Sunday, October 16, 2005

Stór skref voru stigin í New York væðingu minni í gær og dag. Ég byrjaði laugardaginn á að fara í Ikea-ferð með Ragnheiði Helgu og vinkonu hennar Margréti. Margir fávísir einstaklingar spyrja sig eflaust hvað sé merkilegt við það að fara í Ikea. Hér fara ókeypis rútur frá miðri Manhattan til Ikea í Elisabeth New Jersey um helgar. Fólk mætir snemma enda röðin í rútuna löng. Við stöllur komumst með fyrstu rútu og eyddum bróðurparti dagsins í hinu sænska himnaríki. Við fengum okkur meira að segja kjötbollur á Ikea Restaurant, afar dannað allt saman. Þegar við vorum svo búnar að komast í gegnum völundarhúsið og finna of mikið af dóti sem við hreinlega urðum að eignast þurfti svo að koma öllu havaríinu heim. Þar sem ég hafði keypt stól, koll, pönnu, nokkra diska og ýmislegt fleira var það hægara sagt en gert. En eins og sannri víkingakonu sæmir kom ég öllu dótinu heim, í subway en ég er reyndar með hressilegar harðsperrur í dag.
Um kvöldið fór ég svo með Eriku niður til NoHo (það er rétt hjá SoHo) þar sem Jeff kærastinn hennar býr ásamt Colin vini sínum. Jeff þjáist af nokkuð undarlegri aðdáun af hinum ódauðu eða uppvakningum (e. Zombies). Það lá því beint við að við myndum spila Zombie spilið sem var æsispennandi og nokkuð í anda Hættuspils. Eftir margra klukkutíma spilamennsku fór ég með sigur af hólmi og því ber ég héðan í frá viðurnefnið, The Zombie Queen.
Þar sem það var orðið mjög áliðið þegar spilamennskunni lauk gistum við Erika bara. Um morguninn fórum við svo út að borða, fengum okkur brunch, enda lítið viðurværi að hafa í íbúðinni hjá strákunum.

No comments: