Tuesday, November 22, 2005

Stefnan er tekin til Maine á morgun. Tekið verður af stað frá Kínahverfi New York borgar og ekið þaðan með kínverskum hópferðabíl til Boston, sá leggur ætti að taka um 4 1/2 tíma. Vonandi verða engar meiriháttar tafir svo ég nái rútunni frá Boston til Portland kl. 20. Til Portland sækir Áslaug mig svo. Dagskráin er nokkuð opin, eitthvað verður kíkt í búðir, hátíðarsnæðingur verður hjá vinkonum Áslaugar sem eru með smíðaverkstæði. Líklega held ég svo heim á leið á laugardaginn enda næg verkefni fyrir hönum í skólanum. Merkilegt hvað nóvember hefur farið hratt yfir. Á fullveldisdaginn á ég að kynna hópverkefni um þjóðerni og hagkerfi (ethnicity & economy) í tengslum við víkinga, kelta og picta á Bretlandseyjum, 6. des þarf ég að kynna ritgerð og svo þarf ég auðvitað að skrifa ritgerðir líka. Jamm nóg að gera.
Ég fór í bíó með Colin, Eriku og Jeff í gær á Goodnight and Good Luck. Stórgóð mynd og sérlega fróðleg, ansi skörp ádeila á nútímann líka, fjölmiðla almennt en sérstaklega sjónvarpið. Við ætluðum að sjá nýju Harry Potter myndina en það var svona líka svakalega uppselt á hana. Ætli við reynum ekki bara aftur síðar.

1 comment:

Eyja said...

Góða skemmtun og ég bið að heilsa. Ég get staðfest það að Áslaug eldar mjög góðan kalkún.