Jæja þá er enn ein helgin farin í súginn. Ekki það að það hafi verið leiðinlegt en að venju lærði ég ekki neitt.
Þetta var um margt merkileg helgi, fjölskylduhátíð bláu handarinnar fór fram í höll nokkurri í Laugardalnum. Þar voru kveðnar vísur og andrúmsloftið var gott og hugur í öllum athafnastjórnmálamönnum landsins eins og börnin sögðu í sífellu bæði í útvarpi og sjónvarpi. Faðir okkar allra Davíð Oddsson lofaði skattalækkunum. Svo virðist sem allir séu búnir að gleyma því að ekki eru nema örfáir mánuðir síðan ríkisstjórnin hækkaði síðast skatta. Þá var skattur á sterku áfengi hækkaður töluvert til að standa undir umbótum fyrir aldraða. Eftir því man enginn núna.
Davíð viðurkenndi einnig að algjörlega hefði misheppnast að flytja ríkisstofnanir út á land. Svo virðist sem menn hafi bara alls ekki áttað sig á að starfsfólkið þurfti líka að flytja og það getur verið flókið mál fyrir fólk með fjölskyldur.
ESB var einnig mært í hástert en samt er Davíð sannfærður um að hagsmunum okkar sé best borgið utan þess. Ég skil ekki alveg hvernig það virkar.
No comments:
Post a Comment