Sunday, September 06, 2009

Flutningarnir miklu
Á föstudaginn var langur langur dagur. Fyrst ætla ég samt að tala um fimmtudaginn, ég gat ekki bloggað þar sem internetið í götunni þar sem farfuglaheimilið var bilaði. Ég hélt ég myndi deyja úr netskorti en svo fór ekki.
Á fimmtudaginn tókst mér að fá símanúmer og koma af stað umsókn um bankareikning. Ég fjárfesti líka í risastóru fjólubláu handklæði og gulllituðum íþróttaskóm sem ég réttlætti með því að ég þarf að labba í 20 mínútur frá lestinni í vinnuna og til þess þarf maður jú skó. Ég fór svo í stutta heimsókn á vinnustaðinn minn, það leit allt mjög vel út, ég deili skrifstofu með hinum dýrabeinafornleifafræðingnum, hinni finnsku Dr. Auli (hún heitir þetta). Skrifstofan okkar er sú besta í húsinu með góðum gluggum og ágætlega rúmgóð.
Eftir þetta fór ég svo að skoða fyrstu íbúðina mína í Cork. Það var ekki skemmtilegt. Hún var tveggja herbergja og á ágætum stað en húsið var mjög gamalt og sameignin skítug. Það lá fúkkalykt yfir öllu og þrátt fyrir að verið væri að vinna í að taka íbúðina sem mér bauðst til leigu í gegn er vandséð hvernig smá yfirhalning hefði getað komið þessum hjalli í íbúðarhæft stand. Ég fylltist smá örvæntingu við þetta enda var ég bara búin að mæla mér mót að skoða eina íbúð enn. Ég kom við á öllum leigusölum sem ég labbaði framhjá, og þær eru mjög margar í Cork en bara á einum stað voru þeir með íbúð sem þau voru tilbúin að leigja í svona stuttan tíma. Hún var reyndar dýrari en ég hafði áætlað en ég tilbúin að borga nánast hvað sem er bara til að þurfa ekki að búa í húsi með fúkkalykt og almennri ógleði.
Nú næsta íbúð var í skemmtilegu hverfi, rétt hjá kirkju og á tveimur hæðum en miðað við verðið þá var hún ekki í mjög góðu ástandi, dýnan gömul og ekki pláss fyrir borð af neinu tagi. Ekki gott.
Þriðja og seinasta íbúðin var líka á góðum stað nálægt lestarstöðinni við nokkuð stóra götu en uppi á terrace svo það er ekki hávaði frá umferðinni. Fyrst sýndi leigusalinn mér litla stúdíó íbúð nýupperða og fína en hann var líka með 1 herbergis íbúð við hliðina. Ég skellti mér á hana enda nýuppgert bað, allt hreint og snyrtilegt og vellyktandi, borð og sófi og stórir gluggar til suðurs. Myndir koma seinna.
Í gær lá ég bara í leti til að jafna mig eftir hamaganginn við flutningana, ég var alveg búin á því eftir að hafa borið heila búslóð úr hinum ýmsu búðum neðan úr bæ og heim.

1 comment:

Anonymous said...

Hafa aðalatriðin á hreinu Bína mín. Hvað er langt í næsta pöbb?
Ö