Saturday, December 16, 2006




Ég er annars komin heim úr minni stuttu heimsókn til Albany sem er höfuðborg New York fylkis. Þar er fátt að sjá en ég mundi þó eftir þessari byggingu frá því að ég bjó þarna sem barn.

Til að sjá mig sem álf, ýtið hér

Í dag ætla ég að klára að kaupa allar jólagjafir og fleira sem þarf að koma með heim á klakann, svo er bara að vona að allt komist í töskurnar...

Tuesday, December 12, 2006

Ég er búin að skila einni ritgerð í dag og þar með klára eitt námsskeið og ég er svakalega ánægð með mig. Núna er ég að hamast við að skrifa aðra ritgerð um kenningar í dýrabeinafornleifafræði og það er merkilega skemmtilegt.

Ég er ekki ánægð með nauðgunardóminn.
Vísir, 12. des. 2006 14:23
Þriggja ára fangelsi fyrir að nauðga 14 ára stúlku
Rúmlega tvítugur karlmaður, Edward Apeadu Koranteng, var í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir nauðgun. Maðurinn nauðgaði stúlkunni sem er fjórtán ára í heimahúsi í september í fyrra. Stúlkunni var jafnframt dæmd um ein milljón króna í miskabætur.

Mér finnst 1 milljón ekki neitt, það er ekki hægt að kaupa bíl lengur fyrir milljón, það er ekki einu sinni árslaun fyrir verkamann. Þetta er alveg fáránlega lítið.

Monday, December 11, 2006

Hvernig væri að ég talaði aðeins um skólann hér á þessari netdagbók minni.
Ég hamast nú við að greina bein frá Grænlandi, það er rosalega gaman en líka erfitt. Selir eru skrítnar skepnur með undurfurðuleg bein sem er oft erfitt að átta sig á en ég er smán saman að ná tökum á þessu. Aðallega finnum við vöðuseli en líka stundum búta úr rostungshauskúpum og svo fann ég eitt bein úr blöðrusel. Inn á milli leynast líka hreindýr sem eru eins og stórar kindur en stundum eins og kýr. Ég fann líka fyrsta svínið á miðvikudaginn það fannst mér æðislegt.
Ég er líka að vinna í beinunum frá Kirkjubæjarklaustri. Þau eru frekar fyndin þar sem stór hluti þeirra er fagurblár á litinn vegna þess að jarðvegurinn er svo blautur.

Hér með ítrekast líka að ég kem heim að morgni þess 18. desember og er eins og áður hefur komið fram farin að hlakka mikið til að hitta alla og komast í smá jólastress!

Mig langar í nýjan síma en ég nenni ekki að finna út úr hvað ég þarf. Getur ekki bara einhver sagt mér hvað ég á að kaupa?
Hann þarf að vera ólæstur, með myndavél, dagatali, virka í USA, með góðan móttakara og endingargóða rafhlöðu og ekki skemmir fyrir ef hann er flottur á því!

Saturday, December 09, 2006

Á fimmtudaginn fór ég með Paolu á tónleika með Junior Boys í Williamsburg, það var ótrúlega gaman. Við dönsuðum eins og vitleysingar.
Vaka er orðin heimsfræg á Íslandi líkt og sést hér.
Veturinn er kominn hér í New York, í gær var -6°C ógeðslega kalt og rok, alveg eins og stundum heima á Íslandi.
Eins og áður hefur komið fram er ég orðin voðalega spennt að koma heim.
Nú þarf ég bara að klára allt skóladótið og svo fer ég að hitta Mike í Albany mínum gamla heimabæ.

Wednesday, December 06, 2006

Í dag fékk ég tvö skemmtileg símtöl. Fyrst hringdi mamma og við spjölluðum lengi sem er alltaf gott. Stuttu seinna fékk ég símtal frá Ásgeiri litla bróður sem er búinn að vera heima veikur í 2 daga með hita og ælupest. Hann vildi endilega hringja í mig sagði pabbi. Ásgeir heldur að hann muni bara fá tvær jólagjafir en hann var voðalega sáttur með það. Krakkar eru svo fyndnir.

Tuesday, December 05, 2006

Etta James er snilldar söngkona, bestu meðmæli frá mér. Það er gott að hlusta á gamla slagara þegar maður er að læra.
Á morgun þarf ég að flytja tvo fyrirlestra en það verður gaman held ég.
Í dag fór ég í fyrsta skipti og lét þvo af mér. Það fannst mér skrítið, mér finnst að fólk eigi að þrífa sinn eigin skít, amk svona að mestu leyti. Ég hafði bara ekki tíma til að hanga í þvottahúsinu og ég varð að skipta um rúmföt og handklæði, mér leið eins og ég væri einn af skólafélögum ömmu Albínu þegar hún var að læra arkítetúr í kóngsins Köbenhavn og sumir strákarnir sendu þvottinn sinn heim til mömmu með Gullfossi.