Tuesday, November 29, 2005

Ég var að læra nýtt flott orð, littoral en það þýðir flæðarmáls-; fjöru- eitthvað. Ég er að hamast við að gera fyrirlestur sem ég á að flytja á fimmtudaginn ásamt fjórum öðrum krökkum. Strákarnir voru að fatta í dag að þeir þyrftu kannski að fara að gera eitthvað í sínum hluta, alveg dæmigert.
Ég hafði það afar gott um þakkargjörðarhátíðina hjá henni Áslaugu. Rútferðin frá New York til Boston með því mistæka rútufyrirtæki Fung Wha Bus tók 7 tíma en það telst seint eðlilegt. Ég var bara 4 tíma á leiðinni til baka og það var með 20 mínútna stoppi.
Ég gerði margt í fríinu en ekkert tengt skólanum. Ég bjó mér til eyrnalokka, hjálpaði Áslaugu að baka tvær kökur horfði á eina mjög góða bíómynd, The Girl in the Café sem gerist á Íslandi og aðra arfa lélega, Le Divorce sem gerist í Frakklandi.
Ég las líka skemmtilega bók sem heitir Empire Falls sem gerist einmitt í Maine þar sem ég var gestkomandi um helgina. Það var æðislegur jólasnjór í Maine og kalt og hressandi, síðan ég kom aftur í eplið hefur verið 15-19°C hiti. Ég bara veit ekki hvort það kemur nokkurn tíman vetur hér, mér skilst reyndar að það hafi snjóað á sjálfan þakkargjörðardaginn en ég sá það ekki sjálf og trúi því tæplega.

No comments: