Friday, December 10, 2004

Jæja þá er kona bara búin með 13 og síðustu ritgerðina/verkefnið sem ég þarf að skila af mér nú fyrir jól. Vei.

Ég er stjörf af þreytu. Eins og fram hefur komið vakti ég til 6.30 í fyrrinótt og vaknaði aftur kl. 9. Ég náði svo að leggja mig aðeins milli 12.30 og 15. Það var gott.

Ég var í mesta Sjálfstæðismannapartýi í heimi áðan með mínum heitt elskaða Stefáni. Um var að ræða útgáfuteiti vegna bókarinnar Kiljans eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Veislan var haldin á heimili hans. Hann á mikið af bókum og nokkur flott málverk. Það eru eins dúllur á hornunum á dyrarömmunum hjá honum og eru í minni íbúð.
Ég var svolítið þreytt í veislunni. Þarna var mikið af frægu og ríku fólki. Björgúlfur eldri frændi minn var flottur í tauinu að venju. Björn Bjarnason og frú voru á svæðinu, Friðrik Sophusson, ungþingmennirnir Sigurður Kári Karlremba og Bjarni Benidiktsson. Fréttakonan Elín Hirst, Styrmir ritstjóri Moggans, Gerður og Þór Whithead sagnfræðingur maðurinn hennar, Jónína Ben, Kjartan baktjalda kall, Anna Agnarsdóttir fyrrverandi forseti heimspekideildar, sonur Davíðs og örugglega fleiri sem ég veit ekki hvað heita og finnst frekar lummó. Stefán segir að ég og Gísli Gunnarsson sagnfræðiprófessor höfum verið einu manneskjurnar þarna sem voru ekki meðlimir í Sjálfstæðisflokknum. Ég var heldur ekkert sérstaklega að finna mig.
Flestir voru í skóm sem kostuðu meira en öll fötin sem ég var í samanlagt. Mér fannst ég óttalega sveitaleg og lummó og fátæk.

No comments: