Sunday, March 20, 2005

Ég er að fara í fermingu til frænku minnar á eftir. Við mamma eigum í mesta basli með að finna gjöf. Mér datt í hug að gefa henni Veröld Soffíu, hún er uppseld. Bækur Ástu Sigurðardóttur eru ófáanlegar, Kvennaklósettið eftir Marlilyn French líka. Mamma er núna að reyna að fá ritsafn Svövu Jakobsdóttur. Ég efast samt um að það sé til.
Hvað er það með bókaútgefendur og að endurútgefa ekki bækur eftir konur? Besta/versta dæmið er Ásta Sigurðardóttir skáldkona. Smásagnasafnið hennar frá Sunnudagskvöldi til mánudagsmorguns kom bara út einu sinni. Það kemur sjaldan inn á fornbókasölur og ég efast um að það sé mjög auðfáanlegt á bókasöfnum. Samt er þessi bók algjört meistaraverk að mínu mati (og reyndar margra annarra) auk þess sem ævi Ástu var átakanleg. Jón í Nonnabúð bjó til boli með mynd af henni (hún var líka þekkt sem Ásta módel) nú fyrir jól.
Þegar ég hringdi í Mál og menningu til að spyrja um Veröld Soffíu og var tjáð að hún væri ekki til spurði ég um aðrar svipaðar bækur til fermingargjafa. Stelpan þvaðraði um Halldór Laxnes, merkilegt nokk vissi ég að hann væri til en ég á erfitt með að sjá tenginguna milli hans og Veraldar Soffíu (sem er reyndar eftir Josten Gardner sem er karl) eða kvennabókmennta. Kannski er það bara ég.

No comments: