Thursday, November 30, 2006

Getur verið að okkar yndislega ríkisstjórn ætli enn einu sinni að greiða fyrir lækkun skatta á einu sviði með hækkun skatta á öðru? Mig minnir sterklega að skattar á sterkt áfengi hafi einmitt verið hækkaðir í síðustu skattalækkunarhrinu og nú á að spila sama leikinn aftur samkvæmt nýju frumvarpi. Mér þykir ansi líklegt að fyrir meðal-fjölskylduna (hver svo sem hún er) þá muni þessi hrókering þýða að sparnaður við matarinnkaup mun vera étinn upp ef fólk vill fá sér rauðvín með steikinni. Er neyslustýring á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins? Greinilega og ég sem hélt að þar á bæ snerist allt um frelsi og val og einstaklinga og bla bla....

Wednesday, November 29, 2006

Ég er komin með nýja og glansandi fína tölvu. Það er æði, þegar ég ýti á takka þá gerast hlutir strax en ekki eftir 10 mínútur eins og á gömlu tölvunni. Ég þarf bara að fá mér íslenska lyklaborðs límmiða.
Það er annars lítið að frétta héðan nema að ég hamast við lærdóminn, kannski tími til kominn og er farin að vera spennt að koma heim.
Eins og áður hefur komið fram var ég hjá Áslaug frænku í Þakkargjörðarfríinu og hafði það voðalega gott. Við elduðum fínan mat og fórum á nýju Bond myndina í bíó, hún var góð afþreying. Við fórum líka á ströndina, í Maine í nóvember! Nei smá grín, við fórum bara í göngutúr og við vorum í úlpum. Ég fann dáið síli og krabbakló og skel. Þrautþjálfuð augu fornleifafæðingsins eru alltaf að!

Tuesday, November 21, 2006

Ég þoli ekki að pakka. Eftir flutningin hingað til New York, ferðir heim til Íslands, á ráðstefnur, endalauss flandurs frá Skriðuklaustri í bæinn og til annarra útkjálka þá reiknast mér til að ég sé búin að pakka um það bil 143579345727 sinnum undanfarin 2 ár. Það er ekki gott mál. Nú er ég orðin svo áhugalaus um pökkun að ég hendi bara drasli ofan í töskuna, nenni ekkert að brjóta saman eða hugsa mikið um hvað ég er að taka með sem leiðir til þess að mikilvægir hlutir gleymast, óþarfi fer með og allt verður að einu ljótu krumpustykki. Ekki gott mál.
Flutningurinn úr íbúð þar sem ég hafði 3 stóra fataskápa í íbúð þar sem ég hef einn lítinn fataskáp leiddi líka til þess að ég geymi hluti í ferðatöskunni minni svo ég þurfti að tæma hana áður en ég gat pakkað, oj barasta!

Sunday, November 19, 2006

Os mutantes eru snilldarhljómsveit, mæli með að allir kíki á þau. Þau eru brasilísk og frá 7. áratugnum en ótrúlega fersk samt.
Sumarið virðist loksins vera búið hérna í Eplinu og þar sem ég er að fara til Áslaugar frænku í Main yfir Þakkargjörðarhátíðina er nokkuð líklegt að ég fái að sjá smá snjó svona eins og er í Reykjavík.
Ég er búin að vera rosaleg dugleg að elda undanfarið, eldhúsið í nýju íbúðinni er betra þó að það sé minna borðpláss. Í hinni íbúðinni var bara eitthvað svo þröngt og klínískt.

Wednesday, November 15, 2006


Af mbl.is
Erlent | AFP | 15.11.2006 | 14:32
Þing Pakistans samþykkir breytingar á lögum um nauðgun og hjúskaparbrot

Þing Pakistans samþykkti í dag að stjórnarfrumvarp um að breyta lögum, sem gilt hafa í landinu um nauðgun og hjúskaparbrot en þau lög byggjast á íslömskum bókstafstrúarlögum.

Gömlu lögin, sem eru 27 ára gömul, gerðu kváðu á um að kona, sem vildi kæra nauðgun, þyrfti að leiða fram fjóra karla sem vitni en ella gæti hún átt yfir höfði sér ákæru fyrir hjúskaparbrot.

Íslamskir bókstafstrúarmenn úr röðum þingmanna tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslunni um nýja frumvarpið í dag og vöruðu því því, að breytingarnar myndu breyta Pakistan í þjóðfélag þar sem frelsi í kynferðismálum yrði ríkjandi.

Alltaf gaman þegar góðir hlutir gerast þó að vissulega mættu þeir oft gerast miklu hraðar.
Ég sá Borat í bíó, það er fyndin mynd.
Mér fannst ekki jafn fyndið að Árni Johnsen skildi vinna í prófkjöri Sjálfstæðismanna, að 3000 manns hafi kosið hann er hneyksli. Ég er alveg sammála því að hann sé búinn að taka út sína refsingu og hann fullan rétt á að fá tækifæri til að vinna fyrir sér og hvað eina en ég sé bara ekki að maðurinn eigi neitt einasta erindi aftur á þing og þangað er hann að fara. Hann fékk þar sitt tækifæri og gerði ekki gott úr því, mér finnst hann ætti tvímælalaust að reyna fyrir sér annars staðar.
Ég fór annars á MoMa (Museum of Modern Art) um daginn og það var snilld að venju en því miður var búið að taka niður myndbandsverk Steinu Vasulkas, það fannst mér leiðinlegt. Verkið er skemmtilegt og það kitlaði óneitanlega þjóðerniskenndina að hafa verk eftir Íslending uppi á svo stóru og þekktu safni.

Annars er það helst í fréttum að ég hef verið löt við að blogga og ég sá Johnny Knoxville úr Jackass hjá NYU í seinustu viku. Hann var ósköp villtur eitthvað og ég var að hugsa um að bjóða fram aðstoð mína en ég var að verða of sein í tíma svo ég hætti við. Ég hefði líklega ekki tekið eftir honum nema af því að hann var í allt of stuttum buxum sem kom mér spánskt fyrir sjónir svo ég leit aftur á hann. Hann er líka sætur í eigin persónu ef einhver var að velta því fyrir sér.

Friday, November 03, 2006

Til Guggu og fleiri sem eru eitthvað ruglaðir varðandi flutninginn

Við Erika fluttum saman til Astoria af því að gamla íbúðin okkar var of dýr og staðsetninging var ekki nógu heppileg til að komast í skólann. Núna erum við í mjög fínni íbúð með tveimur alvöru baðherbergjum, ég er með sér svefnherbergi og skrifstofu.
Hverfið er líka allt öðruvísi, allir í húsinu eru hispanic nema ég ekki bara leiðinda uppar eins og á gamla staðnum. Það er líka alvöru matvörubúð hérna rétt hjá sem er alveg æði svo þetta er allt í ágætis lukkunnar velstandi.
Það er ennþá nóg pláss fyrir gesti og góður stemmari bara.
Í kvöld þarf ég að fara í móttöku útaf styrk sem ég fékk frá CUNY, ég get engan veginn ákveðið í hverju ég á að fara, maður veit aldrei með þessa Ameríkana hvort þeir verða fínir eða ekki.

Wednesday, November 01, 2006

Síðasti póstur átti að vera niðurstaða úr persónuleikaprófi þar sem fram kom að ég væri Stan úr South Park, það virðist eitthvað hafa misast.
Ég fór með Mike að sjá Hrekkjavökuskrúðgöngu í Greenwich village í gær, það var voða gaman.
Blogger er ekki að leyfa mér að setja inn myndir núna, ég reyni aftur seinna.