Tuesday, September 13, 2005

Ég er nýkomin heim af mögnuðum Sigur Rósar tónleikum í Beacon Theater í New York, það er sko alvöru. Ég fór með Ragnheiði Helgu sem var í X-bekknum í MR og með mér í leikfimibekk í 6. bekk. Hún er að læra tölfræði í Columbia, það er ansi magnað.
Tónleikarnir voru magnaðir, öll umgjörð hin fegursta og tónlistin ólýsanlega áhrifamikil. Amina hitaði upp og var ansi mögnuð, þær stöllur spiluðu meðal annars á vatnsglös og stóra sög og það hljómaði bara vel.
Sigur Rós byrjaði á tveimur lögum af Ágætis byrjun sem mér þótti sérstaklega gaman, þeir tóku svo nokkur lög af () og ef mér skjöplast eigi nokkur af nýútkominni plötu sem ég þarf að eignast hið fyrsta.
Bókin sem ég þarf að lesa fyrir hádegi á morgun er loksins komin þannig að ekki er ég að fara að sofa.
Það gerðist annars margt markvert í dag, það var fyrsti dagurinn minn á rannsóknarstofunni, ég byrjaði bara á að þvo bein sem ég á svo að rembast við að greina á miðvikudaginn.
Þegar ég var að koma heim af tónleikunum sá ég sófa úti á gangstétt rétt hjá húsinu okkar. Við Erika fórum og náðum í hann og bráðum munum við eiga tvo sófa því við erum nýbúnar að panta einn á kmart.com. Það er í raun ansi magnaður Martha Stewart sófi. Það þykir víst mjög NY að hirða drasl af gangstéttunum og í flestum þeim íbúðum sem ég hef komið inn í hér er um 30-60% allra húsgagna fengin þannig og restin af craigslist.com.
Nú ætla ég að fara að læra.
Annars voru Soffía og Einar að biðja mig að passa húsið og aðallega dýrin á meðan þau skreppa á Klakan lok vikunnar og auðvitað sagði ég já því sannast sagna var ég farin að sakna litlu hárboltanna.

No comments: