Tuesday, July 31, 2007

Ég er að fara til Prag á morgun með pabba, Láru, Ásgeiri litla bróður, Snævari og Svanhvíti tvíburasystur Láru. Ég er bara orðin nokkuð spennt en er reyndar ekki byrjuð að pakka sem á líklega eftir að leiða til mikils neyðarástands á einhverjum tímapunkti á morgun.

Sunday, July 29, 2007

Síðastliðinn mánudag komu fréttamaður og myndatökumaður frá Sjónvarpinu í heimsókn í Vatnsfjörð og tóku við tal við Mjöll Snæsdóttur um uppgröftinn á nýja bænum, Kareni Milek um uppgröftinn á víkingaaldarsvæðinu og við mig um fleytingu. Við biðum mikið eftir því að þetta kæmi í sjónvarpinu en á endanum kom bara viðtalið við mig í Morgunvaktinni á föstudaginn, þið getið hlustað hér.
Ég er nokkuð ánægð með eigin frammistöðu enda er ég langt frá því að vera sérfróð um fleytingar og greiningu plöntuleifa úr fornleifauppgröftum.
 
Í tengslum við blogg Dagnýjar um tískustrauma á Seyðisfirði þá hafði Gugga komið með þá ábendingu að tilgerðarlegt hár væri kannski helsta sameiningartáknið. Ég var þá fljót að skella nettu hliðartagli í mig til að vera í stíl og Vaka gerði slíkt hið sama og hér má sjá árangurinn.
Posted by Picasa
 
Posted by Picasa

Tuesday, July 24, 2007

Eyja klukkaði mig og þar sem ég svaraði aldrei seinasta klukki þá verð ég víst að gera eitthvað í þessu núna...
Hérna eiga að vera hlutir sem fólk veit ekki um mig en þar sem ég er mikil blaðurskjóða og tala stanslaust um sjálfa mig þá fannst mér þetta erfitt.

1. Mér finnst Korn svakalega skemmtileg hljómsveit, ég á alla diskana og langar svakalega mikið á tónleika með þeim.
2. Ég þoli ekki nagla-afklippur, almennt er ég ekki viðkvæm og klíjugjörn en mér finnst þær ógeð.
3. Ég hef aldrei komið til Norges.
4. Húsafell í Þórsmörk er fallegasti staður á Íslandi.
5. Þegar ég var lítil þorði ég ekki að fara niður í kjallara því ég hélt að það myndi koma vampíra að bíta mig.
6. Ég hef bara beinbrotnað einu sinni, þegar litli puttinn minn klemmdist á Hjónagörðunum.
7. Ég er spennt að lesa nýju Harry Potter bókina.
8. Mér finnst kálbögglar (og kjötfars almennt) versti matur í heimi.

Gaman væri nú að vita hvort fólk vissi þessa hluti almennt.

Annars er allt ágætt að frétta héðan úr Vatnsfirði, veðrið hefur verið mjög gott og ég kem aftur í bæinn á laugardaginn og fer svo út til Prag 2. til 10. ágúst og svo út til New York 17. ágúst.

Monday, July 09, 2007

Veðrið hér á Vestfjörðum hefur verið ótrúlegt, ég er komin með nokkuð þéttan lit og allt. Við dveljumst í góðu yfirlæti á Reykjanesi og gröfum í Vatnsfirði. Það er risastór og vel heit sundlaug hér sem gott er að láta þreytuna líða úr kroppnum í. Ég, Bjarney og Monika erum saman í herbergi, ég er í mið-kojunni. Ég hef aldrei verið í þriggja hæða koju áður, nokkuð fyndið, ég þarf að nota stól til að komast upp í.
Á laugardaginn fórum við í gönguferð á Drangjökul og það var alveg yndislegt.
Amma og afi ætla svo að koma í heimsókn á morgun svo það verður voða gaman. Annars höfum við Vaka ákveðið að mæta ekki á MR reunion heldur halda á fjölskylduhátiðina Lunga á Seyðisfirði, það verður tær snilld líkt og í fyrra.

Monday, July 02, 2007

Mæli með Euroshooper Body Lotioninu það er mjög fínt og kostar aðeins 139 kr fyrir stóran brúsa, eini hluturinn sem er ódýr á Íslandi.
Í dag var fyrsti vinnudagurinn í Vatnsfirði, við hreinsuðum torf af svæðum frá í fyrra og opnuðum stórt nýtt svæði og þar má strax sjá byggingu. Við þurftum líka að laga hnitakerfið aðeins eftir veturinn en það var nokkuð rétt. Veðrið hefur leikið við okkur hér eins og aðra landsmenn, vonandi helst þetta svona.
Annars kom mér á óvart hvað það var fljótlegt og fínt að keyra hingað tók um 5 1/2 og nánast allt malbikað nema rétt Þorskafjarðarheiðin og jafnvel vegurinn um hana var í ótrúlega góðu standi. Mikill munur að keyra Bröttubrekkuna frá því sem ég bjó á Reykhólum milli 1989 og 1994 þegar sumar beygjurnar voru svo krappar að það lá við að maður þyrfti að stoppa og bakka til að ná þeim, núna er hún næstum jafn fín og vegurinn uppi á Kárahnjúkum.
Inga Hlín bað um meiri upplýsingar um hina fornu salernisaðstöðu á Hrísheimum og hún verður bara að vera þolinmóð þangað til búið er að gefa meira út, eins og er hef ég þetta allt beint frá Tom og það á enn eftir að greina allan kúkinn en það á áreiðanlega eftir að koma margt spennandi út úr því.