Hinn illi bróðir Robin Williams reyndist ekki vera mjög illur eftir allt saman. Það átti að vera próf í dag og að venju var ég frekar slælega undir það búin. Það kom svo á daginn að Chuck hafði lent í stæorkostlegum tæknilegum örðugleikum og neyddist til að fresta prófinu um viku og gefa okkur frí næsta fimmdudag. Ég þori varla að segja hvað mér létti ósegjanlega mikið.
Einnig hefur nú komið á daginn að ég mun aðeins fara í eitt vorpróf sem er nógu merkilegt til að það sé í próftöflu. Það verður í Heimspekilegum forspjallsvísindum betur þekkt undir nafninu FÝLAN. Þeir tímar hafa þó reynst vera ágætlega skemmtilegir enda snýst námskeiðið um að fá mann til að hugsa um forsemdur vísinda og þessháttar og það er hverjum manni hollt. Ég hef því ákveðið að allir þeir sem voru búnir að segja mér að það væri ömurlegt og leiðinlegt námskeið séu ekki þenkjandi einstaklingar.
Það má segja að ég hafi fengið óvæntan glaðning í gær. Það var blaðið Myndbönd mánaðarins. Þar gefur að líta kynningar á misgóðum ræmum sem og ómerkilegar upplýsingar um frægt fólk. Þar var mynd af nokkrum heimsfrægum konum sem allar eru undir 158 cm á hæð. Þar má helst nefna Dolly Parton, Christinu Aguilera, átrúnaðargoðið mitt Shakiru, hinar stórgóðu leikkonur Christinu Ricci og Reese Whiterspoon, Lil Kim og einhverjar fleiri sem ég man ekki eftir í svipinn, það er ekki leiðum að líkjast. Ég sé í anda hávaxið fólk gera grín af svona frægum og ríkum konum!
Ég er mjög ánægð með veðrið um þessar mundir, það er svo gott. Það er hressandi að fá svona mikla sól og skammdegið í ár hefur varla staðið undir nafni. Það væri athyglisvert að kanna hvort svona milt tíðarfar hafi ekki jákvæð áhirf á geðheilsu fólksins í landinu.
Ég ætla ekki að fjalla neitt um Davíð Oddsson, Hrein Loftsson, Jón Ásgeir, Baug og meintar mútur. Eitt verð ég þó að segja og það er að mér finnst barnalegt að vera að fara með eitthvað svona í fjölmiðla sem ómögulegt er að sanna eða afsanna. Hvort einhver hafi sagt þetta eða hitt eða heyrt þennan og hinn nefndan. Þetta er eins og sandkassaslagur og hana nú.
No comments:
Post a Comment