Eins og áður sagði skellti ég mér á tónfund í gær. Ég ætlaði að sjá Hildi vinkonu mína sem ég er búin að þekkja síðan hún fæddist tæpu hálfu ári á eftir mér spila á píanó. Það hljóp aldeilis á snæri hjá mér því að ég þekkti nánast alla sem voru að spila á tónfundinum, Heiða Njóla, Alexandra, Ingileyf og Kolbeinn Tumi voru öll að koma fram. Þau stóðu sig öll með ágætum.
Ég lofaði Alexöndru víst að koma með gagnrýni og hér kemur hún.
Heiða Njóla spilaði mjög skemmtilegt verk eftir Haydin á afar fallegan hátt. Spilamennska hennar var þrungin tjáningu og greinilega kom fram að hún hefur stundað píanónámið af kappi.
Næst á svið var Hildur. Hún spilaði heillandi verk eftir Grieg, Horfnir dagar. Blæbrigðarík spilamennska hennar og ástríða fyrir verkinu skilaði sér sérlega vel.
Þá spilaði Alexandra óvenju skemmtilegt verk, Rodeo við undirleik Heiðu Njólu. Ég hef mjög sjaldan heyrt svona verk leikin á fiðlu og aldrei nema í útvarpi eða þessháttar. Bæði Alexöndru og Heiðu tókst vel að túlka groddalega og glettnislegt inntak verksins og sérlega skemmtilegt var að sjá hvernig Alex glotti þegar músíkin var fjörugust.
Ingileif er ung að árum en afar góður píanisti. Hún er með mér (og fleirum) í MR kórnum og mun leika undir á jólatónleikunum í ballöðunni Ó, helga nótt. Hún lék skemmtilegt verk eftir Mozart og gerði það fallega og af tilfinningu þó að henni hafi örlítið fatast í byrjun.
Seinastur var svo Kolbeinn Tumi og lék hann verk eftir Rachmaninoff (ekki alveg örugg á stafstningunni). Mig minnir að ég hafi heyrt hann spila þetta verk áður en þó er ég ekki viss hvar það ætti að hafa verið. Líklega á einhverjum MR-tónleikum. Tumi spilaði þetta áhirfamikla verk á áhrifamikinn hátt og rak glæsilegan endahnút á skemmtilegan tónfund þar sem mér veittist sú óvænta ánægja að hlusta á skólasystkini mín úr Menntaskólanum spila.
Þess ber að geta að nokkrir aðrir hljóðfæraleikarar léku á tónfundinum og stóðu sig ágætlega.
No comments:
Post a Comment