Í dag hafa orðið mikil tíðindi, ég er komin með fúnksjónerandi rúm og það þykir mér gleðilegt. Loksins stóð Ikea hið illa við sitt og kom með nýtt rúm handa mér. Í ljós kom að nýja og ógallaða rúmið var mjög frábrugðið því gamla gallaða hvað samsetningu varðar þannig að ég hafði rétt fyrir mér, gamla rúmið var gallað.
Jeff kærastinn hennar Eriku var svo vænn að hjálpa mér að setja það saman, sem var ótrúleg fórnfýsi þegar haft er í huga að loftrakinn hér í dag var í kringum 70-85%. Ég svitnaði við að anda sem er afar óskemmtilegt. Minnugir lesendur hugsa kannski til dagsins þegar ég fékk Ikea húsgögnin mín upphaflega, miðvikudaginn 31. ágúst en þá var einmitt líka óbærilega rakt. Það virðist vera eitthvað í gangi milli mín, Ikea, miðvikudaga og loftraka, allar skýringar eru vel þegnar. Nú er sem sagt búið að setja rúmið saman og dýnuna í og allt voðalega fínt. Þá kemur í ljós að herbergið mitt er tómt. Það er svo stórt að nú þegar ég er ekki lengur með "tvö rúm" þá er gasalega tómlegt. Annars hafa námslegar framfarir verið með minnsta móti í dag og er það miður.
No comments:
Post a Comment