Tuesday, December 27, 2005

Jólin erum komin og farin. Mér fannst mjög skrítið að byrja jólin á Þorláksmessu, þetta varð allt eitthvað svo stutt. Ég fékk ýmsar sniðugar gjafir, stafræna myndavél frá mömmu og pabba, 66°N ullarpeysu frá ömmu og afa, 50 boyfriends worse than yours frá Eriku herbergisfélaga mínum, flottan heimaprjónaðan trefil frá Agna, Eyju og co, slatta af góðum bókum og svo mætti lengi telja.
Ég fór í sund í Breiðholtslaug með mömmu áðan sem er svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir þar að í afgreiðslunni voru tvær táningsstúlkur og önnur þeirra spurði mig hátt og snjallt hvort ég væri með sílíkon. Ég neitaði og þetta fannst þeim afar merkilegt og við mamma vorum alveg að drepast úr hlátri, það er sko aldrei lognmolla í Breiðholtinu og svo eru líka geggjaðar rennibrautir.
Ásgeir litli bróðir er búinn að læra að segja Bína, ég er voðalega ánægð og leyfi honum að kalla mig það þó að almennt sé ég mjög á móti þessari styttingu.
Ég verð á klakanum til 13. janúar og bíð spennt eftir að komast á almennilegt íslenskt djamm.

Thursday, December 08, 2005


Ykkur er öllum boðið í partý í New York á laugardaginn. Nema þið komist ekki af því að þið eruð ekki í New York! Ha!

Dagurinn í dag var frekar furðulegur. Ég ætlaði á fyrirlestur en honum var frestað. Tölvan mín tók upp á að vera sífellt með BSOD (blúscrín of detð eða bláskjá dauðans) svo ég gat ekki notað hana. Svo tók ég lestina og ipodinn minn vildi ekki kveikja á sér. Svo var maður í lestinni með eitthvað það voldugasta yfirvarakskegg sem ég hef nokkru sinni séð. Yfirvaraskeggið mikla var nokkurnvegin eins og myndin að ofan, bara alvöru og virðulegra, ræktarlegra og flottara. Svo var annar maður í lestinni í hvítum leðurjakka sem var með ásaumaðri beinagrind úr svörtu leðri, svona eins og grímubúningur mjög sérstakt.
Ég var að skrifa emil til að bjóða fólki í partýið okkar Eriku og komst þá að því að ég þekki svona 20 manneskjur hér í borg, það finnst mér ekki mikið, ég þarf að vera virkari í að mynda vináttusambönd.

Sunday, December 04, 2005

Ég ætla að fara á Messías eftir Handel í Trinity Church sunnudaginn 11. desember, ég er ofsalega spennt!
Það snjóaði hér í nótt, smá svona jóla púðursnjór voða sætt. Ég er viss um að það er allt mér að þakka því ég notaði fínu flísnáttbuxurnar sem Áslaug gaf mér í fyrsta skipti í gær. Þær eru ljósbláar með myndum af snjókornum og svo var ég líka í sokkum með snjókornum og í bláu flíspeysunni minni, ég var eins og stórt blátt snjókorn og þá snjóaði, það getur ekki verið tilviljun.

Eyja klukkaði mig víst, ég er að vinna í svari, það mun birtast á næstu dögum.

Annars vil ég skora á alla/r Alþingiskonur og -menn að hætta þessum aulagangi og samþykkja ný vændislög þar sem gert er refsivert að kaupa vændi. Það eru engin rök fyrir því að refsa aðeins seljandanum, það er jú yfirleitt seljandinn sem er hjálparþurfi. Sá sem kaupir vændi er að færa sér í nyt neyð annarar manneskju á versta hátt sem hægt er.

Best að halda áfram að læra.

Saturday, December 03, 2005

Ég er náttúrulaus, ég ætla á umhverfisverndartónleika með Vöku, spennó.
Ég byrjaði að skoða beinasafnið frá Skriðuklaustri í gær og undur og stórmerki, ég fann strax sköflung úr sel og sköflung úr svíni. Af hverju er þetta merkilegt myndu sumir spyrja, jú af því að Skriðuklaustur er lengst inni í landi og svín eru frekar sjaldgæf á Íslandi eftir að víkingarnir gáfust upp á þeim svona upp úr 1000.
Ég var að skoða The New York Times á netinu og þar var tvennt sem vakti ánægju mína, 3 af 5 bestu skáldsögum ársins samkvæmt blaðinu eru eftir konur og konur í Suður-Ameríku eru farnar að berjast af aukinni hörku gegn allsherjar banni við fóstureyðingum og það sem meira er, barátta þeirra virðist ætla að bera árangur.