Monday, May 30, 2005

Þá er ég loksins búin með BA-ritgerðina mína. Forsíðan er fjólublá og ritgerðin heitir Segðu mér sögu af seli: Fornleifafræðileg úttekt á íslenskum seljum. Hún er mjög falleg en hvað Orra og leiðbeinandanum finnst um innihaldið er óvíst og ég er ekki sérlega bjartsýn. Það var allt á móti mér í dag þegar ég var að reyna að skila ritgerðinni. Fyrstu mistökin voru að fara í Háskólafjölritun. Þar voru nokkrar aðrar stúlkur í sömu erindagjörðum og ég og allt gekk á hraða snigilsins. Þegar það kom í ljós að heftivélin var biluð ákvað ég að leita annað. Fyrsti staðurinn sem ég fór á gat ekki gert þetta í dag. Hinn staðurinn var ekki með réttu tækin en maðurinn þar var svo vænn að hringja fyrir mig og finna stað sem gat gert þetta fyrir mig. Hið heppna fyrirtæki var Samskipti í Síðumúla. Þar tók þetta allt saman tæpan klukkutíma sem mér finnst bara nokkuð gott.

Annað er helst í fréttum að ég hef lokið miðstigi í söng sem samsvara gamla 5. stigi. Ég fékk 8,3 á prófinu og er bara nokkuð sátt. Ég fékk fullt fyrir söngæfingarnar og tvö lög og hátt fyrir önnur tvö. Fyrir þau tvö lög sem ég var hvað öruggust með fékk ég hins vegar lægra. Væntanlega hef ég ekki verið að einbeita mér jafn mikið þar enda verið góð með mig þar. Fyrir óundirbúinn nótnalestur fékk ég 5 af 10 sem var mjög rausnarlegt sérstaklega þegar haft er í huga að ég gerði svona 4 nótur rétt.

Ég er svo að fara til Skotlands á föstudaginn. Það verður gaman. Ég ætla á System of a Down tónleika og gera alls konar skemmtilegt. Aðal verkefnið er að taka þátt í endurbyggingu skosks sels við Loch Lommond vatn. Verst að ég var ekki búin að því áður en ég skilaði ritgerðinni.

No comments: