Friday, April 04, 2003

Nú er birt nú skoðanakönnun á hverjum degi nánast. Fygli flokkana sveiflast mikið. Í raun er ómögulegt að spá um útkomu kosninganna. Þó virðist sem Sjálfstæðisflokkur muni tapa nokkrum þingsætum en Samfylkinginn fær fleiri en í kosningunum 1999. Um fylgi smáflokkanna er erfiðara að spá, um þessar mundir vinna Frjálslyndir á en um daginn voru það Vinstri-grænir. Líklega mun fylgi þessarra tveggja flokka og Framsóknar ráða úrslitum um möguleika á myndun nýrrar ríkisstjórnar. Bæði Framsókn og VG hafa lýst því yfir að þeir vilji ekki vera í ríkisstjórn nema þeir fái meira en 10% fylgi. Það þykir mér skrítin pólitík. Það þýðir ekki að fara í fýlu þó maður vinni ekki.
Hvað sem öllu líður er ljóst að spennan mun fara vaxandi næsta mánuðinn...

Thursday, April 03, 2003

Jæja BBC World Service loksins komin aftur í loftið á FM 90.9. Það er svo fínt að hlusta á það í bílnum á leiðinni í skólann.
Eitthvað virðist ganga betur hjá Bandamönnum núna, bombað á Baghdad á fullu og Tyrkland búið að opna fyrir herflutninga. Mikið fannst mér kómískt þegar þeir þurftu að hætt framrásinni af því að hersveitirnar voru orðnar matar- og bensínlitlar. Svo eiga hershöfðingjar úr þessum sama her að fara að stjórna heilu landi með 20 milljón íbúum eftir stríðið en þeir geta ekki einu sinni skipulagt sig það vel að hermennirni hafi nóg mat. Afar sannfærandi.

Monday, March 31, 2003

Jæja þá er enn ein helgin farin í súginn. Ekki það að það hafi verið leiðinlegt en að venju lærði ég ekki neitt.
Þetta var um margt merkileg helgi, fjölskylduhátíð bláu handarinnar fór fram í höll nokkurri í Laugardalnum. Þar voru kveðnar vísur og andrúmsloftið var gott og hugur í öllum athafnastjórnmálamönnum landsins eins og börnin sögðu í sífellu bæði í útvarpi og sjónvarpi. Faðir okkar allra Davíð Oddsson lofaði skattalækkunum. Svo virðist sem allir séu búnir að gleyma því að ekki eru nema örfáir mánuðir síðan ríkisstjórnin hækkaði síðast skatta. Þá var skattur á sterku áfengi hækkaður töluvert til að standa undir umbótum fyrir aldraða. Eftir því man enginn núna.
Davíð viðurkenndi einnig að algjörlega hefði misheppnast að flytja ríkisstofnanir út á land. Svo virðist sem menn hafi bara alls ekki áttað sig á að starfsfólkið þurfti líka að flytja og það getur verið flókið mál fyrir fólk með fjölskyldur.
ESB var einnig mært í hástert en samt er Davíð sannfærður um að hagsmunum okkar sé best borgið utan þess. Ég skil ekki alveg hvernig það virkar.

Thursday, March 27, 2003

Kærustupör
Almennt hef ég ekkert á móti kærustupörum (amk ekki mjög mikið, bara smá). Sumar af mínum bestu vinkonum eru hluti slíks sambands. Við ákveðin tækifæri eru kærustpör þó alveg sérstaklega óþolandi. Það er til dæmis afar óviðeigandi fyrir fólk að vera að kyssast þar sem aðrir eru að reyna að læra. Eða haldast í hendur og segja hvort öðru sætar litlar sögur af lífinu áður en sambandið hófst. Slíkt skal fara fram á heimili annars hvors aðilans, á veitingahúsum, kaffihúsum eða öðrum ástarhreiðrum. Landsbókasafn Íslands, Háskólabókasafn er ekki ástarhreiður. Það væri jafnvel athugandi að hafa skilti við innganginn, kærustupör bönnuð, eða vinsamleg tilmæli um að pör væru aldrei á sömu hæð. Já þetta er þjóðfélagsböl.

Wednesday, March 26, 2003

Ég vil benda öllum þenkjandi einstaklingum á að lesa þessa grein og öðlast nýja sýn á heimsmálin og stríð í Írak.
Greinin er nokkuð löng en afar fræðandi og í raun merkilegt að ekki skuli vera fjallað meira um baráttuna milli evru og dollars og áhrifa tilkomu evrunnar og stækkunnar ESB á stöðu heimsmála.
Ert ÞÚ búin/nn að gera góðverk í dag?

Ég fór og gaf blóð áðan og fékk í staðinn djús, brauð með kæfu og kleinu.
Ég er góð manneskja.

Thursday, March 20, 2003

Ég fór á merkilegan fund í dag. Hann var um málefni Háskóla Íslands, Páll Skúlason stjórnaði umræðum og Tómas Ingi, Jónína Bjartmars, Kolobrún í VG, Margrét í Frjálslyndaflokknum og Ingibjörg Sólrún voru frummælendur. Þær þrjár síðastnefndu stóðu sig afar vel, höfðu greinilega kynnt sér málin og höfðu ýmsar hugmyndir um þróun háskólanáms og áherslur í menntamálum á Íslandi. Lítið fór fyrir Jónínu nema þegar hún sagði að HÍ væri eini háskólinn á Íslandi sem væri samkeppnishæfur á alþjóðamarkaði, dálítið verið að gefa skít í það sem verið er að gera í HR, Bifröst, HA, KÍ og Hvanneyri. Tómas Ingi fór hinsvegar á kostum í að lýsa almennu skeytingarleysi um málefni háskólans og framtíð menntunar í landinu almennt. Honum finnst Íslendingar standa sig frábærlega í menntamálum þó að aðeins 16% landsmanna á bilinu 25-65 ára hafi lokið háskólaprófi. Til samanburðar má nefna að þessi tala er rúmlega 20% í USA og 39% í Finnlandi. Þetta finnst Sjálfstæðismönnum frábært.
Deildarformaður raunvísindadeildar Helgi, afhenti stjórnmálamönnunum áskorun um aukna fjárveitingu og sagði að ef ekkert yrði að gert yrði ekkert kennt í raunvísindadeild. Einnig gagnrýni hann harðlega að framlög til HÍ héldust ekki í hendur við launahækkanir starfsfólks samkvæmt kjarasamningum.
Anna deildarformaður heimspekideildar reifaði áhyggjur um að engir fjármunir væru til til að ráða nýja prófessora í stað þeirra sem létu af störfum vegna aldurs. Sú staða er i mörgum deildum að nýliðun er engin og jafnvel enginn starfandi prófessor þar sem þrír voru áður. Einnig sagði hún að ef ekki fengist 2,5 milljón króna fljótlega yrði ekki hægt að taka inn nýja nema í fornleifafræði næsta haust.
Svona er nú þetta frábæra ástand.

Það voru ekki margir mættir á fundinn og skömm að því hve fáir nemendur sjáu sér fært að mæta. Öflugur háskóli er jú hagsmunamál allrar þjóðarinnar en þó nemenda í skólanum sérstaklega. Einnig er ámælisvert að aðeins 4 fulltrúar úr Stúdentaráði og af Háskólafundi voru mættir. Áhugi þessara kjörnu fulltrúa er greinilega ekki meiri en svo að þeir geta ekki gefið sér tíma til að fylgjast með umræðum um málefni skólans rétt fyrir Alþingiskosningar. Það finnst mér skammarlegt.

Annars er ég að rembast við að velja mér einhver námskeið fyrir næsta vetur og það ætlar að reynast þrautin þyngri, alltof mörg áhugasvið, allt of mörg námskeið, of lítill tími og fáar einingar.

Svo er líka komið stríð jibbí húrra.
Blair hækkaði aldur þeirra hermanna sem mega fara í stríð úr 18 í 19 ár. Ef ég væri hermaður gæti ég verið að fara í stríð, það er ekki fýsileg tilhugsun.

Thursday, March 13, 2003

Ég horfði á hina stórmerkilegu kvikmynd Triple X eða XXX með hinum ágæta Vin Diesel í aðalhlutverki ásmt fjölskyldu minni á þriðjudagskvöldið. Þetta var ágætis afþreying. Í myndinni voru margar gullvægar setningar en sú albesta var á þessa leið. "Stop thinking Prague police and start thinking PlayStation!" Ég hef ákveðið að gera þetta að mínu lífsmottói.

Tuesday, March 11, 2003

Þá er maður barasta búin að fara í eitt stykki próf. Það gekk bara þokkalega að mér fannst enda frekar í léttari kanntinum.
Ekkert er enn farið að skýrast hvort Björk verði á Hróarskeldu og er það slæmt. Ég vil endilega sjá hana spila í útlöndum því ég ímynda mér að það sé töluvert ólík stemming og er á tónleikum hennar hér heima.
Ég þoli ekki fólk sem kyssist á Bókhlöðunni, það er fátt jafn þreytandi og að heyra slurp-hljóð í áköfum kærustupörum þegar maður er að reyna að einbeita sér að lærdómnum.

Krónan barasta hækkar og hækkar. Maður spyr sig hvort þetta taki aldrei enda. Einnig spyr ég mig hvort ekki sé nú kjörið tækifæri fyrir plötubúðir til að lækka verð á geisladiskum, DVD-myndum og töluvleikjum svo um munar þar sem gengið er svo hagstætt fyrir innflytjendur um þessar mundir. Einngi má velta fyrir sér hvort ekki sé komin tími á því að lækka verð á bíómiðum. Já þessum áleitnu spurningum þarf einhver að svara.

Monday, March 10, 2003

Ég fór að sjá Nóa Albínóa á laugardagskvöldið ásamt minni ágætu vinkonu Vöku. Myndin var góð. Ég mæli eindregið með henni en vil eiginlega ekki segja neitt meira til þess að skemma ekkert fyrir neinum ólíkt leiðnlega gagnrýnandanum á Rás 2 sem segir alltaf allt sem gerist í myndunum sem hann er að dæma.
Annars gerði ég fátt merkilegt um helgina. Fékk falskan hér hjá ömmu nöfnu og söng og bakaði fyrir verðlaunaafhendingu í einhverri stærðfræðikeppni á sunnudaginn. Það var ágætt.

Á laugardaginn ætlaði ég reyndar að far út að hjóla. Komst þá að því að gjörðin á afturdekkinu er ónýt. Þá ætlaði ég í sund en þá var búið að loka sundlauginni svo ég endaði á að fara bara í sturtu. Svolítill bömmer þar sem veðrið var með afbriðgum gott.

Thursday, March 06, 2003

Vegna fjölda áskoranna hef ég ákveðið að fá mér þetta MSN sem allir eru að tala um. Mér skilst það sé mikill tímaþjófur og það er ekki ákkúrat það sem mig vantar en ég læt undan þrýstingnum vegna þess að ég er svo æðislega mikil hópsál.
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Ísland sé heimspekiland. Afhverju segirðu það kynni einhver að spyrja. Ástæðurnar eru nokkrar og hver annarri yndislegri. Í fyrsta lagi þá er oft leiðinlegt veður hér, ekki beinlínis vont en svona þreytandi, þessvegna er maður alltaf æðislega glaður þegar sést til sólar og er sæmileg hlýtt eins og í dag. Það kennir okkur að meta það sem gott er og þakklæti bara almennt. Ísland er lítið og þessvegna eru Íslendingar sífellt að berjast við mótsagnakennda minnimáttar-stórmennsku tilfinningu. Ég man ekki meir.

Ég fór út að borða nestið mitt á peysunni áðan. Það var alveg nógu hlýtt ef ég hélt mig í sæmilegu skjóli. Allir horfðu á mig eins og ég væri svaka skrýtin og það er líklega rétt.

Tuesday, March 04, 2003

Hinn illi bróðir Robin Williams reyndist ekki vera mjög illur eftir allt saman. Það átti að vera próf í dag og að venju var ég frekar slælega undir það búin. Það kom svo á daginn að Chuck hafði lent í stæorkostlegum tæknilegum örðugleikum og neyddist til að fresta prófinu um viku og gefa okkur frí næsta fimmdudag. Ég þori varla að segja hvað mér létti ósegjanlega mikið.
Einnig hefur nú komið á daginn að ég mun aðeins fara í eitt vorpróf sem er nógu merkilegt til að það sé í próftöflu. Það verður í Heimspekilegum forspjallsvísindum betur þekkt undir nafninu FÝLAN. Þeir tímar hafa þó reynst vera ágætlega skemmtilegir enda snýst námskeiðið um að fá mann til að hugsa um forsemdur vísinda og þessháttar og það er hverjum manni hollt. Ég hef því ákveðið að allir þeir sem voru búnir að segja mér að það væri ömurlegt og leiðinlegt námskeið séu ekki þenkjandi einstaklingar.

Það má segja að ég hafi fengið óvæntan glaðning í gær. Það var blaðið Myndbönd mánaðarins. Þar gefur að líta kynningar á misgóðum ræmum sem og ómerkilegar upplýsingar um frægt fólk. Þar var mynd af nokkrum heimsfrægum konum sem allar eru undir 158 cm á hæð. Þar má helst nefna Dolly Parton, Christinu Aguilera, átrúnaðargoðið mitt Shakiru, hinar stórgóðu leikkonur Christinu Ricci og Reese Whiterspoon, Lil Kim og einhverjar fleiri sem ég man ekki eftir í svipinn, það er ekki leiðum að líkjast. Ég sé í anda hávaxið fólk gera grín af svona frægum og ríkum konum!

Ég er mjög ánægð með veðrið um þessar mundir, það er svo gott. Það er hressandi að fá svona mikla sól og skammdegið í ár hefur varla staðið undir nafni. Það væri athyglisvert að kanna hvort svona milt tíðarfar hafi ekki jákvæð áhirf á geðheilsu fólksins í landinu.

Ég ætla ekki að fjalla neitt um Davíð Oddsson, Hrein Loftsson, Jón Ásgeir, Baug og meintar mútur. Eitt verð ég þó að segja og það er að mér finnst barnalegt að vera að fara með eitthvað svona í fjölmiðla sem ómögulegt er að sanna eða afsanna. Hvort einhver hafi sagt þetta eða hitt eða heyrt þennan og hinn nefndan. Þetta er eins og sandkassaslagur og hana nú.

Monday, March 03, 2003

Ég er svo spennt yfir að vera að fara á Skriðuklaustur að ég er farin að gera lista um hvað heppilegt væri að hafa með. Allar góðar tillögur eru vel þegnar.
Ég er ein af heimsins pirrandi manneskjum í dag. Afhverju spyr kannski einhver. Það er af því að ég er kvefuð á bókasafni. Hver kannast ekki við að vera að reyna að læra og það er alltaf einhver að hósta, hnerra og sjúga upp í nefið. Það er óþolandi. Þar sem ég er sjúklega kvefuð þá er ég óþolandi. Ég hósta og þarf að snýta mér á 2 sekúndna fresti. Ég fer í taugarnar á sjálfri mér og það er nokkuð slæmt.

Ég fór í skálaferð með Fróða á föstudaginn. Það var gaman. Við gistum í rosa flottu félagsheimili sem heitir Þjórsárver og er í Villingaholtshreppi. Þrátt fyrir að flestir sem þeirra sem voru með í för séu rómaðir drykkjuhrútar þá voru rúmlega tveir kassar eftir af bjór. Fólk var enda ekkert of hresst þegar það vaknaði á laugardagsmorgninum. Sjálf var ég næpuhvít í framan vegna óstjórnlegrar ógleði. Því hef ég ekki lent í áður. Laugardagurinn fór í að vera skemmdur eftir gaman næturinnar á undan og ég var bara heima með mömmu sem var reyndar mjög fínt.

Á sunnudaginn fór ég í saltkjöt og baunir til ömmu og afa. Það var æðislegt. Á eftir fórum við að skoða Vöruhótelið sem er rosa flott. Þetta var mjög smáborgaralegur sunnudagur.

Ég komst að því að bílinn minn er svokallaður heimspekibíll. Það er vegna þess að maður gleðst óstjórnlega í hvert skipti sem hann fer í gang og kemur manni á áfangastað. Já svoleiðis bílar eru góðir fyrir Pollýönuna í manni en kannski verri fyrir budduna...

Thursday, February 27, 2003

Hvað myndi ég gera ef ég fengi 70 milljónir í laun á ári?

Ég hef aðeins verið að velta þessu fyrir mér. Mér finnst líklegt að fólk með svo miklar tekjur vinni frekar mikið og geti því ekki dvalist langdvölum erlendis. Fyrir þennan pening má kaupa tvö stór einbýlishús og jeppa að auki. Það má fara út að borða á hverju kvöldi á Grillinu með alla familíuna. Kaupa dýr heimilistæki, hljómtæki, 30 dýr sjónvörp, Porsche, eyju á Breiðafirði, gott mjólkurbú, ógrynni af rándýrum fötum, fara í klippingu á hverjum degi. Já þetta eru miklir peningar. Ég hugsa að það sé fullt starf að eyða svona upphæðum hér á landi. Auðvitað fer tæpur helmingur í skatta en það er samt góður slatti eftir og fyrir þá peninga má gera ýmislegt. Maður gæti líka keypt trillu og kvóta, 5 sumarbústaði, einkaflugvél, litla snekkju eða heilan stigagang í blokkinni minni.
Fornleifafræðingar eru skrítnir. Ég er að lesa afar leiðinlega námsbók fyrir prófið hjá bróður Robin Williams. Þar er tilvitnin eftir höfund bókarinnar. Hún er mjög innblásin og er svohljóðandi: "The only truth is stratification."
Freyja hin vitra var að segja mér að það væri haloscan sem væri bilað en ekki ég. Það eru góðar fréttir.
Á Kreml.is er grein eftir Eirík Bergman þar sem hann er að segja nákvæmleg það sama um allt þetta Íraksmál og ég sagði 22. janúar 2003. Merkilegt hvað ég er stundum gáfuð.

Annars virðist commenta-kerfið mitt vera dáið en ég skil ekki afhverju þar sem ég hef ekkert verið að fikta í því. Ég veit ekki hvort ég á að reyna að laga það.

Wednesday, February 26, 2003

Ég held ég sé að fara að fá illvíga hálsbólgu. Tímasetningin er slæm vegna anna s.s. prófs og verkefnaskila í næstu viku, auk þess sem mér finnst leiðinlegt að vera veik.

Ég fór í Stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar í kvöld. Það var gaman og fræðandi. Mér finnst þetta sniðug hugmynd hjá þeim, þetta er ágæt aðferð til að örva fólk til gagnrýninnar umræðu og hjálpa leikmönnum að skilja hvernig þetta gengur allt sama fyrir sig.

Ég er heppna Albína um þessar mundir. Ég get bæði farið að vinna á Skriðuklaustri við að grafa og á Hróarskeldu. Nú er bara spurning hvað ég geri fyrripart sumarsins. Bæjarvinnan hljómar ekkert mjög vel auk þess sem ekki er víst að maður fái yfir höfuð vinnu þar þegar atvinnuástandið er svona slæmt.

Ég er uppfull af ýmiskonar pólitískum hugmyndum og vangaveltum eftir að hafa hlýtt á ræður frá Össuri, Jóhönnu og Ingibjörgu. Því meira sem ég hugsa því ljósara verður mér hvað það er margt í okkar samfélagi sem þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Ekki endilega af því að Sjálfstæðisflokkurinn og Davíð Oddsson hafi gert allt vitlaust heldur af því að Ísland og heimurinn allur hafa breyst meira en nokkurn óraði fyrir.
Landbúnaðarkerfið þarf að taka algjörlega í gegn. Ég veit það sjálf þar sem ég hef búið í sveit að margir bændur hafa það ekkert allt of gott. Að hluta til er það vegna óhagkvæmni, menntunarskorts og áhugaleysis. Hin hliðin er hinsvegar sú að það er erfitt fyrir ungt fólk sem vill hefja búskap að gera það nema það fái jarðir frá foreldrum sínum. Á hinn bóginn eru þeir sem neyðast til að taka við jörðum af því að þeim býðst ekkert annað þó að það vildi miklu heldur verða kennari eða bankastjóri en bóndi.
Ég á frænda. Hann er giftur. Bæði hann og hans ektakvinna eru hámenntuð í landbúnaðarfræðum og hafa margra ára starfsreynslu á mjólkurbúum. Þau langar ekkert frekar en að eignast sitt eigið kúabú. Það geta þau hinsvegar ekki því til þess að geta keypt sæmilega stóra jörð með nógum mjólkurkvóta til að tryggja hagkvæmni í rekstri þyrftu þau að eiga lágmark 10 milljónir og helst miklu meira. Góð jörð kostar nefnilega á bilinu 40-70 milljónir með öllu og það er stór biti fyrir ungt fólk að hefja búskap sem ekki á neinar umtalsverðar eignir. Þau geta sem sagt ekki orðið bændur þó þau vildu og hafi mikla menntun. Kannski er þetta stærsti vandi landbúnaðarins.

Svo er það Barnaspítali Hringsins. Ég vil byrja á að taka fram að starf Hringskvenna er ómetanlegt og án þeirra hefði spítalinn aldrei verið byggður og þær eiga þakkir skildar. Ég verð hinsvegar að segja að mér finnst alls ekki eðlilegt að til þess að reistur sé spítali með viðunandi aðstöðu fyrir veik börn og aðstandendur þeirra þurfi góðgerðarsamtök að safna hundruðum milljóna króna og gefa ríkinu svo peningana svo það sinni skyldu sinni. Það er alls ekki eðlilegt.
Ekker frekar en það er eðlilegt að Háskóli Íslands þurfi að reka happdrætti til þess að standa undir viðhaldskostnaði bygginga og nýbyggingum. Þetta eru hlutir sem ríkisvaldið á að sinna að mínu mati.

Skattakerfið er svo annað mál sem þarf að taka ærlega til í. Háir neysluskattar hverskonar á ,,munaðarvarningi'' eins og áfengi, bensíni og þessháttar eru algjör tímaskekkja. Þessar vörur eiga að vera skattlagðar með 24,5% virðisaukaskatti eins og flest annað sem fólk og fyrirtæki kaupa.
Skipting matvara milli vsk flokka er einnig úrelt. Til eru tveir skattflokkar fyrir matvöru 24,5% og 14%. Í 24,5% flokknum eru ,,munaðarvörur'' eins og lýsispillur en venjulegt lýsi er í 14% flokknum. Mér þætti gaman að vita hver ákveður hvað er munaðarvara og hvað ekki. Eru þá foreldrar sem eiga börn sem vilja bara lýsistöflur ýkt óheppnir?
Skattlagning á lágmarkslaunum, örorku- og atvinnuleysisbótum er annað dæmi um fáránlega heimskulega vitleysu. Hvaða lógík býr á bak við það að láta fólk fá peninga í formi örorku- og atvinnuleysisbóta til þess eins að taka hluta þeirra af þeim aftur? Þetta getur varla verið þjóðhagslega hagkvæmt því þetta er svo skelfing heimskulegt.
Mér finnst líka asnalegt að ungt fólk eins og ég sem á dulítið sparifé sem nota má til að mennta sig eða kaupa fyrstu íbúðina þurfi að borga af þeim vöxtum sem maður fær 10% fjármagnstekjuskatt. Ég gæti vel skilið það ef um einhverjar tugmilljónir króna væri að ræða en það er bara svo mikill tvískinnungur í því að röfla um að fólk spari ekki þegar hluti af vöxtum er tekinn í skatta. Það er næstum eins og að refsa fólki fyrir fyrirhyggjusemina.

Það var eitt afar merkilegt í sem kom fram þegar Ingibjörg svaraði spurningu ungrar stúlku um hvort Samfylkingin vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun. Ingibjörg sagði að það væri orðið of seint núna því málið væri komið svo langt. Þjóðaratkvæðagreiðslur þörfnuðust góð undirbúnings og mikillar umræðu og til þeirra væri aðeins hægt að boða með góðum fyrirvara. Það er allt saman satt og rétt hjá henni. Málið er bara að þjóðin er stundum svolítið sein að fatta. Ef spurt hefði verið fyrir tveimur árum hvar á landinu Kárahnjúkar væru hefði varla nokkurt mannsbarn haft hugmynd um það. Samt voru hjólin farin af stað strax þá, þjóðin gerði sér bara ekki grein fyrir því hvað varð að gerast því enginn sagði henni það. Ég er ekki að segja að stjórnvöld hafi leynt áformum sínum síður en svo. Það er nú samt bara einu sinni þannig að það er oft ekki fyrren á síðustu stundu sem fólk áttar sig á umfangi, eðli og áhrifum slíkra framkvæmda.
Það rann eiginlega ekki upp fyrir mér sjálfri fyrren ég sá myndina í sjónvarpinu um daginn með gaurnum sem reif blaðsíðurnar úr Hálendis bókinni sinni. Þegar ég horfði á þáttin hans Ómars síðastliðið sunnudagskvöld þar sem sást mjög vel hve mikið vatn fer undir lónið þá áttaði ég mig á því að núna væri síðasti sénsinn á að koma í veg fyrir þetta eiginlega úr sögunni. Það er búið að leggja of mikið af peningum í dæmið. Þetta þýðir ekki að mér finnist að andstæðingar virkjunnar eigi að gefast upp, alls ekki það er ekki öll von úti en útlitið verður sannarlega svartara með hverjum deginum.
Ég hvet bara alla sem vettlingi geta valdið til að skoða Kárahnjúka og Dimmugljúfur í sumar því líklega verða þau ekki sýnileg mikið lengur...

Verðtryggingin er enn annað mál. Hún er tímaskekkja og hana þarf að afnema eins fljótt og hægt er.

Þeir sem komust þetta langt fá klapp á bakið enda hetjur að nenna að hlusta á þetta þras í mér. Þeir sem hafa áhuga mega hringja, senda emil, commenta eða öskara á mig út á götu ef þeir eru ósammála einhverju sem hér kemur fram.

Tuesday, February 25, 2003

Um helgina verður skálaferð Fróða. Albína kemst ekki með því hún er að fara í miðannar-próf á þriðjudaginn. Miðannarpróf eru asnaleg enda fyrirmyndin amerísk. Það er hinn illi bróðir Robin Williams sem á sök á þessum óheppilegheitum.
Jæja þá er fyrsta atvinnutilboð sumarsins komið í hús. Það hljómar mjög vel að öllu leiti. Vinna við uppgröft í tvo mánuði, ágætis kaup og skemmtilegheit. Gallinn er bara sá að uppgröfturinn á að byrja í sömu viku og Hróarskelda sem ég hafði ætlað á. Nú er stóra spurningin hvort eitthvað sé hægt að hnika hlutunum til, annars gæti farið svo að keldan víki fyrir öðrum verkefnum 3 árið í röð. Jafnvel þegar ég er heppin er ég óheppin. Það er svo gaman að vera ég.

Monday, February 24, 2003

Ég hata netið hérna á Bókhlöðunni það er algjört hræ.

Svo skemmtilega vildi annars til að ég átti erindi á Þjóðdeild Þjóðarbókhlöðunnar í dag. Þar er margt kynlegra kvista og ég er ekki að tala um bækurnar. Þangað má helst ekki fara með töskur svo maður steli ekki bókum.
Þarna eru nokkur borð sem hægt er að sitja við og blaða í hinum ýmsu ritum. Tvo borðanna eru með hálfs meters háum blaðastöflum af ýmiskonar ljósritum og að auki er þar nokkrir kassar með pappírum á gólfinu. Þar stundar einn fastagestanna einhverskonar rannsóknir. Þær virðast ekki vera vel skipulagðar.
Áðan var hér á Bókhlöðunni drengur sem notaði ÁTVR poka fyrir skólatösku. Það var skopleg sjón.
Ég var skelþunn á sunnudagsmorgun þegar ég drattaðist fram úr rúminu. Afleiðngar bollunnar hennar Vöku voru vægast sagt skelfilegar. Margt fréttnæmt geriðst á aðfaranótt sunnudags og fóru tvær ágætar vinkonur mínar ekki einar heim en hér verða engin nöfn nefnd í því samhengi. Á kóræfingu á sunnudaginn bergmálaði skelfilega í höfðinu á mér, það var sárt.
Ég var líka frekar óhress er ég vaknaði í morgun, bollur láta ekki að sér hæða og taka tvo daga í þynnku. Ég verð að reyna að muna það næst.
Ég er búin að vera að vinna verkefni í allan dag. Því er loksins lokið. Þá vill andvétans emillinn ekki senda skjalið. Hjá mér gengur ekkert upp.

Ég fór á bókamarkaðinn í Smáralind og keypti nokkrar ágætar bækur. Það var gaman. Það er ótrúlegt hvað það hefur verið gefið út mikið af rusli á Íslandi.

Thursday, February 20, 2003

Hví get ég ekki andvétast til að ljúka við þetta bévítans verkefni? Ég er búin að eyða þremur dögum í að gera verkefni sem ætti að taka hámark 2 klst að gera en auðvitað get ég ekki gert þetta. Ég hlýt að vera haldin einhverskonar verkefnisklárunarkvíaáfallaröskun. Ég er 100% verkefna öryrki.
Það er eitt sem ég hef verið að velta fyrir mér. Þegar Sjálfstæðismenn ræða um skuldasöfnun borgarinnar á undanförnum árum þá er sjaldan talað um hvað peningarnir hafa farið í. Þeir setja dæmið fram eins og það hafi bara verið tekin ógeðslega mörg stór lán og svo hafi peningarnir bara horfið eða eitthvað. Þeir ætlast þó varla til þess að nokkur heilvita maður trúi því. Ef maður heila áttar maður sig á að málið er alls ekki þannig vaxið. Á undanförnum árum hefur borgin þurft að leggja út í umtalsverðar framkvæmdir meðal annars til að einsetja grunnskólana, byggja upp Orkuveituna og sinna örðum grundvallar þörfum hins ört vaxandi borgarsamfélags. Þetta ræða Sjálfstæðismenn aldrei, á þeim má næstum skilja að peningarnir hafi verið notaðir sem skeinipappír í Ráðhúsinu. Ég er alls ekki sérfræðingur í uppgjörum, ársreikningum og svoleiðis dóti en almenn skynsemi segir mér að ekki sé hægt að ræða um skuldaaukingu og rekstur borgarinnar án þess að ræða í hvað peningunum er varið. Það er ekki það sama að taka lán til að fjármagna daglegan rekstur og að taka lán til uppbyggingar og endurnýjunar. Mér þykir þessi umræða öll vera á villigötum og það væri miklu frjórra að ræða í hvað og hvernig fjármununum er varið. En svona er þetta bara.

Við vorum einmitt að ræða í tíma hvað öll gagnrýni, hvort sem hún er á listamenn, pólitíkusa eða vísindamenn, er almennt neikvæð á Íslandi. Það er sjaldan bent á það sem vel er gert en um leið og umdeild mál koma fram stökkva allir til og rakka fólk niður. Öll umræða hér er á svo persónulegum nótum í stað þess að ræða í raun um hugmyndirnar eða kenningarnar sem verið er að setja fram. Að þessu leiti erum við enn óttalegir smáborgarar.
Ég var á opnum fundi þar sem Anna Lind utanríkisráðherra Svíþjóðar fjallaði um ESB og tengd mál. Fundurinn var haldinn í stofu 101 í Odda og komust færri að en vildu eins og við mátti búast. Fundurinn var mjög athyglisverður og skemmtilegur. Hún hafði margt fram að færa og sagði reynslu Svía af ESB góða. Hún sagði einnig að fyrst hefði hún sjálf verið full efasemda um hvort það væri Svíþjóð fyrir bestu að ganga í ESB. Nú væru allar þær efasemdir horfnar og í ljós hefði komið að rödd Svíþjóðar innan ESB er sterk og áhrifin umtalsverð. Hún lagði einnig áherslu á norræna samvinnu innan sambandisins og mikilvægi þess að Norðurlöndin stæðu saman við að afla sínum hagsmunum fylgis.
Í stuttu máli sagt var þarna á ferðinni óvenju málefnaleg umræða um kosti og galla ESB, áhrif þess og möguleika. Það mætti vera meira þessháttar í gangi hér á landi.

Tuesday, February 18, 2003

Miklar vangaveltur eru uppi í "bekknum" mínum í Umhverfisfornleifafræði. Þannig er mál með vexti að þann áfanga kennir erlendur gestakennari. Hann heitir Chuck (Charles) Williams er líklega um 55 ára gamlall, nokkuð hress og frá Bandaríkjunum. Þykir nokkrum bekkjarfélögum mínum sem hann sé skugglalega líkur hinum heimsfræga Robin Willams. Það er rétt að þeir eru afar líkir í útliti og hafa báðir sama eftirnafn. Ekkert okkar þorir hinsvegar að spyrja hvort þessar getgátur séu á rökum reistar. Vonandi skýrist þetta allt...
Þeir sem kunna að hafa upplýsingar um fjölskyldu Robin Williams og hvort hann á yfir höfuð bræður mega senda mér hugskeyti.
Ég er komin með vinnu sem mannleg ljósritunarvél. Starf mitt mun vera að ljósrita örnefnaskrár á Örnefnastofnun. Það verður vonandi þokkalega skemmtilegt. Það getur a.m.k. ekki verið jafn leiðinlegt og að þurrka af. Auk þess mun ég fá tækifæri til að kynnast sögu örnefnasöfnunar á Íslandi og hún er litrík.

Monday, February 17, 2003

Á föstudaginn fór ég í bíó. Ég fór á kvikmyndina Chicago. Það var ekki skemmtilegt. Myndin var áferðarfalleg, leikkonurnar stóðu sig báðar vel í dans og söngatriðum. Richard Gere var nákvæmlega eins og alltaf. Hann syngur ekki vel. Myndin var ekki beint leiðinleg. Hún var ekki beint langdregin. Hún fjallaði ekki beint um neitt. Mig langaði næstum að labba út aðallega af því að mér var svo nákvæmlega sama um persónurnar og afdirf þeirra. Falleg dans og söngatriði voru bara ekki nóg til að bera uppi slæman og ómerkilegan söguþráð. Já þetta voru nokkur vonbrigði. Fólk hefur verið að bera þessa mynd saman við Moulan Roughe (þetta er rangt skrifað það er leiðinlegt) sá samanburður á bara alls ekki rétt á sér. Þar var á ferðinni mynd sem var frumleg, hröð, hafði söguþráð og spilaði á sjón og heyrn með frábærum og litríkum dansatriðum og nýstárlegum útfærslum á þekktum lögum. Ég geng jafnvel svo langt að segja að þar hafi verið á ferðinni meistaraverk. Í ljósi alls þessa á ég afar erfitt með að skilja þessar milljón tilnefningar sem hin arfa-slaka mynd Chicago fékk og hefðu margir verið betur að þeim komnir. Það er ekki nóg að allir dansi vel ef það er engin spenna.

Á laugardaginn fór ég í leikhús með minni ágætu vinkonu Hildi. Við sáum Rómeó og Júlíu í Borgarleikhúsinu. Það var mögnuð upplifun. Það er dæmi um sýingu þar sem allt gengur upp. Frábær samleikur, nýstárleg útfærsla á klassísku leikriti, spennandi umbúnaður og leikgleði. Undirtektir í salnum voru líka eftir því. Þó að allir viti hvernig leikritið endar tókst að gera endinn í senn áhrifaríkan og fallegan. Ég get því tvímælalaust mælt með þessari sýningu.

Í gær tók ég mig til og las Önnu frá Stóruborg eftir Jón Trausta. Það var ágæt bók. Þó bókmenntalegt gildi sé takmarkað eru persónurnar skemmtilegar, dramatíkin mikil og umbúnaður allur hinn ágætasti. Bókin sjálf var líka flott, upprunalega útgáfan með myndum, bæði svarthvítum og í lit og gömlum, þykkum og möttum pappír sem gaman var að fletta. Það er líka skemmtileg lofgjörð um ágæti íslenska bóndans og þjóðarstoltið og bersyndugar manneskjur í bókinni.
Ég var að lesa stefnuskrá Vöku. Þar tíunda þeir hvað þá langar að gera og hreykja sér af afrekum sínum hingað til. Það er svo sem allt gott og blessað. Athyglisvert þótti mér þó að lesa á bls. 23 í þessu merka riti um bætta nestisaðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni. Þar kemur fram að það er Vökuliðum í Stúdentaráði að "þakka" að nestisaðstaðan var flutt af 4. hæð niður á kaffistofuna. Ég veit ekki hvort þetta fólk borðar nokkurn tíman nesti á Þjóðarbókhlöðunni en einhvernveginn finnst mér það ólíklegt. Eins og flestir sem Hlöðuna stunda vita hefur aðstaðan nefnilega versnað til mikilla muna. Borðum hefur fækkað um eitt og öll er aðstaðan þrengri. Nú er yfirleitt fullt í nestisstofunni en ekki man ég eftir að hafa lent í því þegar hún var á 4. hæð. Þá hefur maður lent í því að biðja starfsfólk kaffistofunar náðarsamlegast um leyfi til að nýta þann mikla fjölda lausra borða sem jafnan er þar. Það er leyft með seimingi. Um daginn þá sat ég ein á borði í kaffistofunni með nestið mitt. Ég var að bíða eftir fólki sem var að kaupa sér mat í kaffistofunni og ætlaði að sitja þeim til samlætis. Auðvitað kom kona að reka mig í burtu og þó að ég reyndi að útskýra ástæðu mína fyrir veru minni á hinum heilögu kaffistofuborðum með mitt aumkunarverða nesti fékk ég skammir. Konan leyfði mér á endanum að sitja við borðið en harðbannaði mér að borða þar nestið mitt. Já af þessu hreykja Vökuliðar sér.

Wednesday, February 12, 2003

Mér var búið að detta fullt sniðugt í hug til að blogga um en það er að sjálfsögðu allt gleymt núna.

Monday, February 10, 2003

Ég hef verið að fletta upp í Íslendingabók að undanförnu líkt og margir samlandar mínir. Ég hef flett upp af handahófi bæði þekktum einstaklingum, vinum, kunningjum og fjandmönnum. Hingað til hafa allir verið skyldir mér í 7.-8. lið nema Skúli nokkur Gestsson sem er þó bara skyldur mér í 6. lið.

Thursday, February 06, 2003

Ég skil ekkert í stúdentapólitíkinni hérna í Háskólanum. Eitt er þó augljóst, auglýsingar Vökur eru stærri, flottari, betri og fleiri en auglýsingar Röskvu. Einnig hefur Vaka verið dugleg að standa fyrir hvers kyns fundum um hin ýmsustu mál sem varða stúdenta og þátttakendur í samfélaginu almennt. Það er gott framtak. Lítið hefur farið fyrir Röskvu að mínu mati og ef fram heldur sem horfið mun hún tapa aftur.
Persónulega hef ég ekki enn tekið neina afstöðu um hvað ég eigi að kjósa, mér finnst satt að segja ekki ólíklegt að ég skili bara auðu því hvorugri fylkingu hefur tekist að vekja áhuga minn á þessu máli öllu saman. Þeir sem hafa á þessu sterkar skoðanir mega vel sannfæra mig.
Í gær þegar ég var að keyra heyrði ég athyglisverða frétt. Það var verið að fjalla um fátæktarumræðuna á Alþingi. Þar kom tvennt mjög athyglisvert fram. Davíð Oddson sagði að það væri vandamál sveitarfélagana en ekki ríkisins ef fólk gæti ekki lifað á bótum. Pétur H. Blöndal fannst einnig nauðsynlegt að segja frá því að á undanförnum dögum hafi nokkrir einstaklingar haft samband við hann til að segja að þeir lifðu góðu lífi af 90 þús. kr á mánuði. Þetta þykir mér ótrúleg afstaða.
Hvernig getur það ekki verið vandamál ríksstjórnarinnar og Alþingis ef fólk getur ekki lifað af tekjum sínum, hvort sem þær eru bætur eða laun. Davíð sagði líka að það hefði engin flokkur það á stefnuskrá sinni að tvöfalda lægstu bætur þó að það væri líklega það sem þyrfti til að fólk gæti lifað á þeim. Hann viðurkenndi sem sagt að það væri ómögulegt að lifa sómasamlegu lífi á nokkrum tug þúsundum króna á mánuði. Það er samt ekki hans vandamál.
Ræða Péturs var jafnvel en athyglisverðari. Hann sagði frá því að aldraður bóndi sem nú væri fluttur á mölina og hefði um 90 þús. kr í tekjur á mánuði lifði góðu lífi og leggði jafnvel fyrir enda hefði hann ekki vanist þeirri eyðslu sem höfuðborgarbúar stunda. Ekki veit ég nákvæmlega hvað hann átti við en með hjálp míns fjöruga ímyndunarafls ætla ég að reyna að giska á hvað það er sem hann á við. Í fyrsta lagi eru það börn, hann býr einn og þar því ekki að kaupa á þau föt, mat, skólagögn og þessháttar, það hlýtur að vera sparnaður upp á einhverja þúsundkalla. Einnig finnst mér líklegt að þessi maður fari ekki í leikhús, kvikmyndahús, út að borða, taki myndbönd á leigu, hann á líklega ekki GSM síma, er ekki áskrifandi að tímaritum, á ekki bíl, kaupir sjaldan föt og litar ekki á sér hárið. Ef maður lifir svona lífi trúi ég vel að hægt sé að lifa ,,góðu lífi'' af 90 þús kr það eina sem hann þarf að kaupa er matur, klósettpappír og greiða fyrir rafmagn, hita og RÚV. Sjálf myndi ég ekki vilja lifa án þess að geta farið í leikhús og notið fjölbreyttra menningarviðburða. Mér finnst líka gaman að fara til útlanda og rölta í bænum. Allt er þetta hluti af lífsgæðum, að hafa möguleikan á að gera eitthvað sér til skemmtunar eða til að auðga andan. Þessi ágæti bóndi á líklega sitt húsnæði og þarf ekki að greiða af því lán og hefur heldur ekki námslán á bakinu. Það er náttúrulega algjör sóun að mennta sig og kaupa húsnæði.
Þetta segir Pétur H. Blöndal. Hann hefur mun meira en 90 þús. kr á mánuði í tekjur. Hann fer líklega í leikhús, kaupir jakkaföt, fer í klippingu reglulega og svona. Fyrir honum er þetta bara ekki eyðsla af því að hann hefur efni á því.
Ræða Davíðs
Ræða Péturs
Ég hef ákveðið að krýna sjálfa mig Misskilnings meistara Íslands

Tuesday, February 04, 2003

Ég ætti núna að vera að gera verkefni. Þetta er svona eitt af þeim verkefnum sem ætti að taka hámark klukkutíma. Samt er ég búin að vera á Bókhlöðunni síðan fyrir kl. 17 í dag. Ekki lætur úrlausnin samt á sér kræla. Það er svo erfitt að byrja.
Ég vil líka nota þetta tækifæri til að mótmæla þeirri arfa slöku hugmynd tölvufyrirtækisins Ofurmjúks að hafa svona litla leiki innifalda í þessu bévaða stýrikerfi sem þeir senda frá sér. Ég er viss um að í Minesweeper felast einhver dulin skilaboð og/eða ávanabindandi efni sem valda fíkn minni í leikinn það er bara engin önnur skýring á því hvað ég er háð honum.
Það verður voða mikið að gera hjá mér næstu vikurnar, mamma á afmæli, Vaka á afmæli, fornleifafræðipartý, saumaklúbbur, óperan og örugglega ýmislegt fleira sem mun koma upp á síðustu stundu. Það er annars ekkert nema gott um það að segja, það er gaman að hafa eitthvað fyrir stafni.

Sá merki atburður gerðist annars um helgina að ég beilaði á djammi (hvað voru mörg slanguryrði í þessari setningu?). Það var lítið teiti hjá Nonna hennar Dísu skvísu á laugardaginn og að sjálfsögðu mætti ég. Með í för var hinn alræmdi Vestmanneyja vodkapeli sem ég hef verið að reyna að klára síðan í ágúst á síðasta ári. Það hefur gengið illa. Er samt hálfnuð með hann núna eftir frábæra frammistöðu í Fróða partýi í janúar. Annars finnst mér vodka skelfilega óviðfelldinn drykkur og er það miður því það er jú upprunnið í Rússlandi sem er jú mitt uppáhalds land. Já snúum okkur aftur að beilinu. Það er nú ekki margt um það að segja annað en að ég nennti ekki niður í bæ þó að klukkan væri ekki orðin nema eitt og ég hafi ekki farið neitt á föstudagskvöldinu. Kann ég engar skýringar á þessum ónytjungshætti mínum nema ef til vill að aldurinn sé farinn að færast yfir...

Tuesday, January 28, 2003

Ég hef vinsamlegast verið beðin að auglýsa tónleika hjá hinnu mætu hljómsveit Diktu sem haldnir verið á Gauki á Stöng miðvikudaginn 29. janúar 2003. Húsið opnar kl. 21:00 og kostar aðeins 500 kr inn. Þetta eru útgáfutónleikar enda gáfu drengirnir út skífu nú fyrir jólin. Þeir sem vilja kynna sér sveitina og þeirra verk geta kíkt á dikta.net

Monday, January 27, 2003

Svo virðist sem Albaunin sé bara alls ekki eins óheppin og talið var. Nú hefur endanlega verið ákveðið að farið verði í umrædda kórferð til London þó að 6. bekkingar komist ekki með. Það er að sjálfsögðu leiðinlegt en svo verður bara að vera.

Annars er það helst í fréttum að það var æðislega gaman hjá mér um helgina. Á fimmtudagskvöldið fór ég að sjá Rjúpurnar spila á Champions í Grafarvogi. Það var mjög gaman og þeir frumfluttu þar fyrsta frumsamda lagið sitt. Það var ágætt og vonandi halda þeir áfram að semja sitt eigið efni.

Á föstudaginn fórum við vinkonurnar svo á Með fullri reisn og það var mjög gaman en sannast sagna fékk ég algjöran óver dós af karlmannsrössum um helgina. Ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt.
Á eftir ætluðum við svo að djamma en Ásta beilaði því hún vildi komast í trimm morguninn eftir. Við kíktum í eitt stykki Versló tvítugsafmæli. Það var sérstök upplifun, við pössuðum MJÖG illa inn í það umhverfi. Svo ákváðum við að kíkja í Fróða-partý í Grafarvogi. Það tók samt um klukkutíma að komast þangað. Fyrst þurfti að kaupa pyslur fyrir liðið þar sem foreldrar okkar höfðu verið að standa sig illa í að elda kvöldmat. Þá þurfti að fara heim til mín að ná smá lífsvatn. Þá þurftum við að villast í Grafarvogi í svolítið langan tíma. Fyrst fundum við ekki Rima-hverfið, þegar það var loksins fundið ætluðum við ekki að finna réttu götuna og þegar hún var fundin var húsið týnt. Þetta hafðist þó allt á endanum og við komumst í partý. Þar voru allir orðnir vel hífaðir og góð stemmning í mannskapnum. Á staðnum var líka svakalegt geisladiskasafn húsráðanda og var tónlistin því til mikillar fyrirmyndar. Í þessu ágæta teiti náði ég með smá hjálp að klára Baliey's flösku sem ég fékk í tvítugsafmælisgjöf. Reynt var að sannfæra mig um að kjósa Vinstri-græna sem tókst reyndar ekki en velti samt upp ákveðnum áleitnum spurningum. Klukkan fjögur var svo haldið heim á leið og einhvernveginn náði ég að skakklappast upp í rúm án þess að vekja alla blokkina.

Á laugardaginn fór ég í heimsókn til ömmu og afa og fékk þar svið og þótti gott. Við mamma skelltum okkur svo í Smáralindina og þar gerði ég alveg gasalega góð kaup á útsölu. Næst var ferðinni heitið til pabba. Þar var kjötsúpa í matinn og Vaka kom og borðaði með okkur. Þar sem Vaka vildi endilega fara niður í bæ þá fórum við heim til hennar og hún skipti um föt. Svo tókum við nokkra Laugara en það var ekkert að gerast í bænum svo við fórum heim til mín svo ég gæti skipt um föt og svo aftur niður í bæ. Við settumst inn á Sólon og fyrr en varði fór að drífa að óvenju mikið af fallegum karlmönnum. Á endanum voru næstum allir keppendurnir í Herra Ísland mættir á staðinn ásamt sigurvegaranum. Að sjálfsögðu settist hann á næsta borð við okkur Vöku. Á endanum þoldum við ekki alla þessa fegurð og fórum í partý til bróður Hjördísar og hans ekta kvinnu á Grundarstígnum. Þar drukku Hjördís og Vaka mikið af Hot'n Sweet og urðu drukknar. Það sem gerðist eftir það er ekki fyrir viðkæmar sálir og verður ekki sagt frekar frá því. Þar sem ég var enn að jafna mig eftir kvöldið áður var ég bara driver sem var fínt þar sem ég fékk að keyra nýja bílinn hennar Vöku sem er algjör skruggu kerra.

Á sunnudaginn tók ég það rólega, horfði á leikinn og safnaði kröftum.

Wednesday, January 22, 2003

Írakshornið
Það er eitt varðandi þetta Íraksmál allt saman sem ég hef mikið verið að velta fyrir mér. Nú eru vopnaeftirlitsmenn þar að leita að gereyðingarvopnum. Ef við segjum sem svo að Írakar eigi alls engin gereyðingarvopn en allir aðrir eru vissir um það og leita og leita en finna aldrei neitt en trúa samt ekki að Írakar eigi ekki slík vopn hvað er þá hægt að gera? Ef við segjum sem svo að Írakar eigi gereyðingarvopn þá eru þeir í mjög vondum málum og hafa bara um tvo kosti að velja og báða mjög slæma. Þeir gætu ákveðið að segja frá því, leyft vopnaeftirlitsmönnum að skoða þau og jafnvel látið þau af hendi. Þá ættu þeir yfir höfði sér að Bandaríkin segðu þeim stríð á hendur, settu enn strangara viðskiptabann, tækju landið herskyldi eða eitthvað í þá áttina. Einnig væru yfirgnæfandi líkur á að enginn myndi trúa að Írakar hefðu sagt frá öllum vopnum sínum og þeir væru aftur á núllpunkti. Hinn kosturinn er að reyna að fela vopnin, vona að vopnaeftirlitsmennirnir finni þau ekki og Bandaríkin hætti við að skjóta landið í tætlur.
Það er í raun alveg sama hvað Írakar gera þeir eiga alltaf eftir að fara illa út úr þessu máli þar sem hin háæruverðugu Bandaríki hafa ákveðið að buffa þá næst.

Vinnuhornið
Ég hef verið að baksa við að skrifa umsóknarbréf undanfarnar vikur. Það er erfitt. Ég veit ekki hvernig ég á að ávarpa viðtakandan, hvað ég á að segja, hvort ég á að vera formleg eða ofur-formleg.
Óheppni Albaunarinnar ætlar engan endi að taka. Nú er svo komið að kórferð til Lundúna í maí er öll í rögli vegna heimskulegra munnlegra stúdentsprófa.
Auk þess var ég að gera verkefni dag sem ég misskildi og gat ekki skilað svo ég þarf að laga það mikið í kveld.
Auk þess er ég í súrri fýlu.

Á föstudaginn ætlum við vinkonurnar, þ.e. Albaunin óheppna, Hjördís Eva, Vaka, Íris og Ásta að fara á Með fullri reisn í Þjóðleikhúsinu. Ég hafði svarið að ég myndi sko ekki fara á svona lágmenningar rusl en þrýstingur frá vinkonum og sú staðreynd að fáklæddir karlmenn koma við sögu olli því að ég þurfti að taka U-beygju og nú er ég bara orðin nokkuð spennt.

Seinasta laugardag fór ég líka í leikhús og einmitt í Þjóðleikhúsið. Ég fór í boði afa og ömmu sem voru bæði á svæðinu og svo kom mamma líka með. Leikritið sem við sáum heitir Halti Billi og er eftir ungt írskt leikskáld. Ég hafði áður séð leikrit eftir þennan sama höfund. Það var í Borgarleikhúsinu og þá fór ég líka með ömmu og afa. Það leikrit hér Fegurðardrottningin frá Línakri. Þar var á ferð meistaraverk. Átök, vonbrigði, svik, hryllingur og harmleikur mynduðu magnaða heild. Það var líka svo vel leikið að á tímabili langaði mig til að hlaupa upp á sviðið og reyna að koma viti fyrir persónurnar. Þetta er ein eftirminnilegasta leikhúsferð ævi minnar og ég hef oft hugsað um hana síðan. Það sama get ég því miður ekki sagt um sýninguna sem ég sá síðastliðinn laugardag. Ég veit ekki hverju er um að kenna. Leikurinn var ekki beint lélegur, bara skelfilega ósannfærandi. Persónurnar voru allar afar ýktar og fóru í taugarnar á mér í stað þess að vekja samúð. Það er erfitt að segja hvort textinn sjálfur hafi verið verri en ég er ekki frá því.
Á eftir leikritið fór ég svo með Vöku, Ástu og Álfheiði á Sólon. Það var bara mjög gaman en ég eyddi svakalega miklum pening sem var ekki gott.

Tuesday, January 21, 2003

eitthvað hefur bloggbínan verið slöpp undanfarna daga en hún er nú öll að hressast og þá verður heimurinn samur.

Alltaf er ég að lenda í einhverju skemmtilegu. Þannig er mál með vexti að ég hef verið að reyna sækja um hjá Stúdentagörðunum undanfarnar vikur en ekki gengið. Svo virðist sem umsóknarferli þeirra á internetinu samþykki ekki mína glæsilegu kennitölu. Þetta er allt hið dularfyllsta mál, þegar ég er búin að fylla út og ætla að halda áfram þá kemur bara kassi sem í stendur: "Please only a Icelandic social security number" Þar sem Stúdentagarðarnir eru svo gasalega tæknivæddir sem mér mundi undir eðlilegum kringumstæðum finnast frábært þá er ekki hægt að sækja um á pappír og því get ég bara alls ekkert sótt um. Þetta gæti enginn nema Albaunin óheppna. Kennitalan mín er gölluð, ég er í rusli.

Ég er búin að vera meiripart dagsins upp á Bókhlöðu að þykjast vera að gera eitthvað en þar sem ég er lélegur leikari hefur það ekki tekist vel. Ég ætlaði að kaupa hefti fyrir skólan í dag og mætti samviskusamlega milli 12 og 13 þegar heftið átti að fást keypt. Albaunin óheppna var hinsvegar svo mikill snillingur að koma í þann mun sem verið var að selja seinasta heftið sem til var.

Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með hve fá svör hafa borist við styrkbeiðni minni. Því auglýsi ég hér með að enn er tekið við styrkjum frá bæði einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.

Ég varð fyrir miklu áfalli þegar ég kom á Hlöðuna eftir of langt jólafrí. Búið var að færa nestistofuna af 4. hæð niður á þá fyrstu við hlið veitingasölunnar. Við það fækkaði borðum um eitt og rýmið sem nestarar höfðu til umráða um meira en helming. Af þessu leiðir að "nestisstofan" er alltaf full og það má ekki sitja á borðunum í veitngasölunni þó að þar sé yfirleitt nóg af lausum borðum. Nestarar verða því bara að éta það sem úti frýs. Það sorglegasta er þó að hin hataða ruslatunna úr nestistofunni fylgdi með í flutningunum en hún er með innbyggðum jógúrt og matarklíningarbúnaði. Hann virkar þannig að ef maður reynir að henda einhverju klínist maður allur út í matarleifum frá öðru fólki.
Já ég lifi erfiðu lífi.

Thursday, January 16, 2003

ÉG ER Á MÓTI KÁRAHNJÚKAVIRKJUN

Tuesday, January 14, 2003

Nú er erfitt að vera Albína því það er margt sem heillar. Á seinustu kóræfingu komu fram áætlanir um að kórinn skellti sér til London um Hvítasunnuna. Það yrði skemmtileg ferð og eftirminnileg. Ég hef aldrei komið til London og því langar mig mikið með. Á hinn bóginn var ég búin að ákveða að fara á Hróarskeldu í lok júní enda mun hin goðsagnakennda Iron Maiden koma þar fram og líklegt er að tækifærunum til að sjá töffarana spila fari að fækka. Fjárhagsstaða mín er aftur á móti alls ekki sterk um þessar mundir og standa því allar þessar áætlanir á brauðfótum. Að auki hafði ég áformað að vinna við fornleifauppgröft í sumar ef mögulegt væri til að öðlast reynslu og enginn nennir að ráða einhvern sem alltaf er í fríi í vinnu.
Ég óska því hér með eftir styrkjum til þess að ég geti haft það skemmtilegt í sumar. Áhugasamir geta send emil á albina@hi.is.

Monday, January 13, 2003

Jæja nú er ég loksins komin úr allt of löngu jólafríi.
Ég skil ekki afhverju kennsla í heimspekideild byrjar næstum viku seinna en í raunvísindadeild og samt er einkunnum skilað seinna.
Það hefur ýmislegt á daga mína drifið í jólafríinu. Ég fékk væga flensu og missti af rosa djammi. Alltaf jafn heppin.
Ég er búin að fara í fyrsta söngtíman og það var mjög gaman. Ég var aðallega að frussa. Það er víst voða gott upp á stuðninginn að gera. Kennarinn sagði að ég ætti að monta mig af því að ég hafi sungið háa C í fyrsta tímanum og geri ég það hér með.

Heimildamyndahornið
Ég sat ásamt móður minni í sófanum og horfði á rólyndislega heimildarmynd sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu. Hún hét Paradís á jörð eða eitthvað í þá áttina og umsjónarmaður var Ingólfur Margeirsson. Allt gerðist hægt enda myndin tekin í Flatey þar sem menn lifa lífinu með ró. Myndin fjallaði um Guðmund P. Ólafsson höfund bókanna Fuglar, Perlur, Ströndin og Hálendið í náttúru Íslands.
Undir lokin fóru þeir saman í litlu bókhlöðuna í Flatey og ræddu um viðgerðir á henni sem Guðmundur tók þátt í. Svo tóku þeir bókina Hálendið upp og byrja að blaða í henni. Þegar Guðmundur finnur sérlega fallega mynd af Köldukvíslareyrum sem eru sokknar undir uppistöðulón rífur hann myndina úr bókinni. Svo rífur hann mynd af Fögruhverum sem líka er búið að sökkva. Svo af dimmugljúfrum, Fagradal, Kiðagili, Þjórsárverum, Langasjó, Skaftá og fleiri stöðum sem áform eru uppi um að sökkva eða breyta á einhvern hátt vegna uppistöðulóna og virkjanna. Þetta var sannarlega áhrifamikið og þegar hann var búinn að rífa fjöldan allan af myndum lokaði hann bókinni. Blaðsíðurnar lágu eins og hráviði um allt gólf. Ég hugsaði með mér að það væri eins gott að fara að skoða allar þessar gersemar áður en þær verða mannkyninu að eilífu horfnar.

Lestrarhornið
Um jólinn las ég all nokkrar bækur eins og flestir Íslendingar og hafði gaman af. Þetta skiptið fékk ég þó aðeins tvær bækur í jólagjöf sem er óvenju lítið. Ég bætti mér það upp með því að fara á Borgarbókasafn og taka 7 bækur. Þær voru reyndar flestar fræðilegs eðlis. Ég er búin að lesa tvær af þeim og var önnur ótrúlega skemmtileg.
Það var In the Shadow of Man eftir Jane Goodall og fjallar um rannsóknir hennar á simpönsum í Tansaníu. Skemmst er frá því að segja að þetta var ein skemmtilegasta bók sem ég hef lesið lengi og auk þess mjög fræðandi. Sagt er frá simpönsunum sem Goodall rannsakaði í tæpan áratug. Þeir heita allir mannanöfnum og persónuleikum þeirra, samskiptum og lífshlaupi er lýst á einstæðan og spennandi hátt. Ég fór meira að segja að gráta þegar einn apinn dó á sérlega harmrænan hátt.