Ég fór á merkilegan fund í dag. Hann var um málefni Háskóla Íslands, Páll Skúlason stjórnaði umræðum og Tómas Ingi, Jónína Bjartmars, Kolobrún í VG, Margrét í Frjálslyndaflokknum og Ingibjörg Sólrún voru frummælendur. Þær þrjár síðastnefndu stóðu sig afar vel, höfðu greinilega kynnt sér málin og höfðu ýmsar hugmyndir um þróun háskólanáms og áherslur í menntamálum á Íslandi. Lítið fór fyrir Jónínu nema þegar hún sagði að HÍ væri eini háskólinn á Íslandi sem væri samkeppnishæfur á alþjóðamarkaði, dálítið verið að gefa skít í það sem verið er að gera í HR, Bifröst, HA, KÍ og Hvanneyri. Tómas Ingi fór hinsvegar á kostum í að lýsa almennu skeytingarleysi um málefni háskólans og framtíð menntunar í landinu almennt. Honum finnst Íslendingar standa sig frábærlega í menntamálum þó að aðeins 16% landsmanna á bilinu 25-65 ára hafi lokið háskólaprófi. Til samanburðar má nefna að þessi tala er rúmlega 20% í USA og 39% í Finnlandi. Þetta finnst Sjálfstæðismönnum frábært.
Deildarformaður raunvísindadeildar Helgi, afhenti stjórnmálamönnunum áskorun um aukna fjárveitingu og sagði að ef ekkert yrði að gert yrði ekkert kennt í raunvísindadeild. Einnig gagnrýni hann harðlega að framlög til HÍ héldust ekki í hendur við launahækkanir starfsfólks samkvæmt kjarasamningum.
Anna deildarformaður heimspekideildar reifaði áhyggjur um að engir fjármunir væru til til að ráða nýja prófessora í stað þeirra sem létu af störfum vegna aldurs. Sú staða er i mörgum deildum að nýliðun er engin og jafnvel enginn starfandi prófessor þar sem þrír voru áður. Einnig sagði hún að ef ekki fengist 2,5 milljón króna fljótlega yrði ekki hægt að taka inn nýja nema í fornleifafræði næsta haust.
Svona er nú þetta frábæra ástand.
Það voru ekki margir mættir á fundinn og skömm að því hve fáir nemendur sjáu sér fært að mæta. Öflugur háskóli er jú hagsmunamál allrar þjóðarinnar en þó nemenda í skólanum sérstaklega. Einnig er ámælisvert að aðeins 4 fulltrúar úr Stúdentaráði og af Háskólafundi voru mættir. Áhugi þessara kjörnu fulltrúa er greinilega ekki meiri en svo að þeir geta ekki gefið sér tíma til að fylgjast með umræðum um málefni skólans rétt fyrir Alþingiskosningar. Það finnst mér skammarlegt.
Annars er ég að rembast við að velja mér einhver námskeið fyrir næsta vetur og það ætlar að reynast þrautin þyngri, alltof mörg áhugasvið, allt of mörg námskeið, of lítill tími og fáar einingar.
Svo er líka komið stríð jibbí húrra.
Blair hækkaði aldur þeirra hermanna sem mega fara í stríð úr 18 í 19 ár. Ef ég væri hermaður gæti ég verið að fara í stríð, það er ekki fýsileg tilhugsun.
No comments:
Post a Comment