Saturday, October 28, 2006

Friday, October 27, 2006

Ég er alveg að verða búin að koma mér fyrir. Ég var að enda við að troða fötunum mínum í pínulitla skápinn minn. Það komst ekki mikið fyrir og nú er kommóðan líka smekkfull, skápapláss er gott pláss.
Ég á enn eftir að klára að skrúbba eldhúsgólfið svo að allar fúurnar verið hvítar en ekki bara sumar og svipað þarf að fara fram á baðinu.
Ég ætla líklega að setja upp nýjan lyfjaskáp og fleiri handklæðaslár. Það á líka eftir að klára að raða í eldhúsið og hengja upp fleiri myndir og spegilinn minn en þetta er bara orðið ansi hreint kósí hjá mér.
Eimskips-dagatalið er loksins komið upp og minnismiðataflan mín, hvorugt gerðist svo frægt að prýða veggi gömlu íbúðarinnar.
Ég á líka eftir að redda einhverju kerfi til að geyma útifötin mín, núna hanga þau á skrifborðsstólnum ekki alveg nógu sniðugt.

Thursday, October 26, 2006



Hér eru nokkrar myndir úr nýju íbúðinni
Við mamma þreyttar en ánægðar með árangurinn, við sitjum í stofunni.

Wednesday, October 25, 2006

Ég er flutt inn í nýju íbúðina og við erum smán saman að koma okkur fyrir, þetta gæti orðið ansi fínt þegar allt er tilbúið.
Það er orðið kalt úti og það finnst mér fúlt.

Thursday, October 19, 2006

NFS, 19. Október 2006 12:09
Kynbundinn launamunur nánast óbreyttur í áratug

Kynbundinn launamunur hefur sama og ekkert minnkað á síðustu tíu árum. Ný rannsókn sem Capacent gerði fyrir Félagsmálaráðuneytið sýnir að konur eru með 84,3% af launum karla - sem eingöngu má rekja til kyns. Fyrir tíu árum voru konur með 84% af launum karla. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra lýsir yfir vonbrigðum með niðurstöðuna.

Ráðherra leitar eftir samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um það hvort hægt sé að beita nýrri aðferðarfræði, s.s. að lýsa eftir aukinni ábyrgð stjórnenda.

Svo segja sumir að það sé ekki þörf á jafnréttisbaráttu og femínisma!Rögl!

Hér er líka áhugaverð grein af The New York Times um hvernig konur hér klæða sig á Hrekkjavöku

Wednesday, October 18, 2006

Ég gleymdi víst að segja hvað myndin hét, I am legend og samkvæmt IMDb á myndin að koma í kvikmyndahús 2007.
Það er ennþá 20°C hiti hér og það mun líklega ekki rigna um helgina sem er gott því ég er loksins að flytja.

Tuesday, October 17, 2006

Stundum er mjög skrítað að búa hér í New York. Undanfarnar 2 vikur hafa staðið yfir tökur á væntanlegri Will Smith mynd niðri við Washington Square Park sem er rétt hjá þar sem ég fer í NYU tímana mína. Stundum hefur götum í nágrenninu verið lokað vegna þess og í seinustu viku var búið að setja upp fullt af bílum sem leikmuni, þeir voru allir voðalega rykugir og svo var gervigras látið "vaxa" upp á milli gangstéttarhellanna og þeir voru líka með vindvél á staðnum.
Í kvöld bauð einn af prófessorunum okkur í mat heim til sín og það var alveg hreint yndislegt. Ég finn alltaf meira og meira hvað ég sakna þess að koma heim til fólks þar sem það hefur búið í mörg ár, allir sem ég þekki hér flytja ca. einu sinni á ári og það nær einhvern vegin ekki að koma ekta heimilislegur andi jafnvel þó fólk geri voða kósí.

Sunday, October 15, 2006

Fyrir áhugasama tilkynnist hér með að ég mun verða stödd á Íslandi frá 18. desember 2006 til 14. janúar 2007.
Byrjað er að taka við tímapöntunum.
Sérstakur áhugi er á öllu tengdu óhóflegri áfengisneyslu, skemmtunum og almennri ómennsku.

Ég fór á snilldartónleika með Badly Drawn boy á fimmtudaginn með Paolu í Hiro Ballroom sem er niðri í Meatpacking hverfinu. Íris og Hjördís muna kannski eftir staðnum, við fórum þangað í janúar afar seint um nótt. Staðurinn er mjög flottur, allt er skreytt í japönskum stíl með rauða veggi og pappírsljós.
Badly Drawn Boy var í góðu stuði, tók alla slagarana og spilaði heillengi, svaka stuð.

Wednesday, October 11, 2006

Það flaug víst lítil flugvél á hús sem er minna en 10 blocks í burtu frá mér en við vissum ekkert. Reyndar aðeins meiri þyrlu umferð en venjulega annars allt með felldu. Svona er auðvelt að láta hluti framhjá sér fara.

Tuesday, October 10, 2006

Stundum er erfitt að vera í skóla sérstaklega þegar maður þarf að gera verkefni um bók sem manni finnst leiðinleg og heimskuleg.
Það er ennþá 20°C hiti hér sem er snilld.

Friday, October 06, 2006

Íslensk fréttamennska í sínu fínasta pússi
Af ruv.is

Fyrst birt: 06.10.2006 18:35
Síðast uppfært: 06.10.2006 18:53
Vilhjálmur frá Brekku velti bílnum sínum

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi hófst í morgun á Höfn í Hornafirði. Nú stendur yfir hátíðardagskrá í tilefni af 40 ára afmæli sambandsins og meðal þeirra sem þar flytja erindi er Vilhjálmur Hjálmarsson frá Brekku í Mjóafirði, fyrrverandi formaður sambandsins.

Vilhjálmur sem er 92 ára gamall velti bíl sínum á veginum yfir Öxi í gær á leið á þingið. Hann var með nýtt ökuskírteini og á nýjum bíl.
Ég vil byrja á að þakka þær fjölmörgu kveðjur sem mér bárust í gær í tilefni afmælisdagsins jafnt í gegnum síma sem og á netinu.
Ég fór út að borða á voðalega sætum frönskum stað sem hét 26 Seats og viti menn það voru einmitt 26 sæti á staðnum. Með í för voru Paola, Erika og Jeff kærastinn hennar. Ég fékk mér önd og við deildum Créme Brulée í eftirrétt rosalega gott.
Svo var haldið heim á leið og tekið þátt í græna korts lotteríi. Það er voðalegt vesen aðalega af því að ég ætlaði ekki að geta fengið myndina til að vera í réttri stærð en það hafðist á endanum.
Ég fékk rosalega flott armband úr bleikum steinum frá Áslaugu frænku og bleikt úr frá Paolu. Alltaf gaman að fá smá pakka en ég saknaði þess að fá ekki heitt súkkulaði a la mamma líkt og hefð hafði skapast fyrir, verð bara eiga það inni.
Ég ætla svo að reyna að halda almennilega upp á áfangann þegar við Erika erum fluttar inn í nýju íbúðina.
Ég fór og taldi klink í bankanum í dag og viti menn ég átti rúmlega $25 í klinki, það fannst mér mikið eftir ekki lengri búsetu en svona er ég dugleg að safna.
Í kvöld ætla ég að kíkja á lífið með strákunum úr prógramminu og kannski fá mér eins og einn bjór....

Wednesday, October 04, 2006

Við Erika erum búnar að finna íbúð í Queens og hér er hægt að sjá hana á korti. Við flytjum 23. október 2006.
Mér er afar létt.

Tuesday, October 03, 2006

Það er ömurlegt að reyna að finna nýja íbúð í þessari borg. Hér er ótrúlega mikið framboð af furðulegu húsnæði, svefnherbergi þar sem ekkert rúm kemst fyrir, railroad íbúðir þar sem öll herbergin eru í beinni línu og ganga þarf í gegnum herbergi til að komast á milli, sem sagt ómögulegt ef maður vill einkalíf, hér eru allar íbúðir með örsmáa glugga og almennt séð mjög litlar sem væri svo sem í lagi ef þær væru ekki líka skelfilega dýrar, í vondum hverfum og langt frá lestinni. Algjör snilld. Vonandi rætist samt úr þessu hjá okkur Eriku.