Jæja ég er búin að skila uppkasti að einni ritgerð í viðbót og nú er bara ein eftir, verst að það er erfiðasta ritgerðin.
Ég var að blaða í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi áðan og rakst þá á skammstöfunina W.C.
Skýringin var water closet. Það þykir mér skrítið, ég hélt alltaf að þetta tengdist eitthvað salernum en svo virðist ekki vera. Svona er nú heimurinn skrítinn.
Ég sá Betu rokk áðan hérna á Bókhlöðunni. Ég gleymdi veskinu mínu heima af því að það var í vasanum á kápunni minni og ég nennti ekki að fara í kápunni af því að það var ekki kalt úti. Ég get þessvegna ekki keypt mér neinn snæðing og bölva því nú í sand og ösku að ég skuli ekki hafa nennt að grípa svo sem eins og tvær mandarínur með mér í nesti. Það leggst alltaf allt á eitt í þessu lífi.
Ég missti út út mér í gærkveldi þegar bróðir minn spurði mig hvað blogg væri að ég bloggaði. Það er ég ekki viss um að hafi verið sniðugt. Hann vildi endilega fá að vita veffangið á blogginu mínu en að sjálfsögðu neitaði ég að gefa það upp enda núbúin að horfa á hinn stórgóða þátt Alias. Þá sagðist hann bara ætla að leita það því á leit.is og ég bölvaði sjálfri mér fyrir að hafa asnast til að skrá bloggið mitt þar. Vonandi á leit.is eftir að hrynja.
Ég pantaði mér tíma í klippingu í gær. Þar sem fjárráð mín eru afar takmörkuð mun þetta þýða að fjölskylda mín fær engar jólagjafir þetta árið. Ég er að hugsa um að gefa þeim svona inneignarnótu um að þau megi bjóða mér í bíó, leikhús, út að borða eða eitthvað annað svoleiðis skemmtilegt. Ég er samt ekki viss um að það fái neitt mjög góðar undirtektir. Auk þess er ég þegar búin að gefa bróður mínum einhverja Tae Kwon Do bók og það er kannski ósanngjarnt að hann fái einn gjöf.
Ég er búin að velta mikið fyrir mér hvort ég eigi að nenna að senda jólakort þetta árið. Venjulega sendi ég svona 20 en fæ svona 5 til baka. Reyndar reikna ég aldrei með að fá kort frá þeim strákum sem ég sendi enda vita allir að strákar nenna aldrei að gera neitt.
No comments:
Post a Comment