Monday, November 29, 2004

Innlent mbl.is 29.11.2004 22:01
Gjöld á sterku víni og tóbaki hækkuð um 7%
Alþingi samþykkti í kvöld lagafrumvarp um að áfengisgjald á sterku víni hækki um 7% og tóbaksgjald hækki einnig um 7%. Áfengisgjald af léttu víni og bjór hækkar ekki. Reikna má með að smásöluverð á sterku víni hækki um u.þ.b. 5,6% og verð á tóbaki um 3,7% að jafnaði. Tekjuauki ríkissjóðs vegna þessara hækkana nemur allt að 340 milljónum króna á ársgrundvelli og áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs eru talin verða um 0,08%.
Fjármálaráðherra lagði frumvarpið fram á Alþingi í kvöld og það fór hraðferð í gegnum þingið og var samþykkt laust fyrir klukkan 22.
Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að áfengisgjald og tóbaksgjald hafi ekki hækkað síðan í lok nóvember 2002 og ljóst sé að þróun þeirra gjalda hafi ekki verið í samræmi við almennt verðlag og í raun hafi þau lækkað að raungildi. Tillaga um hækkun nú sé í samræmi við þróun almenns verðlags á síðustu árum en almenn vísitala neysluverðs hafi hækkað um u.þ.b. 7% frá því að þessi gjöld hækkuðu síðast. Í frumvarpinu er þó lagt til að áfengisgjald léttra vína og bjórs verði óbreytt, en það hefur ekki breyst síðan 1998.
Þingmenn stjórnarflokkanna og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs studdu frumvarpið á Alþingi í kvöld en þingmenn Samfylkingar og Frjálslynda flokksins sátu hjá.

Ég er svo ánægð með ríkisstjórnina, enn ein skattalækkunin!
Þetta gæti haft þau áhrif að ég geti ekki bakað mína víðfrægu og sérlega ljúffengu jólaköku þar sem sherrýlegnar rúsínur eru ómissandi hluti hennar. Ég sem fátæk námskona hef varla efni á því núna!
Að auki hefur þetta hækkað höfuðstól námslánanna minna og íbúðarlánanna þar sem þau eru öll verðtryggð. Helvítis svínarí!

No comments: