Monday, March 31, 2003

Jæja þá er enn ein helgin farin í súginn. Ekki það að það hafi verið leiðinlegt en að venju lærði ég ekki neitt.
Þetta var um margt merkileg helgi, fjölskylduhátíð bláu handarinnar fór fram í höll nokkurri í Laugardalnum. Þar voru kveðnar vísur og andrúmsloftið var gott og hugur í öllum athafnastjórnmálamönnum landsins eins og börnin sögðu í sífellu bæði í útvarpi og sjónvarpi. Faðir okkar allra Davíð Oddsson lofaði skattalækkunum. Svo virðist sem allir séu búnir að gleyma því að ekki eru nema örfáir mánuðir síðan ríkisstjórnin hækkaði síðast skatta. Þá var skattur á sterku áfengi hækkaður töluvert til að standa undir umbótum fyrir aldraða. Eftir því man enginn núna.
Davíð viðurkenndi einnig að algjörlega hefði misheppnast að flytja ríkisstofnanir út á land. Svo virðist sem menn hafi bara alls ekki áttað sig á að starfsfólkið þurfti líka að flytja og það getur verið flókið mál fyrir fólk með fjölskyldur.
ESB var einnig mært í hástert en samt er Davíð sannfærður um að hagsmunum okkar sé best borgið utan þess. Ég skil ekki alveg hvernig það virkar.

Thursday, March 27, 2003

Kærustupör
Almennt hef ég ekkert á móti kærustupörum (amk ekki mjög mikið, bara smá). Sumar af mínum bestu vinkonum eru hluti slíks sambands. Við ákveðin tækifæri eru kærustpör þó alveg sérstaklega óþolandi. Það er til dæmis afar óviðeigandi fyrir fólk að vera að kyssast þar sem aðrir eru að reyna að læra. Eða haldast í hendur og segja hvort öðru sætar litlar sögur af lífinu áður en sambandið hófst. Slíkt skal fara fram á heimili annars hvors aðilans, á veitingahúsum, kaffihúsum eða öðrum ástarhreiðrum. Landsbókasafn Íslands, Háskólabókasafn er ekki ástarhreiður. Það væri jafnvel athugandi að hafa skilti við innganginn, kærustupör bönnuð, eða vinsamleg tilmæli um að pör væru aldrei á sömu hæð. Já þetta er þjóðfélagsböl.

Wednesday, March 26, 2003

Ég vil benda öllum þenkjandi einstaklingum á að lesa þessa grein og öðlast nýja sýn á heimsmálin og stríð í Írak.
Greinin er nokkuð löng en afar fræðandi og í raun merkilegt að ekki skuli vera fjallað meira um baráttuna milli evru og dollars og áhrifa tilkomu evrunnar og stækkunnar ESB á stöðu heimsmála.
Ert ÞÚ búin/nn að gera góðverk í dag?

Ég fór og gaf blóð áðan og fékk í staðinn djús, brauð með kæfu og kleinu.
Ég er góð manneskja.

Thursday, March 20, 2003

Ég fór á merkilegan fund í dag. Hann var um málefni Háskóla Íslands, Páll Skúlason stjórnaði umræðum og Tómas Ingi, Jónína Bjartmars, Kolobrún í VG, Margrét í Frjálslyndaflokknum og Ingibjörg Sólrún voru frummælendur. Þær þrjár síðastnefndu stóðu sig afar vel, höfðu greinilega kynnt sér málin og höfðu ýmsar hugmyndir um þróun háskólanáms og áherslur í menntamálum á Íslandi. Lítið fór fyrir Jónínu nema þegar hún sagði að HÍ væri eini háskólinn á Íslandi sem væri samkeppnishæfur á alþjóðamarkaði, dálítið verið að gefa skít í það sem verið er að gera í HR, Bifröst, HA, KÍ og Hvanneyri. Tómas Ingi fór hinsvegar á kostum í að lýsa almennu skeytingarleysi um málefni háskólans og framtíð menntunar í landinu almennt. Honum finnst Íslendingar standa sig frábærlega í menntamálum þó að aðeins 16% landsmanna á bilinu 25-65 ára hafi lokið háskólaprófi. Til samanburðar má nefna að þessi tala er rúmlega 20% í USA og 39% í Finnlandi. Þetta finnst Sjálfstæðismönnum frábært.
Deildarformaður raunvísindadeildar Helgi, afhenti stjórnmálamönnunum áskorun um aukna fjárveitingu og sagði að ef ekkert yrði að gert yrði ekkert kennt í raunvísindadeild. Einnig gagnrýni hann harðlega að framlög til HÍ héldust ekki í hendur við launahækkanir starfsfólks samkvæmt kjarasamningum.
Anna deildarformaður heimspekideildar reifaði áhyggjur um að engir fjármunir væru til til að ráða nýja prófessora í stað þeirra sem létu af störfum vegna aldurs. Sú staða er i mörgum deildum að nýliðun er engin og jafnvel enginn starfandi prófessor þar sem þrír voru áður. Einnig sagði hún að ef ekki fengist 2,5 milljón króna fljótlega yrði ekki hægt að taka inn nýja nema í fornleifafræði næsta haust.
Svona er nú þetta frábæra ástand.

Það voru ekki margir mættir á fundinn og skömm að því hve fáir nemendur sjáu sér fært að mæta. Öflugur háskóli er jú hagsmunamál allrar þjóðarinnar en þó nemenda í skólanum sérstaklega. Einnig er ámælisvert að aðeins 4 fulltrúar úr Stúdentaráði og af Háskólafundi voru mættir. Áhugi þessara kjörnu fulltrúa er greinilega ekki meiri en svo að þeir geta ekki gefið sér tíma til að fylgjast með umræðum um málefni skólans rétt fyrir Alþingiskosningar. Það finnst mér skammarlegt.

Annars er ég að rembast við að velja mér einhver námskeið fyrir næsta vetur og það ætlar að reynast þrautin þyngri, alltof mörg áhugasvið, allt of mörg námskeið, of lítill tími og fáar einingar.

Svo er líka komið stríð jibbí húrra.
Blair hækkaði aldur þeirra hermanna sem mega fara í stríð úr 18 í 19 ár. Ef ég væri hermaður gæti ég verið að fara í stríð, það er ekki fýsileg tilhugsun.

Thursday, March 13, 2003

Ég horfði á hina stórmerkilegu kvikmynd Triple X eða XXX með hinum ágæta Vin Diesel í aðalhlutverki ásmt fjölskyldu minni á þriðjudagskvöldið. Þetta var ágætis afþreying. Í myndinni voru margar gullvægar setningar en sú albesta var á þessa leið. "Stop thinking Prague police and start thinking PlayStation!" Ég hef ákveðið að gera þetta að mínu lífsmottói.

Tuesday, March 11, 2003

Þá er maður barasta búin að fara í eitt stykki próf. Það gekk bara þokkalega að mér fannst enda frekar í léttari kanntinum.
Ekkert er enn farið að skýrast hvort Björk verði á Hróarskeldu og er það slæmt. Ég vil endilega sjá hana spila í útlöndum því ég ímynda mér að það sé töluvert ólík stemming og er á tónleikum hennar hér heima.
Ég þoli ekki fólk sem kyssist á Bókhlöðunni, það er fátt jafn þreytandi og að heyra slurp-hljóð í áköfum kærustupörum þegar maður er að reyna að einbeita sér að lærdómnum.

Krónan barasta hækkar og hækkar. Maður spyr sig hvort þetta taki aldrei enda. Einnig spyr ég mig hvort ekki sé nú kjörið tækifæri fyrir plötubúðir til að lækka verð á geisladiskum, DVD-myndum og töluvleikjum svo um munar þar sem gengið er svo hagstætt fyrir innflytjendur um þessar mundir. Einngi má velta fyrir sér hvort ekki sé komin tími á því að lækka verð á bíómiðum. Já þessum áleitnu spurningum þarf einhver að svara.

Monday, March 10, 2003

Ég fór að sjá Nóa Albínóa á laugardagskvöldið ásamt minni ágætu vinkonu Vöku. Myndin var góð. Ég mæli eindregið með henni en vil eiginlega ekki segja neitt meira til þess að skemma ekkert fyrir neinum ólíkt leiðnlega gagnrýnandanum á Rás 2 sem segir alltaf allt sem gerist í myndunum sem hann er að dæma.
Annars gerði ég fátt merkilegt um helgina. Fékk falskan hér hjá ömmu nöfnu og söng og bakaði fyrir verðlaunaafhendingu í einhverri stærðfræðikeppni á sunnudaginn. Það var ágætt.

Á laugardaginn ætlaði ég reyndar að far út að hjóla. Komst þá að því að gjörðin á afturdekkinu er ónýt. Þá ætlaði ég í sund en þá var búið að loka sundlauginni svo ég endaði á að fara bara í sturtu. Svolítill bömmer þar sem veðrið var með afbriðgum gott.

Thursday, March 06, 2003

Vegna fjölda áskoranna hef ég ákveðið að fá mér þetta MSN sem allir eru að tala um. Mér skilst það sé mikill tímaþjófur og það er ekki ákkúrat það sem mig vantar en ég læt undan þrýstingnum vegna þess að ég er svo æðislega mikil hópsál.
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Ísland sé heimspekiland. Afhverju segirðu það kynni einhver að spyrja. Ástæðurnar eru nokkrar og hver annarri yndislegri. Í fyrsta lagi þá er oft leiðinlegt veður hér, ekki beinlínis vont en svona þreytandi, þessvegna er maður alltaf æðislega glaður þegar sést til sólar og er sæmileg hlýtt eins og í dag. Það kennir okkur að meta það sem gott er og þakklæti bara almennt. Ísland er lítið og þessvegna eru Íslendingar sífellt að berjast við mótsagnakennda minnimáttar-stórmennsku tilfinningu. Ég man ekki meir.

Ég fór út að borða nestið mitt á peysunni áðan. Það var alveg nógu hlýtt ef ég hélt mig í sæmilegu skjóli. Allir horfðu á mig eins og ég væri svaka skrýtin og það er líklega rétt.

Tuesday, March 04, 2003

Hinn illi bróðir Robin Williams reyndist ekki vera mjög illur eftir allt saman. Það átti að vera próf í dag og að venju var ég frekar slælega undir það búin. Það kom svo á daginn að Chuck hafði lent í stæorkostlegum tæknilegum örðugleikum og neyddist til að fresta prófinu um viku og gefa okkur frí næsta fimmdudag. Ég þori varla að segja hvað mér létti ósegjanlega mikið.
Einnig hefur nú komið á daginn að ég mun aðeins fara í eitt vorpróf sem er nógu merkilegt til að það sé í próftöflu. Það verður í Heimspekilegum forspjallsvísindum betur þekkt undir nafninu FÝLAN. Þeir tímar hafa þó reynst vera ágætlega skemmtilegir enda snýst námskeiðið um að fá mann til að hugsa um forsemdur vísinda og þessháttar og það er hverjum manni hollt. Ég hef því ákveðið að allir þeir sem voru búnir að segja mér að það væri ömurlegt og leiðinlegt námskeið séu ekki þenkjandi einstaklingar.

Það má segja að ég hafi fengið óvæntan glaðning í gær. Það var blaðið Myndbönd mánaðarins. Þar gefur að líta kynningar á misgóðum ræmum sem og ómerkilegar upplýsingar um frægt fólk. Þar var mynd af nokkrum heimsfrægum konum sem allar eru undir 158 cm á hæð. Þar má helst nefna Dolly Parton, Christinu Aguilera, átrúnaðargoðið mitt Shakiru, hinar stórgóðu leikkonur Christinu Ricci og Reese Whiterspoon, Lil Kim og einhverjar fleiri sem ég man ekki eftir í svipinn, það er ekki leiðum að líkjast. Ég sé í anda hávaxið fólk gera grín af svona frægum og ríkum konum!

Ég er mjög ánægð með veðrið um þessar mundir, það er svo gott. Það er hressandi að fá svona mikla sól og skammdegið í ár hefur varla staðið undir nafni. Það væri athyglisvert að kanna hvort svona milt tíðarfar hafi ekki jákvæð áhirf á geðheilsu fólksins í landinu.

Ég ætla ekki að fjalla neitt um Davíð Oddsson, Hrein Loftsson, Jón Ásgeir, Baug og meintar mútur. Eitt verð ég þó að segja og það er að mér finnst barnalegt að vera að fara með eitthvað svona í fjölmiðla sem ómögulegt er að sanna eða afsanna. Hvort einhver hafi sagt þetta eða hitt eða heyrt þennan og hinn nefndan. Þetta er eins og sandkassaslagur og hana nú.

Monday, March 03, 2003

Ég er svo spennt yfir að vera að fara á Skriðuklaustur að ég er farin að gera lista um hvað heppilegt væri að hafa með. Allar góðar tillögur eru vel þegnar.
Ég er ein af heimsins pirrandi manneskjum í dag. Afhverju spyr kannski einhver. Það er af því að ég er kvefuð á bókasafni. Hver kannast ekki við að vera að reyna að læra og það er alltaf einhver að hósta, hnerra og sjúga upp í nefið. Það er óþolandi. Þar sem ég er sjúklega kvefuð þá er ég óþolandi. Ég hósta og þarf að snýta mér á 2 sekúndna fresti. Ég fer í taugarnar á sjálfri mér og það er nokkuð slæmt.

Ég fór í skálaferð með Fróða á föstudaginn. Það var gaman. Við gistum í rosa flottu félagsheimili sem heitir Þjórsárver og er í Villingaholtshreppi. Þrátt fyrir að flestir sem þeirra sem voru með í för séu rómaðir drykkjuhrútar þá voru rúmlega tveir kassar eftir af bjór. Fólk var enda ekkert of hresst þegar það vaknaði á laugardagsmorgninum. Sjálf var ég næpuhvít í framan vegna óstjórnlegrar ógleði. Því hef ég ekki lent í áður. Laugardagurinn fór í að vera skemmdur eftir gaman næturinnar á undan og ég var bara heima með mömmu sem var reyndar mjög fínt.

Á sunnudaginn fór ég í saltkjöt og baunir til ömmu og afa. Það var æðislegt. Á eftir fórum við að skoða Vöruhótelið sem er rosa flott. Þetta var mjög smáborgaralegur sunnudagur.

Ég komst að því að bílinn minn er svokallaður heimspekibíll. Það er vegna þess að maður gleðst óstjórnlega í hvert skipti sem hann fer í gang og kemur manni á áfangastað. Já svoleiðis bílar eru góðir fyrir Pollýönuna í manni en kannski verri fyrir budduna...