Ég slysaðist til að horfa í Boston Legal á Skjá 1 í gær. Þetta er frekar leiðinlegur þáttur og með þeim kvenfjandsamlegri sem ég hef séð lengi. Aðalhetjan er frekar venjulega útlítandi maður sem á að vera rosalega klár lögfræðingur. Nokkrir kvenlögfræðingar eru líka í þættinum, þær eru allar mjög fallegar, óaðfinnanlega greiddar, málaðar og klæddar öllum stundum. Að auki eru þær með clivinn í botn við öll tilefni og mér finnst ósennilegt að lögfræðingar klæði sig svona í vinnunni dags daglega.
Nú í þessum þætti sem ég horfði á kvartaði ritari aðalhetjunnar undan kynferðislegri áreitni af hans hálfu. Áreitnin var afar svæsin, hann gaf peysum ritarans einkunn, talaði stanslaust um fagurt vaxtarlag hennar og lýsti fyrir henni kynferðislegum draumum sínum um hana. Þetta fannst ritaranum skiljanlega óþægilegt. Þegar hún kvartar er vel tekið í það og rætt við aðalhetjuna. Hann svara því til að hann láti alla kvenkyns undirmenn sína undirrita plagg þess efnis að þær muni ekki kæra hann fyrir kynferðislega áreitni enda geti hann alls ekki hamið sig í návist fagurra kvenna. Þetta fannst mér afar hæpið og heimskulegt, eru karlmenn dýr sem geta ekki hamið sig þegar kemur að kynferðislegum efnum?
Í þættinum var einn kvenlögfræðingurinn rekinn. Ég gat ekki betur séð en að ein af aðalástæðunum fyrir því væri að hún hafði sofið hjá einum meðeigenda lögfræðistofunnar fyrir meira en ári og síðar hafi hún sofið hjá aðalhetjunni. Að hvaða leiti þetta gerði hana óhæfa til að sinna starfi sínu skyldi ég ekki. Frekar hefði átt að reka karlana tvo sem báðir voru hærra settir en hún.
Þetta er ekki góður þáttur.
No comments:
Post a Comment