo framvegis.
Ég er líka búin að opna bankareikning og er komin með amerískt debetkort og eitt stykki ávísianahefti. Ég er líka búin að fá þakkarbréf frá bankanum fyrir að hafa byrjað í viðskiptum við þá. Frekar merkilegt mál. Annars er bankamaðurinn minn hörkumyndalegur, hann heitir Burak og er upprunalega frá Tyrklandi, hann er voðalega indæll.
Annars er ég búin að lenda í ýmsu skemmtilegu síðan ég bloggaði seinast. Á föstudaginn lenti ég í ekta New York rigningu, það var hellidemba og ég varð blaut upp að hnjám þó að ég væri með regnhlíf. Þar sem ég var að fara á kynningu fyrir alþjóðlega stúdenta kom ég við í Lord & Taylor og fékk þar bara eitt stykki málningu alveg fríkeypis. Það var gaman.
Í gær fengum við Erika okkur sushi í hádeginu og það var æðislegt, það var á stað sem er rétt hjá íbúðinni okkar, ég ætla oft þangað. Við skoðuðum fjórar íbúðir og sú sem við leigðum var lang lang best og stærst og flottust. Hverfið er afar heimilislegt, gamalt fólk sitjandi á stólum úti á stétt og fullt af krökkum. Það er a.m.k. tveir garðar í næsta nágrenni og neðanjarðarlestin er líka rétt hjá. Seinnipartinn fórum við Erika svo niður í bæ og hittum vinkonu hennar Amber í Sephora sem er geggjuð snyrtivörubúð fyrir þá sem ekki þekkja það. Við fíbbluðumst og máluðum okkur asnalega en svo fínt. Ég keypti bara einn hlut, hvítan trélit til að lita neglur hvítar og hann virkar þokkalega.

Thursday, August 18, 2005

Þá er ég búin að vera tæpan sólarhring hér í USA. Nú þegar hefur ýmislegt á daga mína drifið, ég er flækt í skriffinsku frumskógi, búin að sjá löggu á hesti og kaupa nýju Harry Potter bókina.
Ég er nú í góðu yfirlæti hjá ættingjum Eyju konu Agna bróður pabba. Þau búa í rúmgóðu húsi með sundlaug í Clifton New Jersey og héðan er ekki nema svona 30-45 mín rútferð niður á Manhattan. Ég hélt af stað í morgun léttklædd enda veðrið gott en eins og góðum Íslending sæmir þá tók ég með mér jakka. Það var alveg óþarfi, það var enginn annar í jakka og verðið er búið að vera eins í allan dag! Hér er víst gott veður fram í svona október en þá verður kaldara. Ég á ekki nóg af sumarfötum fyrir þetta. Hér eru allar konur í táslusandölum og pilsum og ég kom bara með eitt pils með mér og það er svart!
Ég fór inn í sérverslun með hárvörur þar sem hægt var að kaupa risastóra brúsa af Tony & Guy sjampói og hárnæringu saman á tæpa 20$ dollara. Það finnst mér mjög ódýrt.
Ég er líka búin að tala við væntanlegan meðleigjanda minn í síman og hún virðist vera ágæt.

Saturday, August 13, 2005

Daddaraddaadddaaa
Nú þarf ég ekki að ganga með gleraugu lengur, vei vei. Ég er með 100% sjón á báðum augum vei vei. Hins vegar þarf ég að fara ómáluð til The Big Apple þar sem ég má ekki nota augnafarða í viku eftir aðgerðina. Hvað ætli maður þurfi að nota mikinn kinnalit til að bæta upp fyrir ómáluð augu?
Annars er það helst í fréttum að ég fann eitthvað silfurdót í uppgreftrinum á miðvikudaginn, ég held ég sé nú barasta Finni sumarsins.
Framundan um helgina er að klára að tæma íbúðina, ég nenni því ekki og byrja að pakka niður fyrir ferðina miklu. Það verður erfitt. Bara tvær stórar töskur, ég er strax komin með valkvíða á háu stigi.