Sunday, April 27, 2008

Í gær fórum við Mike í Target og keyptum teppi. Þetta gæti komið sumum á óvart, ég er ekki beint mikið fyrir teppi (eða gardínur ef út í það er farið) en maðurinn sem býr fyrir neðan okkur getur víst ALDREI sofið fyrir umgangi (og þar á ég við þegar við Mike göngum um íbúðina), sérstaklega er þetta slæmt milli 20.30 og 2 á nóttunni sem okkur þykir sérkennilegt í ljós þess að við erum yfirleitt farin að sofa upp úr miðnætti amk virka daga (gríðarlega spennandi líf!). Allavegana við enduðum á að kaupa kremað rýjateppi fyrir framan sófann og þetta dæmigerða röndótta teppi fyrir svefnherbergisganginn, vonandi verður það nóg en ég efast samt um það. Konan sem bjó í íbúðinni á undan okkur var fjörgömul og íbúðin var víst öll lögð afar þykku teppi, kannski smá munur að fá okkur í staðinn.
Við erum annars að fara aftur í óperuna á miðvikudaginn á Flóttann úr kvennabúrinu eftir Mozart og þar fer Kristinn Sigmundsson með hlutverk Ósmanns, það verður gaman.
Á þriðjudaginn kemur til okkar bresk stúlka sem er að rannsaka eitthvað í sambandi við kindatennur og verður í viku. Eftir það ætti ég vonandi að skilja vel hvað það er sem hún er að gera því hún mun halda fyrirlestur fyrir okkur öll á rannsóknarstofunni. Hún verður hjá okkur til 7. maí. Áslaug frænka ætlar svo að koma í heimsókn 15. maí svo það er nóg að gera.

Mamma og Baldvin voru náttúrulega í heimsókn hérna um daginn og við gerðum ýmislegt skemmtilegt, fórum upp í Empire State building (sem ég gerði seinast þegar ég var 5 ára) biðin var afar löng og mikið verið að reyna að pranga allskyns varningi inn á mann og ég var orðinn þokkalega pirruð en þegar við loksins komumst upp þá var útsýnið alveg þess virði. Við borðuðum líka á besta steikhúsi í New York ótrúlega góða porterhouse steik og löbbuðum um Central park í góðu veðri.

Sunday, April 20, 2008

Við Mike erum komin heim eftir að hafa farið til Elgin um helgina. Mamma hans og pabbi héldu partý og ég hitti alla fjölskylduna og það var æðislega gaman. Við spiluðum badminton og hentum baunapokum (ég er ótrúlega léleg í þeim leik).
Flugið heim gekk ágætlega en var að sjálfsögðu á eftir áætlun. Við fórum líka í garðinn í Elgin og sáum dádýr og vísunda sem voru æðislega flottir.
Við fórum líka á tvo hafnarboltaleiki þar sem bróðir Mike var að spila. Þeir unnu fyrri leikinn en töpuðu þeim fyrri allsvakalega.
Veðrið var mikið betra en það hafði spáð og í dag var heitt og glampandi sól.

Thursday, April 10, 2008

Í dag er mjög heitt hérna í Nýju Jórvík. Í morgun þegar við Mike vorum að labba í neðanjarðarlestina sáum við kardinála fugl, hann var eldrauður og mjög fallegur. Vorið er aðeins farið að koma hér, tré farin að blómstra og svona.
Í tilefni þess að mamma er að koma í heimsókn í viku verður samt kulsalegt og rigning um helgina og í byrjun næstu viku.
Áætlanir sumarsins eru orðnar nokkuð skýrar, ég kem heim til Íslands 9. júní, verð í Flatey að grafa 16.-30. júní. Fer svo beint í Unst uppgröftinn á Hjaltlandseyjum 1. til 21. júlí. Kem þá aftur til Íslands og Mike kemur vonandi í heimsókn í byrjun ágúst. Ég fer svo út til New York aftur 13. ágúst.

Thursday, April 03, 2008

Ég er komin heim frá ráðstefnu Félags um bandaríska fornleifafræði (Society for American Archaeology). Þar vorum við með "session" og ég hélt fyrirlestur, það gekk allt saman mjög vel. Ráðstefnan var í Vancouver sem virðist vera mjög skemmtileg borg þó að ég hefði ekki mikinn tíma til að skoða mig um og veðrið var líka með verra móti. Þegar létti aðeins til var fjallasýnin þó sérlega fögur og minnti örlítið á Ísalandið.
Það var líka sérlega fallegt mannfræðisafn með tótemsúlum og evrópsku keramiki sem mér þótti skemmtilegt. Skemmtilegast var þó að hitta Margréti og Auði skólafélaga mína úr fornleifafræðinni í HÍ.
Hótelið sem við vorum á var í kínahverfinu í Vancouver og við borðuðum á sama kínverska veitingastaðnum tvö kvöld í röð því maturinn var rosalega góður. Við fengum heilann risastóran krabba og ljúffengar rækjur og fleira.
Ég gleymdi alltaf að blogga um páskana hjá okkur Mike, við fórumn á Dim sum stað í Chinatown hér í New York með Quin, Ashley og fleirum. Þar prófuðum við andalappir sem voru mjög góðir og ýmislegt fleira.
Um helgina er ég að fara á CPR eða hjartahnoðsnámskeið til að undirbúa mig fyrir skyndihjálparnámskeið sem ég er að fara á í maí. Það er nauðsynlegt að vera við öllu búinn þegar maður er alltaf að vinna fjarri mannabyggðum og læknisaðstoð.