Monday, December 22, 2008

Eftir að hafa verið að vinna við verslunarstörf núna í desember verð ég að segja að flestir eru kurteisir og skemmtilegir og lítið ber á jólapirringi. Vonandi munu næstu tveir dagar ekki breyta því.

Tuesday, November 25, 2008



Sigurrósar tónleikar og Ásgeir í búning Jedi-riddara úr Star Wars.

Friday, November 14, 2008

Ég vil bara koma því á framfæri að ég þoli alls ekki nýja Killers lagið Human þar sem þetta yndislega textabrot kemur fyrir " Are we human? or are we dancer?". Mér finnst eins og lagið hljóti að vera upprunnið úr helvíti Euro trashins.
Verst er að þetta lag virðist vera í spilun á Rás 2 , X-inu (sem er orðið alveg svakalega lélegt almennt) og Bylgjunni og örugglega líka á FM957 þó ég hlusti ekki á þann ófögnuð.
Annars er ég að fara í leikhús á Vestrið eina í kvöld með ömmu og afa og hlakkar mikið til. Ég hef séð tvö leikrit eftir Martin McDonagh, Fegurðardrottningin frá Línakri sem var stórkostlegt og eitt eftirminnilegasta leikrit sem ég hef séð og svo Halta Billa sem var ekki alveg jafn vel gert en samt skemmtilegt.

Saturday, November 01, 2008

Dómur um Airwaves á Pitchfork
Annars vil ég óska stelpunum okkar til hamingju með árangurinn, bæði kvennalandsliðinu í fótbolta og Gerplu með silfur í hópfimleikum. Það er gott að það er enn eitthvað ég get verið stolt af. Annars er skömm frá því að segja að ég fór á minn fyrsta leik í kvennabolta á miðvikudaginn, ég veit ekki af hverju þetta hafði ekki gerst áður en svona þegar ég fer að hugsa um það hafði ég kannski ekki heldur farið á karlaleik áður svo þetta er svo sem skiljanlegt.
Við Hildur skelltum okkur á RVK-Rotterdam í gær og hverjum hefði dottið í hug að fraktsiglingar væru svona spennandi?

Tuesday, October 14, 2008

Kannski maður ætti bara að verða bóndi. Ótrúlega góð grein í New York Times um bændur, mat og framtíðina.

Saturday, October 11, 2008



Þetta er frá því í fyrra...
Af hverju var ekki búið að gera neitt?

Sunday, September 28, 2008


Ótrúlegt! Ég er hrædd.
 

Ég fór með Eriku og Kim vinkonu hennar á yfirlitssýningu á verkum listakonunnar Louise Bourgeois í Guggenheim safninu á föstudaginn og það var ótrúlega gaman. Hún er 96 ára og er enn virk listakona og hefur haft víðtæk áhrif. Hún málar, teiknar, býr til höggmyndir og fleira alveg ótrúlegur ferill. Alltaf gaman að heyra um svona kjarnakonur.
Posted by Picasa

Tuesday, September 23, 2008

Eftir mikla fyrirhöfn tókst mér að opna pakkninguna með Office sem ég fékk í dag. Það var svona 10000 sinnum erfiðara að opna pakkann en að setja forritið upp. Kannski þarf eitthvað að endurskoða þar.
Hér er ennþá yndislegt haustveður yfir 20°C hiti og fínt.

Sunday, September 21, 2008

Í gær var íslenskur dagur hjá mér. Hann hófst með bláu innflutningspartýi hjá Álfheiði á föstudagskvöldið þar sem heiðursgesturinn var forláta blár leðursófi...
Mjög gaman og mjög blátt.
Á laugardaginn var svo pulsugrill hjá Íslendingafélaginu í Prospect Park sem var yndislegt enda veðrið gott. Við Ragnheiður Helga fórum svo í smá verslunarleiðangur í Soho og fórum svo á frábæra tónleika með Mugison ásamt Álfheiði. +
Því miður gleymdi ég myndavelinni.

Friday, September 12, 2008

 

Við Varði vorum dugleg í dag, fórum á pósthúsið og svo að versla og Varði keypti þrennar buxur en ég keypti ekki neitt (sem hefur aldrei gerst áður!).
Við höfðum svo tíma til að skjótast aðeins heim áður en við fórum á MoMa. Það var hellirigning og við þurftum aðeins að bíða í röð en það var þess virði. Við kíktum á Dalí sýninguna og skoðuðum allar fastasýningarnar. Við fórum svo og fengum okkur sushi niðri hjá St. Mark's Place og það var gott.
Posted by Picasa

Monday, June 23, 2008



Það er gaman á Íslandi í góðu veðri. Ég er búin að vera dugleg að fara í sund þrátt fyrir að vera illa stödd í sundfatamálum, ég held ég eigi 3 ljótasta sundbol á Íslandi sem betur fer eru bæði mamma og Varði í nýjum sundfötum svo við erum ekki öll eins og sundniðursetningar. Ég er líka strax orðin brún. Sólbrann á 17. júní enda gekk ég nánast frá einum enda borgarinnar til annars. Mér fannst annars lítið til hátíðarhaldanna koma ekki mikið að gera fyrir þá sem eru eldri en tvævetur. Við römbuðum þó inn á ágæta tríó-tónleika í Ráðhúsinu þar sem ung tónlistarfólk spilaði meðal annars verk eftir Jón Leifs. Ég var líka boðin í yndislegt vöfflukaffi hjá Hildi í Faxaskjólinu. Sjá meðfylgjandi myndir.
Í gær fór ég með ömmu og afa í Viðey en eins og fróðir menn vita er ég undan Skúla fógeta í móður-móður ætt svo segja má að Viðey sé mitt ættarsetur. Þar sáum við afi æðarkollu á hreiðri og hún kippti sér ekki upp við það þó við gengjum rétt framhjá henni.

Friday, June 13, 2008

Það er gott að vera komin heim i heiðardalinn eða upp á heiðina hérna í Breiðholtinu. Þegar ég kom heim í kvöld beið auglýsing frá Zídon sól í póstkassanum og að sjálfsögðu var hún bæði á íslensku og pólsku.
Annars er gaman að koma heim í svona gott veður en það var 35°C hiti í New York þegar ég fór þaðan, ansi sveitt.
Ég er búin að fara einu sinni í sund og tvisar í grill og tvisvar í heimsókn til Hjördísar og Nonna í fínu nýju íbúðina þeirra og fékk loksins að sjá litla kút í dag og hann var mjög sætur og þægur.
Ásgeir litli bróðir er orðinn stór en hann var æðislega ánægður með pödduskoðunar settið og kríta-byssuna sem ég gaf honum frá Ameríku.

Monday, May 12, 2008

Sumarið er farið aftur og við Mike erum bæði lasin. Þetta er auðvitað sérlega heppilegur tími til að vera veik því því að í annarlok er alltaf svo lítið að gera.
Annars bjó ég til Royal karamelu-búðing í gærkvöldi handa okkur Mike. Nú fer Mike að vera búin að kynnast öllum hápunktum íslenskrar matargerðarlistar, brauði með bökuðum baunum og Royal búðingi.

Thursday, May 08, 2008

Það er komið sumar, ég er nú búin að vera sokkabuxnalaus í kjól í nokkra daga. Í dag er heitt og afar mollulegt. Ég er orðin spennt að koma heim, í dag er 1 mánuður og 1 dagur í það!

Monday, May 05, 2008

Við höfum verið með gest síðan síðastliðinn þriðjudag, Beth, hún er í doktorsnámi í Bretlandi og er að skoða galla í glerungi í kindum sem mögulega geta sagð okkur eitthvað um umhverfið sem blessaðar kindurnar ólust upp við nokkuð spennandi. Hún kom hingað yfir hafði til að fá kindakjálka og -tennur frá okkur fyrir verkefnið sitt. Við höfðum verið duglegar að skoða okkur um. Við fórum í Broolyn Museum og sáum sýningu Murukami sem er víst einn af kanónum nútímalistar og blandar saman hámenningu og lámenningu af einstöku listfengi. Verkin hans voru skemmtileg og ég hafði aldrei komið í þetta safn áður en það var mjög skemmtilegt og ekki jafn mikið af fólki og í hinum "frægari" söfnum borgarinnar.
Á eftir þetta hittum við Paolu og Ronnie vin hennar á Museum of Modern Art og þar skoðuðum við í snarhasti sýninguna hans Ólafs Elíassonar. Sumt vorum við ekki alveg að fatta en ég hafði gaman af vegg þöktum í lifandi hreindýramosa og foss-stjörnunum, í svartmáluðu herbergi drupu dropar úr loftinu og blikkandi ljós létu þá líta út eins og stjörnur. Eftir þennan langa dag vorum við orðnar nokkuð þreyttar og fórum heim til Paolu og borðuðum tælenskan mat.
Á laugardaginn fórum við svo í siglingu til Liberty Island þar sem Frelsisstyttan er og svo til Ellis Island þar sem tekið var á móti innflytjendum á 19. og 20. öld. Safnið þar var mjög skemmtilegt, ég fann ekki merki um neina Íslendinga þar en nokkur skandinavísk nöfn. Á eftir fengum við okkur pizzu á Grimaldi's Pizza sem er líklega einhver besta pizza í heimi. Mike og Beth ætluðu ekki að vilja bíða í röðinni en ég sannfærði þau og um leið og þau bitu í bökuna voru þau í himnasælu.
Í gær fór ég svo á fyrsta hlutan af almennu skyndihjálparnámskeiði. Ekki seinna vænna þegar maður er alltaf að vinna úti á landi þar sem ekki er alltaf stutt í næsta lækni að geta brugðist rétt við.
Ég er farin að hlakka til að koma heim og fara að grafa í Flatey.

Friday, May 02, 2008

Á miðvikudaginn fórum við Mike út að borða á grænmetisstað sem sérhæfir sig í að búa til gervi-kjöt mat. Ég fékk með þorskkökur (sem voru í raun úr soya) og Mike fékk sér mangó-kjúkling (sem var líka úr soya). Maturinn var mjög góður (og örugglega betri en þorkskökur úr alvöru þorski) en ég skil ekki alveg fólk sem er grænmetisætur en vill samt borða mat sem er plat kjöt. Það var líka hægt að fá gervi svínakótilettur og gervi kjúklingavængi þarna sem voru í laginu alveg eins og alvöru kjúklingavængir, svolítið fyndið.
Eftir þessa ljúffengu lífsreynslu fórum við á óperuna sem ég held ég sé búin að tala um svona 75 sinnum á þessu bloggi. Hún var mjög skemmtileg og þrælfyndin, Kristinn Sigmundsson reytti af sér brandarana í hlutverki Ósminns sem var geðillur þjónn eiganda kvennabúrsins. Kvenhlutverkin tvö voru líka dásamleg, þær neituðu að láta undan kröfum "eiganda" sinna um ást og allt saman fór þetta vel á endanum. Í heildina litið var þetta allt afar vel og skemmtilega gert og við skemmtum okkur konunglega.

Sunday, April 27, 2008

Í gær fórum við Mike í Target og keyptum teppi. Þetta gæti komið sumum á óvart, ég er ekki beint mikið fyrir teppi (eða gardínur ef út í það er farið) en maðurinn sem býr fyrir neðan okkur getur víst ALDREI sofið fyrir umgangi (og þar á ég við þegar við Mike göngum um íbúðina), sérstaklega er þetta slæmt milli 20.30 og 2 á nóttunni sem okkur þykir sérkennilegt í ljós þess að við erum yfirleitt farin að sofa upp úr miðnætti amk virka daga (gríðarlega spennandi líf!). Allavegana við enduðum á að kaupa kremað rýjateppi fyrir framan sófann og þetta dæmigerða röndótta teppi fyrir svefnherbergisganginn, vonandi verður það nóg en ég efast samt um það. Konan sem bjó í íbúðinni á undan okkur var fjörgömul og íbúðin var víst öll lögð afar þykku teppi, kannski smá munur að fá okkur í staðinn.
Við erum annars að fara aftur í óperuna á miðvikudaginn á Flóttann úr kvennabúrinu eftir Mozart og þar fer Kristinn Sigmundsson með hlutverk Ósmanns, það verður gaman.
Á þriðjudaginn kemur til okkar bresk stúlka sem er að rannsaka eitthvað í sambandi við kindatennur og verður í viku. Eftir það ætti ég vonandi að skilja vel hvað það er sem hún er að gera því hún mun halda fyrirlestur fyrir okkur öll á rannsóknarstofunni. Hún verður hjá okkur til 7. maí. Áslaug frænka ætlar svo að koma í heimsókn 15. maí svo það er nóg að gera.

Mamma og Baldvin voru náttúrulega í heimsókn hérna um daginn og við gerðum ýmislegt skemmtilegt, fórum upp í Empire State building (sem ég gerði seinast þegar ég var 5 ára) biðin var afar löng og mikið verið að reyna að pranga allskyns varningi inn á mann og ég var orðinn þokkalega pirruð en þegar við loksins komumst upp þá var útsýnið alveg þess virði. Við borðuðum líka á besta steikhúsi í New York ótrúlega góða porterhouse steik og löbbuðum um Central park í góðu veðri.

Sunday, April 20, 2008

Við Mike erum komin heim eftir að hafa farið til Elgin um helgina. Mamma hans og pabbi héldu partý og ég hitti alla fjölskylduna og það var æðislega gaman. Við spiluðum badminton og hentum baunapokum (ég er ótrúlega léleg í þeim leik).
Flugið heim gekk ágætlega en var að sjálfsögðu á eftir áætlun. Við fórum líka í garðinn í Elgin og sáum dádýr og vísunda sem voru æðislega flottir.
Við fórum líka á tvo hafnarboltaleiki þar sem bróðir Mike var að spila. Þeir unnu fyrri leikinn en töpuðu þeim fyrri allsvakalega.
Veðrið var mikið betra en það hafði spáð og í dag var heitt og glampandi sól.

Thursday, April 10, 2008

Í dag er mjög heitt hérna í Nýju Jórvík. Í morgun þegar við Mike vorum að labba í neðanjarðarlestina sáum við kardinála fugl, hann var eldrauður og mjög fallegur. Vorið er aðeins farið að koma hér, tré farin að blómstra og svona.
Í tilefni þess að mamma er að koma í heimsókn í viku verður samt kulsalegt og rigning um helgina og í byrjun næstu viku.
Áætlanir sumarsins eru orðnar nokkuð skýrar, ég kem heim til Íslands 9. júní, verð í Flatey að grafa 16.-30. júní. Fer svo beint í Unst uppgröftinn á Hjaltlandseyjum 1. til 21. júlí. Kem þá aftur til Íslands og Mike kemur vonandi í heimsókn í byrjun ágúst. Ég fer svo út til New York aftur 13. ágúst.

Thursday, April 03, 2008

Ég er komin heim frá ráðstefnu Félags um bandaríska fornleifafræði (Society for American Archaeology). Þar vorum við með "session" og ég hélt fyrirlestur, það gekk allt saman mjög vel. Ráðstefnan var í Vancouver sem virðist vera mjög skemmtileg borg þó að ég hefði ekki mikinn tíma til að skoða mig um og veðrið var líka með verra móti. Þegar létti aðeins til var fjallasýnin þó sérlega fögur og minnti örlítið á Ísalandið.
Það var líka sérlega fallegt mannfræðisafn með tótemsúlum og evrópsku keramiki sem mér þótti skemmtilegt. Skemmtilegast var þó að hitta Margréti og Auði skólafélaga mína úr fornleifafræðinni í HÍ.
Hótelið sem við vorum á var í kínahverfinu í Vancouver og við borðuðum á sama kínverska veitingastaðnum tvö kvöld í röð því maturinn var rosalega góður. Við fengum heilann risastóran krabba og ljúffengar rækjur og fleira.
Ég gleymdi alltaf að blogga um páskana hjá okkur Mike, við fórumn á Dim sum stað í Chinatown hér í New York með Quin, Ashley og fleirum. Þar prófuðum við andalappir sem voru mjög góðir og ýmislegt fleira.
Um helgina er ég að fara á CPR eða hjartahnoðsnámskeið til að undirbúa mig fyrir skyndihjálparnámskeið sem ég er að fara á í maí. Það er nauðsynlegt að vera við öllu búinn þegar maður er alltaf að vinna fjarri mannabyggðum og læknisaðstoð.

Friday, March 14, 2008

Mér finnst páskarnir vera óþægilega snemma í ár. Ég mun ekki geta fengið íslenskt páskaegg fyrren seint og um síðir því enginn kemur að heimsækja mig um páskana eins og verið hefur hingað til. Mamma og Baldvin munu þurfa að koma með það um miðjan apríl. Ég verð að segja að ég er ekkert hrifin af svona lauslætis-hátíðum sem aldrei eru tvisvar sama daginn.

Thursday, March 13, 2008

Það er smá viðtal við mig um uppgröftinn í Flatey í Bændablaðinu á bls. 2.
Sumarið er aðeins farið að skírast hjá mér, ég kem líklega heim í kringum 9. júní, fer út í Flatey að grafa 16.-30. júní og fer strax eftir það til Unst á Hjaltlandseyjum í uppgröft. Þaðan kem ég væntanlega 21. júlí og fer svo aftur til NY í kringum 12. ágúst því ég þarf að mæta í brúðkaup hjá Eriku 16. ágúst í Texas og vera brúðarmey. Því miður verður stoppið á klakanum því ekki langt þetta sumarið...

Tuesday, March 11, 2008

Í gær fór ég á fyrirlestur Colin Renfrew hjá NYU. Hann fjallaði um listaheiminn og þjófnað á munum úr fornleifauppgröftum sem síðan eru seldir dýru verði til safnara og listasafna eins og the Metropolitan Museum of New York. Þar eru menn svo klárir (eða þannig)að kaupa aðeins gripi sem hægt er að sanna að hafi komið fram fyrir 10 árum eða meira! Nokkur önnur söfn hafa tekið upp þá reglu að kaupa aðeins muni sem komið höfðu fram fyrir samþykkt UNESCO 1970. Metropoplitan safnið er líka alltaf að þurfa að skila hlutum sem komið hefur í ljós að hefur verið stolið frá löndum eins og Ítalíu og Tyrklandi í ólöglegum uppgröftum sem hafa þann eina tilgang að finna listmuni til að selja og eiga ekkert skilt við fornleifafræði, ekki gott mál.
Eftir fyrirlesturinn fórum við Mike svo á tónleika í Bowery Ballroom með Quintron and Miss Pussycat sem voru snilld, þau voru með brúðuleikhús en aðal númerið voru The Black Lips sem við sáum líka í haust. Í alla staði skemmtilegur dagur.
Á laugardaginn fórum við Mike í Ikea og keyptum æðislegan svefnsófa. Við fáum hann þó ekki fyrren 22. mars, við erum spennt.

Wednesday, March 05, 2008

Eins og fram hafði komið fór ég með Eriku og Karyssu systur hennar í Brúða-hlaupið eldsnemma á fötudagsmorgun. Þegar við komum inn í búðina rúmlega 8 voru engir kjólar lengur á slánum heldur þurfti ég að fara og semja við aðra aðstoðarmenn um að láta mig fá kjóla þó að ég hefði engan til að láta í skiptum. Það tókst og ég held að Erika hafði á endanum mátað 30 mismunadi kjóla. Við vorum stöðugt að semja við aðra um skipti á kjólum en á endanum voru tveir kjólar sem við vorum hrifnastar af. Erika valdi hvítan kjól með miklu skrauti á efri hlutanum og á slóðanum sem fór henni mjög vel og var glæsilegur.
Við Ragnheiður fórum á Mýrina, eða Jar City, eins og hún kallast á enskri tungu á mánudaginn, myndin var bara sýnd hér í borg í 5 daga eða svo. Við höfðum hvorguar séð hana áður og skemmtum okkur konunglega. Það voru svona 10 aðrir í salnum sem okkur fannst nokkuð gott. Einum áhorfandanum fannst aðfarir Erlendar við sviðaát heldur ófagrar og greip andann nokkrum sinnum á lofti yfir því atriði. Það fannst okkur Ragnheiði afar fyndið. Annars held ég að fyndnasta atriðið í myndinni hafi verið þegar Siguðrur Óli var á stakeouti í Sandgerði, ég gat ekki haldið niðri í mér hlátrinum þá.
Mér fannst myndin mjög góð en veit ekki alveg hvort Ingvar E. hafi verið rétti maðurinn til að leika Erlend, kannski aðeins of mikill sjarmör þar á ferð til að vera sannfærandi.

Thursday, February 28, 2008



Ég drattaðist loksins til að setja inn nokkrar myndir frá Barbuda, því miður tók ég engar þar sem myndavélinni minni var að öllum líkindum stolið við öryggisleit í Minneapolis og hefur ekki skilað sér síðan.
Í dag er annars -8°C frost og ég er lítið spennt fyrir að fara út í kuldann. Á morgun er ég líklega að fara með Eriku og systur hennar að slást um brúðarkjóla fyrir hana, gamnið byrjar kl. 8 að morgni. Við sjáum hvernig það fer!

Saturday, February 23, 2008

Það snjóaði hjá okkur á aðfaranótt föstudags, að ég held í annað skipti í vetur sem snjó festir. Það hlánaði reyndar aðeins í dag en það er samt ennþá snjór á milli bíla og svona.
Við Mike fórum á myndina Juno um daginn og hún var snilld mæli tvímælalaust með henni.
Sumarið er ekki ennþá komið á hreint hjá mér en það gerist vonandi í næstu viku.

Monday, February 18, 2008

Í dag er 17°C hiti, reyndar skýjað en samt ansi ágætt. Ég labbaði í leikfimi á stuttermabol. Vinur Mike er í New York og ætlar að gista hjá okkur í kvöld. Það er mikið að gera hjá mér í skólanum en allt skemmtilegt svo það er fínt.

Wednesday, February 13, 2008

Við Mike fórum í óperuna á mánudaginn, það var æðislega gaman. Við sáum Óþelló og Renée Flemming fór með hlutverk Desdemónu og var stórkostleg og Kristinn Sigmundsson fór með hlutverk Lodovico, sendiherrans frá Feneyjum og var líka mjög góður þó hlutverkið væri ekki stórt.
Það var smá vetrarveður hjá okkur undanfarna 3 daga en núna er komin rigning og fallegi snjórinn frá í gær er allur horfinn.

Friday, February 08, 2008

Gvöð það er svo mikið að gera hjá mér.
Annars er allt gott að frétt af mér, ég komst heilu og höldnu heim frá Barbdua sem var stórkostleg. Ég náði smá lit sem er nú óðum að hverfa í þurru innilofti. Minjarnar sem við vorum að grafa upp voru æðislegar, frá Saladoid tímabilinu ca. 200-500 AD, fullt af flottu kermiki, skarti úr skel og stein verfærum. Við vorum að grafa upp ruslahaug á strönd sem sjórinn er óðum að brjóta í burtu en sem betur fer komumst við að því að minjarnar teigðu sig miklu lengra inn í land en áður var talið.
Það er fullt að gera í skólanum hjá mér, fullt af beinum að greina, skýrslur sem þarf að klára, greinar sem þarf að skrifa, umsóknir sem þarf að senda inn.
Við Mike fórum á tónleika í The American Museum of Natural History 25. janúar, hann vann miðana, þar komu fram hip hopparar frá Chicago svo sem Kid Sister og svo kom sjálfur Kanye West óvænt fram, það var ansi magnað.
Á mánudaginn erum við svo að fara að sjá Óþelló í Metropolitan óperunni, ég er mjög spennt.
Við fórum líka á þorrablót Íslendingafélagsins laugardaginn 26. janúar og það var mjög gaman. Mike borðaði flestan þorramatinn og var sérstaklega hrifinn af síldinni og hangikjötinu. Það var sungið og dansað við öll bestu Júróvisíjón-lög síðustu áratuga, má þar helst nefna Nínu.
Ég kippti líka heimildarmyndinni um Jón Pál með mér þegar ég var að hangsa í fríhöfninni í Keflavík og við horfðum á hana. Mike er því orðinn ansi vel sjóaður í dægurmenningu áttunda áratugarins. Hann er líka búinn að læra eitt íslenskt orð, handakriki, spurning hversu gagnlegt það er.

Sunday, January 06, 2008

Eg er vid goda heilsu a Barbuda buin ad fara tvisvar a strondina og sja pelikana, skjaldboku, edlur og fleira a morgun byrjum vid ad grafa spenno.