Thursday, May 24, 2007

Ég er að fara til Elgin í Illinois þar sem Mike á heima á morgun og verð hjá honum í 11 daga. Ég er rosalega spennt. Ég er því að hamast við að ganga frá öllu í íbúðinni svo það verði eitthvað pláss fyrir Hjördísi og Nonna sem ætla að vera í henni í júní og júlí. Ég kem aftur til NY 5. júní og fer svo heim til Íslands daginn eftir. Ég stoppa stutt í bænum og fer á Mývatn að grafa í ruslahaugum sunnudaginn 10. júní.
Ég er búin að pakka fyrir Íslandsferðina líka og mér finnst ég vera með furðanlega lítið af dóti með mér miðað við seinasta sumar þegar báðar töskurnar voru alveg smekkfullar.
Annars er komin sól og steikjandi hiti hérna, mér tókst meira að segja að sólbrenna smá um síðustu helgi þegar Áslaug frænka og Mike kærastinn hennar voru hérna í heimsókn. Við fórum í ferð á vatna-taxa og ég ekki með neina sólvörn. Við borðuðum líka á æðislegum veitingastað, kóreskt grill, ég fékk mér strút og maður þurfti að grilla kjötið sjálfur, nammi gott. Við fórum líka á leikritið Frost Nixon sem er byggt á viðtölum sjónvarpsmannsins David Frost við Nixon eftir að hann sagði af sér. Það var bæði mjög fræðandi og fyndið.

Tuesday, May 22, 2007

Sjálfstæðisflokkurinn búinn að auglýsa sína ráðHERRA, ekkert kemur þar á óvart. Þeir gera enn og aftur í buxurnar í jafnréttismálum og þingkonur eru leiðar en finnst þetta samt allt í lagi þannig og skilja þetta ofsalega vel, þær fá að gera annað.
Annars rak ég líka augun í umfjöllun um strætó. Ferðir verða á 30 mín fresti og nýr forstjóri segir sitt helsta markmið vera að laga hallarekstur. Mér finnst liggja beint við að leggja batteríið bara niður, þá er enginn halli lengur. Samgöngur á 30 mín fresti eru ekki mönnum bjóðandi. Hvað með þá sem ekki hafa efni á að eiga bíl eða kjósa að ferðast í strætó til að vernda umhverfið. Þeir verða bara að sitja heima.

Thursday, May 17, 2007

Þar sem ég verð alltaf að gera allt sem Dagný biður mig um því hún er svo ágæt ætla ég að reyna að tjá mig aðeins um nýjustu sviptingarnar í íslenskum stjórnmálum.
Það kemur mér ekki stórkostlega á óvart að stjórnin sé sprungin og ekki heldur að næst á dagskrá sé að reyna að koma Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu saman. Satt að segja þá voru úrslit þessara kosninga hálf ómöguleg hvað varðar stjórnarmyndun.
Kaffibandalagði hefði ekki gengið upp þar sem Frjálslyndir eru bara of lausir í rásinni, ég sé ekki að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir gætu átt gott samstarf, R-lista formið gæti gengið en eins og staða Framsóknar er þá er ekkert víst að þeir sjái sér hag í slíku.
Getur S-S stjórn gengið upp? Ég veit ekki, ég hef gífurlega trú á Ingibjörgu, hún hefur sannað fyrir löngu síðan að hún getur allt. Ég veit samt ekki hvort að Samfylkingunni myndi takast nógu vel að ná sínum málefnum á dagskrá. Ég býð bara spennt eftir að sjá stjórnarsáttmálann. Eitt er þó alveg víst að nú mun örugglega eitthvað almennilegt gerast í jafnréttismálum og það er frábært.
Ég er að fara í lokapróf á morgun og verð að fara að læra.
Annars er það í fréttum að ég pantaði svaka fínar North Face regnbuxur fyrir gröftinn í sumar, Húsasmiðjubuxurnar urðu að einu gati síðasta sumar og nú er að vona að hinar endist betur!

Wednesday, May 16, 2007

Margir (eða amk einhverjir) kunna að hafa undrast á bloggleysi mínu í kjölfar kosninganna. Ég hef mikið hugsað um að tjá mig en hef jafnan fyllst gífurlegu þunglyndi svo lítið hefur orðið úr. Ég verð að segja að niðurstöðurnar koma mér ekki sérlega mikið á óvart en ég er samt sem áður gífurlega hneyksluð. Mér finnst stórfurðulegt að Sjálfstæðismenn hafi bætt við sig þremur mönnum, ég hef verið að gantast með að það sé einn maður fyrir hvern glæpamann sem voru í framboði fyrir þá. Það er kannski svolítið ýkt en mér finnst ótrúlegt að þeir hafi bætt við sig í kjördæmi þar sem Árni J er í 2. sæti, mér er sama þó hann hafi færst niður um lista hann er samt á þingi. Ég veit að hann er búinn að taka út sína refsingu en mér finnst hann samt ekki eiga neitt erindi á þing aftur, hann fékk sitt tækifæri og klúðraði því. Ég hef aldrei verið hrifin af Birni Bjarnasyni en fékk gjörsamlega nóg þegar hann sem dómsmálaráðherra lýsti því hátíðlega yfir að það væri óþarfi að framfylgja jafnréttislögum þar sem þau væru hvort eð er úrelt. Svona segir maður ekki þegar maður er ráðherra. Mér þótti auglýsingin mikla samt sem áður óviðeigandi en vissulega á Jóhannes í Bónus rétt á að tjá sig eins og aðrir. Hver þáttur Björns var í Baugsmálinu var á eftir að koma betur í ljós með tíð og tíma en en eins og er hef ég ekki séð neinar afgerandi sannanir fyrir því að hann hafi beitt sér á ólöglegan hátt. Eftir öll ráðningarklúðrin hans og almennt neikvætt viðhorf til kvenna og hernaðarstefnu finnst mér að hann hefði vel mátt taka hvíld.
Sá þriðji er svo Sigurður Kári sem rétt eftir síðustu kosningar var nappaður við ölvunarakstur og aftur finnst mér bara að maðurinn eigi ekki erindi á þing, hann er ekki jafnréttissinni og það er slæmt fyrir svona ungan mann.
Æi nú er ég alveg komin á bömmer.

Wednesday, May 09, 2007

Ég er aðeins farin að þora að vona að í fyrsta skipti í heila eilífð verði ríkisstjórn án Sjálfsstæðisflokksins. Það er vont að vera hérna úti þegar svona undur og stórmerki eru að gerast heima. Ég er þó búin að gera mitt og kjósa svo nú er bara að bíða og biðja og vona!
Ég var að klára eitt verkefni, er inni að læra í geggjuðu veðri. Það er alveg eins hér og heima alltaf besta veðrið í lok vorannar en aldrei tekst manni að skipuleggja sig nógu vel til að geta notið þess til fullnustu.
Ég er að fara á Arcade Fire tónleika í Radio City Music Hall í kvöld og er skuggalega spennt, ég er búin að hlusta Neon Bible í tætlur enda algjör snilld þar á ferð. Mér þykir nokkuð súrt að fara ekki á Hróarskeldu í sumar það er æðislega mikið af góðum böndum en ég fer bara þegar ég verð fertug í staðinn!

Tuesday, May 08, 2007

Ansi góð grein í New York Times um kvenpersónur í vinsælum sjónvarpsþáttum, ekki endilega góð þróun þar. Þó verð ég að segja að konur eiga yfirleitt betri möguleika á að fá góð hlutverk í sjónvarpsþáttum en í kvikmyndum þar eru þær nánast undantekningalaust til skrauts.

Thursday, May 03, 2007

Dómur um Bjarkar tónleikana sem ég fór á með Ragnheiði Helgu, Völlu og Paolu í Radio City Music Hall. Þeir voru magnaðir, ég vildi að ég hefði keypt miða á alla tónleikana í New York. Stemmningin var æðisleg og alltaf gaman að heyra nýjar útfærslur á lögum af fyrri diskum. Army of me var frábært, það er að mínu mati besta lagið hennar. Í alla staði magnað kvöld.

Tuesday, May 01, 2007

„Stjórnvöld hafa verið frekar andvíg jafnréttisbaráttu en henni þarf að koma á aftur miðað við þessar niðurstöður," sjaldan hafa sannari orð fallið sjá þessa grein!



Ég kom heim frá Austin Texas á laugardagskvöld. Austin er skemmtileg og frekar falleg borg, miklu hreinni en NY og ekki spillti yndislegt veður með glampandi sól og hita fyrir.

Ég er að fara á Bjarkar tónleikana á morgun, gífurlega spennt.

Í Austin kom líka í ljós óvæntur og áður óþekktur hæfileiki hjá mér. Ég er bara nokkuð góð í pílukasti, ég hitti í miðjuna og nokkuð oft í reitinn sem ég var að miða á og ég sem hélt ég yrði aldrei íþróttakona!