Thursday, November 28, 2002

Ég er alveg æf! Hér á eftir er frétt af mbl.is

Áfengisgjald á sterku víni og tóbaksgjald hækka
Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir að áfengisgjald á sterku víni hækki um 15% og tóbaksgjald um 27,7% en á móti lækkar álagning ÁTVR úr 17% í liðlega 11%. Gert er ráð fyrir að smásöluverð á sterku víni hækki um nálega 10% og verð á tóbaki um 12% að jafnaði. Tekjuauki ríkissjóðs vegna þessara hækkana er talinn nema allt að 1100 milljónum króna á ársgrundvelli og áætluð áhrif á vísitölu neysluverðs eru talin verða innan við 0,3%. Gert er ráð fyrir að hækkunin taki gildi um leið og frumvarpið hefur verið samþykkt. Fyrsta umræða um frumvarpið stendur nú yfir og er jafnvel gert ráð fyrir að það verði afgreitt í kvöld.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að fyrir hækkuninni liggi tvær meginástæður. Í fyrsta lagi hafi álögur á áfengi og tóbak að mestu leyti staðið óbreyttar í krónum talið um langt skeið sem feli í sér lækkun að raungildi. Hækkuninni nú er ætlað að leiðrétta það misgengi. Af ýmsum ástæðum sé þó talið heppilegra að halda áfengisgjaldi léttra vína og bjórs óbreyttu.

Í öðru lagi hafi stjórnvöld gripið til ýmissa ráðstafana að undanförnu sem hafa leitt til aukinna útgjalda, m.a. til málefna aldraðra, sem kalla á sérstök viðbrögð til þess að veikja ekki stöðu ríkissjóðs um of og grafa þannig undan efnahagslegum stöðugleika.

Þetta er nú bara það heimskulegasta sem ég hef á ævi minni heyrt! Á hátíðisdögum tala Sjálfstæðismenn fjálglega um minnkandi ríkisafskipti og rétt einstaklingsins til að ráða sér sjálfur. Svo er það eina sem þeim dettur í hug að gera þegar herða þarf sultarólina að hækka neyslustýrandi skatta eins og áfengis- og tóbaksgjald svo sannarlega eru. Ekki nóg með það að áfengi sé hvergi dýrara en á Íslandi, heldur er það einnig aðeins selt í sérstökum búðum sem ríkið rekur. Bráðum verður ástandið hér eins og í Noregi þar sem bjór er svo dýr að fólk kaupir sér frekar hass. Þess má líka til gamans geta að fjöldi heróínfíkla er hvergi meiri en í Ósló og er það meðal annars rakið til óhóflegs áfengisverðs.
Innan ESB eru um þessar mundir uppi áform um að jafna áfengis- og tóbaksgjöld svo þau verði þau sömu innan allra aðildarríkjanna og mun það væntanlega leiða til lækkunnar gjaldanna. Alltaf þurfum við Íslendingar að vera heimskulega á skjön við restina af hinum viti borna heimi.

No comments: